Molavin sendi eftirfarandi: Af mbl.is (17.6.2013): ,,… hefur Ólafur hlotið flestar þær viðurkenningar sem íslenskur íþróttamaður getur fengið. Þar á meðal eru einnig hin íslenska fálkaorða og riddarakrossinn.“ Ef ungt blaðafólk þekkir ekki muninn þá er hægt að spyrja – eða nota leitarvél. Viðurkenningin ber heitið Riddarakross hinnar íslenzku fálkaorðu. Þetta eru ekki tveir ólíkir heiðurspeningar”. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Lesendur Morgunblaðsins geta varla þverfótað fyrir jákvæðum fréttum þessa dagana. ,,Jákvæð teikn á lofti á byggingamarkaði” segir í feitletraðri forsíðufyrirsögn (18.06.2013). Mikið er þetta nú gott. Það er eins og svartnættinu við Rauðavatn sé að linna. Von er að brúnin léttist á mönnum þegar fyrirhugað að létta miklum álögum af eigendum blaðsins með yfirvofandi lækkun veiðigjalds. Styrmir, fyrrverandi ritstjóri blaðsins skrifar meira að segja á Evrópuvaktina sína, að nú sé bjartara yfir 17. júní en verið hafi síðustu ár ! Ja, hérna.
Í fréttum að morgni þjóðhátíðardags var sagt frá kveðju Kerrys, bandaríska utanríkisráðherrans til íslensku þjóðarinnar með þeim orðum að Kerry þakkaði íslensku þjóðinni fyrir vináttu sína. Kveðjan birtist á vef bandaríska utanríkisráðuneytisins. Í henni þakkar Kerry íslensku þjóðinni fyrir vináttu sína og sameiginleg gildi. Molaskrifari hefðin orðað þetta á annan veg.
Nýlega var vikið hér að erfiðleikum sumra fjölmiðlamanna með að fara rétt með beygingu orðanna systur og bróður. Sama gildir um orðið faðir, sbr. visir.is (17.06.2013). http://www.visir.is/minnist-latins-fodurs/article/2013130619250. Bæði í fyrirsögn og meginmáli fréttar er notað eignarfallið föðurs í stað föður. Molaskrifari hélt reyndar að þetta væri kennt í grunnskólum landsins. Sá sem þetta skrifaði virðist með öllu hafa sloppið við þá fræðslu.
Sjaldgæft er að sjá jafnómerkilegan skæting í garð Sinfóníuhljómsveitar Íslands eins og Morgunblaðið lét sér sæma að birta eftir Árna Johnsen, fyrrverandi alþingismann, á þjóðhátíðardaginn. Þingmanninum fyrrverandi þykir sinfóníuhljómsveitin ekki meta hann að verðleikum sem tónskáld. Og lái henni nú hver sem vill! Við eigum frábæra sinfóníuhljómsveit, – hún er á heimsmælikvarða. Sem betur ber hafa stjórnendur hennar og flytjendur góðan tónlistarsmekk. Umtalsvert betri en umræddur fyrrverandi alþingismaður.
Hversvegna þurfa ráðherrar að slá um sig með enskuslettum? Í Fréttablaðinu (19.06.2013) segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra: … því við erum augljóslega með ákveðið trend í þessum efnum … ráðherrann er að tala um ákveðna þróun eða tilhneigingu. Nýlega talaði þingmaður Framsóknarflokks, Vigdís Hauksdóttir í útvarpi um að beila út. Formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði við þjóðina á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn: ,, Íslensk tunga og orðsins list er líklega mikilvægasta arfleifð okkar. Þess vegna ber okkur skylda til að styðja við íslenskuna”. Hann hefur verk að vinna innan þingflokks Framsóknarflokksins. Hann gæti til dæmis endurflutt remburæðu sína frá Austurvelli 17. júní á þingflokksfundi. Það færi vel á því. Íslenskir stjórnmálamenn eiga að tala íslensku við Íslendinga. Kannski þingflokkur Framsóknar ráði sér málfarsráðunaut. Hver veit?
Aðilar troða sér allsstaðar. Líka inn í bíla. Úr bílablaði Morgunblaðsins (18.06.2013): .. og fótaplássið er nægjanlegt þó svo að framsætið sé stillt fyrir hávaxna aðila.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Gunnar skrifar:
20/06/2013 at 22:14 (UTC 0)
Mér varð litið á útsendingu frá Alþingi örstutt í dag og sá þar nýjan þingmann Sjóræningjaflokksins, Jón Þór Ólafsson, stíga í pontu. Sitjandi forseti Alþingis var Steingrímur J. Sigfússon. Jón gekk í pontu, áréttaði föðurnafn sitt, sem Steingrímur tafsaði eitthvað á, og tók síðan til máls án þess að ávarpa þingheim. Mér finnst miður að nýir þingmenn skuli vanvirða þessa æðstu stofnun íslenska lýðveldisins. Auk þess sem hann sagði: „Ég vill …“ sem mér finnst ekki eiga að heyrast úr ræðupúlti Alþingis.
Eiður skrifar:
20/06/2013 at 21:44 (UTC 0)
Kærar þakkir, Sigurður. Ósköp að heyra!.
Sigurður Karlsson skrifar:
20/06/2013 at 21:15 (UTC 0)
Það eru ekki bara orðin faðir, systir og bróðir sem geta verið erfið í beygingu, sama gildir um móðir og dóttir.
Ég heyrði að minnsta kosti ekki betur en málglaður þingmaður Framsóknar (ekki ráðherra enn) væri að tala um verk Jóhönnu Sigurðardóttar.
Eiður skrifar:
20/06/2013 at 12:57 (UTC 0)
Sammála þér, Eirný. Kærar þakkir.
Eiður skrifar:
20/06/2013 at 12:56 (UTC 0)
Það voru góðar fréttir. Minnir að þetta orðalag hafi heyrst áður.
Eirný Vals skrifar:
20/06/2013 at 12:09 (UTC 0)
Fyrst ég er byrjuð þá virðist ég vart geta hætt.
Ég heyrði í útvarpi og las svo í vefútgáfu Morgunblaðsins að þingmaður Framsóknarflokksins hefði haldið jómfrúarræðu.
Ég hef aldrei heyrt fyrstu ræðu kallaða annað en jómfrúrræðu. Ég leitaði á náðir Árnastofnunar, þar þekkist jómfrúrræða en jómfrúarræða er óþekkt.
Þegar ég velti málinu betur fyrir mér þá finnst mér jómfrúarræða vera ræða jómfrúar á meðan jómfrúrræða er ræða óspjallaðs ræðumanns.
Eirný Vals skrifar:
20/06/2013 at 12:02 (UTC 0)
Gat ekki heyrt annað í fréttum ríkisútvarpsins kl. 11.00 fimmtudaginn 20. júní en að innbrotum hjá lögreglunni hefði fækkað.
Eirný Vals skrifar:
20/06/2013 at 10:50 (UTC 0)
Fréttin er langt í frá skopleg en orðalag er einkennilegt.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/06/19/mannskaed_flod_i_frakklandi/
-skyndiflóð gekk yfir-