… og er hlutunum staflað hver upp á annan, var sagt í seinni fréttum Ríkissjónvarps (18.06.2013) Hversvegna les enginn fréttirnar yfir áður en ambögurnar eru látnar dynja á okkur?
Fjöldi þorpa hafa einangrast, var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarps (19.06.2013). Molaskrifari hefði sagt: Fjöldi þorpa hefur einangrast.
Haft var eftir Þorsteini Sæmundssyni nýjum þingmanni Framsóknarflokksins í sex fréttum Ríkisútvarps í gærkveldi (20.06.2013) : „Og það er sorglegt til þess að vita að 27 þúsund mætir Íslendingar skuli nota lýðræðislegan rétt sinn og áhuga á samfélagsmálum til að skrifa undir áskorun um að núverandi lög verði framlengd óbreytt og verði þannig til þess að ekkert sérstakt veiðigjald verði lagt á útgerðina á næsta ári.“ Molaskrifari hélt sér hafa misheyrst. Nei. Aldeilis ekki. Ótrúleg ummæli. Sjá: http://www.ruv.is/frett/%E2%80%9Espurning-hverju-er-verid-ad-motmaela%E2%80%9C Sérkennileg hjörð sem kjósendur Framsóknarflokksins sendu til þings í vor. Ekki var minnst á þetta í sjónvarpsfréttunum klukkan 19 00. Skrítið. Þetta var sannarlega frétt.
Í upphafi frétta Stöðvar tvö (19.06.2013) var sagt að kvennafrídagurinn hefði verið haldinn hátíðlegur í dag. Molaskrifari hefur alltaf staðið í þeirri meiningu að 19. júní væri kallaður kvenréttindadagurinn , en að kvennafrídagurinn væri 24. október 1975 , en þann dag tóku íslenskar konur sér frí frá vinnu til að vekja athygli á misrétti kynjanna og framlagi sínu til samfélagsins. Tugir þúsunda kvenna mættu til mótmælafundar á Lækjatorgi og vakti þetta heimsathygli.
Grillþættir Hrefnu Sætran í Ríkissjónvarpinu eru um flest prýðilegir eins og áður hefur verið vikið að i Molum. En það er heldur þunnur þrettándi að vera með endursýnt á besta tíma kvölds eins og Ríkisjónvarpið gerir nú.. Niðursoðna konurödddin sem kynnir dagskrána hafði ekki rænu á að segja okkur að þátturinn hefði verið sýndur áður á miðvikudagskvöldið (19.06.2013). Kannski er henni bannað að segja okkur það. Það er beinlínis óheiðarlegt gagnvart hlustendum að segja okkur ekki, þegar verið er að endursýna efni , heldur láta svo sem um nýja þætti sé að ræða. Þetta hefur Molaskrifari nefnt áður og blöskrar þessi framkoma stjórnenda í Efstaleiti við viðskiptavini sína, – eigendur Ríkisútvarpsins. Svona gera alvöru sjónvarpsstöðvar ekki. Allra síst þær sem eru í almannaeigu.
Lesa verður prófarkir og leiðrétta villur í skjátextum í sjónvarpi eins og annarsstaðar. Á miðvikudagskvöld var kynnt á skjá Ríkissjónvarpsins myndin Secred State. Orðið secred er ekki til í ensku. Myndin heitir Secret State. Óvandvirkni. Enginn les yfir frekar en fyrri daginn.
Í fréttum Stöðvar tvö (19.06.2013) vitnaði fréttamaður í dóm Hæstaréttar í nauðgunarmáli og sagði: ,, … þvert á móti segir í dómnum að stúlkunni hafi verið missaga”. Molaskrifari efast mjög um að þannig sé tekið til orða í dómi Hæstaréttar. Rétt hefði verið að segja: Stúlkan varð missaga.
Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins sama kvöld var talað um byltinguna í Berlín 17. júní 1953. Molaskrifari hefur aldri heyrt uppreisnina og mótmæli verkamanna í Austur Berlín þennan dag áður nefnd byltingu. Verkamenn gerðu uppreisn sem var bæld niður með hervaldi. Tala látinn er á reiki , frá 56 til 125. Allmargir hlutu dauðadóma fyrir þátttöku í þessari uppreisn verkamanna gegn kúgun kommúnismans. Þjóðviljanum málgagni íslenskra kommúnista þótti lítið til þessara atburða koma. Forsíðufrétt í Þjóðviljanum 19. júní 1953 var um að Bandaríkjamenn ætluðu að koma upp herstöð á Snæfellsnesi í grennd við Hellissand.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
Skildu eftir svar