«

»

Molar um málfar og miðla 1232

Molalesandi vitnar í netfrétt á dv.is (15.06.2013) um lát fyrsta Ferrari sigurvegarans.), en þar segir:
,,Gonzalez keppti í formúlunni þar til árið 1960. Luca di Montezemolo forseti Ferrari samsteypunnar syrgir Gonzales og segir fyrirtækið hafa misst sannan vin. „ Fréttin af andláti Gonzales syrgði mig mikið. Við spjölluðum nýverið saman, töluðum um kappakstur og bíla eins og honum þótti skemmtilegast. Í öll þessi ár þá hefur hann alltaf verið hluti af Ferrari bæði sem ökumaður og persóna og hann á stóran þátt í sögu fyrirtækisins“ sagði Montezemolo.” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það er ekki góður fréttaskrifari sem gerir ekki greinarmun á sögnunum að syrgja og hryggja. Líklega ætti hann læra betur eða leita sér að annarri vinnu.

Fréttabörn voru á vakt á fréttastofu Bylgjunnar á laugardegi (15.06.2013) Meðal gullkorna sem þar mátti heyra var: , einstaklingurinn finnur friðhelgi sitt skreppa saman …talað var um gift hjón, eru til ógift hjón? Talað var um að forsetahjónin á Bessastöðum væru slitin samvistum , – barátta dalsbúa fyrir umbótum hafa staðið undanfarin fimm ár , … og svo var tvívegis talað um arkitektastofuna á Selfossi sem sigraði keppnina. Halló Bylgja! Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Ekkert gæðaeftirlit með framleiðslunni? Öllu bara gusað yfir okkur? Það er með ólíkindum að koma öllum þessum ambögum inn í einn fréttatíma.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (15.06.2013) var sagt: … án þess að taka tillit til fullveldisrétts Alþingis. Eignarfallið af karlkyns nafnorðinu réttur er réttar , ekki rétts. Hvar er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins?

Í sama fréttatíma var haft eftir Þorsteini Pálssyni að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hætta viðræðum við ESB væri lítilsvirðing á fullveldi Alþingis. Sama orðalag var notað á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Þetta sagði Þorsteinn ekki í pistlinum sem vitnað var í. Hann sagði: ,,Ekki er unnt að lítilsvirða fullveldi Alþingis meir”. Málvenja er að tala um lítilsvirðingu við ekki á. Þannig er málkennd Molaskrifara í það minnsta. http://www.ruv.is/sarpurinn/hadegisfrettir/15062013/litilsvirding-a-fullveldi-althingis

Ríkisflokkar fengu styrki frá sjávarútvegi segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (16.06.2013): http://www.ruv.is/frett/rikisflokkar-fengu-styrki-fra-sjavarutvegi Hvað eru ríkisflokkar? Er það nýyrði yfir ríkisstjórnarflokkana? En það er kannski rétt, að nú eru þessir tveir orðnir einskonar ríkisflokkar. Kemur nokkrum manni á óvart að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fái mikið fé frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Fyrirtækin líta á styrki til þessara flokka sem fjárfestingu sem núna er að gefa þeim drjúgan arð með lækkun veiðileyfa gjaldsins.

Fréttamaður Ríkissjónvarps talaði hvað eftir annað um ofsa fátækt í fréttum (16.06.2013) Í fyrirsögn á fréttavefnum er reyndar talað um ofstafátækt. http://www.ruv.is/frett/utryma-a-ofstafataekt-fyrir-2030 Hvar er nú málfarsráðunautur? Hversvegna les enginn yfir áður en hlaupið er með illa skrifaðar fréttir að hljóðnemanum og þeim dembt yfir hlustendur?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>