«

»

Molar um málfar og miðla 1231

Góðvinur Molanna, Helgi Haraldsson, prófessor emerítus í Osló, sendi eftirfarandi: „„Að sjálfsögðu eru þau ekki búin að slíta samvistir og hún verður auðvitað hér á þjóðhátíðardaginn,“ segir Örnólfur Thorsson,“ Helgi bætir við:
,,Ég trúi því ekki að Örnólfur hafi komist svona að orði!” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Í Kringlunni (14.06.2013) vék sér maður að Molaskrifara og þakkaði fyrir Molana. Hann nefndi tvennt sem hann vildi gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi sagði hann réttilega að nú væri í tísku að tala um til dæmis einhver fimm ár , þegar átt væri við um það bil fimm ár. Þetta er rétt. Þetta einhverskonar tískuþýðing úr ensku, þar sem stundum er tekið svona til orða. Í öðru lagi spurði hann: Hversvegna tala menn um heilbrigða skynsemi? Er ekki skynsemi ævinlega heilbrigð? Góðar ábendingar, sem hér með er vakin athygli á.

Ekki er metnaður umsjónarmanna morgunútvarps Rásar tvö í Ríkisútvarpinu mikill. Ekki meðan þeir halda áfram að hella yfir okkur ambögum og amerísku leikaraslúðri á föstudagsmorgnum. Þar var (14.06.2013) sagt um mann að hann hefði verið myrkur í máli, – verið svartsýnn. Þetta er ekki í samræmi við málvenju. Venja er að segja um þann sem segir skoðun sína umbúðalaust að hann sé ekki myrkur í máli.

En talandi um ambögur í morgunútvarpinu, þá talaði alþingismaðurinn Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis í viðtali þennan sama morgun um ,,útdælingu fés” úr ríkissjóði! Líka talaði hún um menn sem beiluðu sig út. Það var og. Ætli Framsóknarmenn almennt hafi skilið konuna? Það er ekki víst að þeir séu allir mjög góðir í ensku. Oft sletta þeir hinsvegar mestri ensku sem minnsta ensku kunna. Það er gamall sannleikur og nýr.

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (14.06.2013) var sagt frá mótmælum Hollvinasamtaka Ríkisvarps gegn lagabreytingum sem menntamálaráðherra beitir sér fyrir í þá veru að breyta reglum um kjör stjórnar Ríkisútvarpsins. Ráðherra vill að Alþingi kjósi stjórnina eins og gert var í áratugi í stað flókins valfyrirkomulags sem nú er við lýði. Hvernig nýtt fyrirkomulag reynist, fer auðvitað eftir því hvaða einstaklingar veljast í stjórnina. Ekki eingöngu hvernig kosið er. Það er ekki sjálfgefið að nýtt fyrirkomulag gefist verr en það sem nú er notast við. Það var hinsvegar athyglisvert að í morgunfréttinni þar sem vitnað var í Hollvinasamtökin var talað um fréttatilkynningu, ,,sem samtökin sendu frá sér í nótt”. Það hefur ekki mikið heyrst frá þessum sjálfsagt ágætu samtökum um langt skeið. Kannski starfa þau bara á nóttunni?

Fréttabarn á laugardagsvakt á mbl.is (15.06.2013): Þota sem verið var að prófa vélarnar á tók allt í einu á rás og klessti á flugskýli á Chino flugvelli í Kaliforníu í dag Það klessa engir á nema fréttabörn í fjölmiðlum. Þota sem verið var að prófa vélarnar á! Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/06/14/strokuflugvel_flaug_a_flugskyli/

Margir kváðu sér hljóðs, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (14.06.2013). Hér ruglaði fréttamaður saman sögnunum að kveða (kvað, kváðum, kveðið) , segja , yrkja, syngja og sögninni að kveðja (kvaddi, kvatt) að heilsa eða kveðja. Hann hefði átt að segja: Margir kvöddu sér hljóðs. Í sama fréttatíma var rætt við mæðgur sem sinna löggæslu á Suðurlandi. Fréttamaður sagði að þær væru báðar með kylfur í beltunum. Betur hefði farið á því að segja að báðar væru með kylfu við belti. http://www.dv.is/frettir/2013/6/14/hopur-barna-fell-af-hestbaki-thegar-okufantur-flautadi-i-ofbodi/

Í dv.is (14.06.2013) er talað um litlu hestaknapana . Hér hefði nægt að tala um litlu knapana.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

2 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Sæll og blessaður, Þorgrímur. Þetta átti nú eiginlega að bvera hálfgerður brandari ! Hótfyndni líklega , en meinfýsin bvar ekki innifalin af minni hálfu. K kv Eiður

  2. Þorgrímur Gestsson skrifar:

    Sæll Eiður og takk fyrir marga ágæta málfarspistla.
    Mig langar samt til að gera eina athugasemd: Þetta átti að heita ályktun, það að kalla það fréttatilkynningu var alfarið ákvörðun fréttamanns Ríkisútvarpsins. Um tímasetninguna vil ég bara segja: Ég setti saman þessa ályktun eftir að við höfðum rætt um efni hennar á fundi, sendi hana út til stjórnarmanna, þeir gerðu athugasemdir, ég fór eftir þeim og sendi hana á ný til stjórnarmanna. Þetta teygðist fram yfir miðnætti og ég ákvað að senda ályktunina strax frekar en bíða morguns. Mér finnst það nú vera óþarfa meinfýsi af þér að láta skína í að við vinnum á nóttunni – í skjóli myrkurs eða hvað? Og um ágæti þessa tilnefningafyrirkomulags má deila en við teljum að með því móti sem komið var á við síðustu lagabreytingu hafi yfirráð yfir almannaútvarpi okkar verið fært frá beinu boðvaldi stjórnmálaflokkanna en vitanlega finnst stjórnmálamönnunum miður að geta ekki reynt að segja fréttastofunni fyrir verkum, í krafti valds. Við lögðum reyndar til að stjórnin yrði skipuð fulltrúum enn fleiri samtaka, en þetta var í áttina.
    Með kveðju,
    Þorgrímur Gestsson, formaður Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins.

  1. Starfa Hollvinasamtök aðeins á nóttunni? skrifar:

    […] reglubundnum pistli um fjölmiðla og málfar segir Eiður að fyrirkomulag sem menntamálaráðherra vill, hafi verið viðhaft „í áratugi […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>