«

»

Molar um málfar og miðla 1235

Molalesandi á Norðurlandi hafði samband við skrifara og benti á frétt á bls. 6 í Morgunblaðinu á miðvikudag (19.09.2013). Þar stendur: Einnig hefur Sigurður heyrt slíkt hið sama um tvo bónda í Borgarfirði. Molaskrifari leggur til að ritstjóri taki þann sem þetta skrifaði í bóndabeygju og hlýði honum yfir beyginguna á orðinu bóndi í fleirtölu, bændur, um bændur, ….. Fleirtalan er nefnilega ekki bóndar heldur bændur og er þetta kennt í grunnskólum landsins.

Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort útvarpshlustendur og sjónvarpsáhorfendur deili óstjórnlegum (og honum óskiljanlegum) áhuga íþróttafréttamanna á ráðnum og reknum íþróttaþjálfurum. Ekki bara þjálfurum á Íslandi heldur og þjálfurum hjá allskonar mismerkilegum íþróttaliðum um víða veröld.

Okkar ágæta Morgunblaði verður margt að áhyggjuefni. Á kvenréttindadaginn 19.júní var leiðarahöfundar blaðsins með böggum hildar vegna kostnaðar við fyrirhugaða ferð Obama Bandaríkjaforseta um Afríku. Enginn leiðari var hinsvegar um kvenréttindi á kvenréttindadaginn. Þess hefur ekki orðið vart að ferðakostnaður Ólafs Ragnars Grímssonar hafi orðið Morgunblaðinu áhyggjuefni í leiðaraskrifum. Að minnsta kosti ekki nú seinni árin.
Forseti Íslands fer í lengri opinberar heimsóknir (og þá væntanlega dýrari) en flestir aðrir þjóðhöfðingjar. Föruneytið er einnig jafnan fjölmennt. Hann verður með margmenni hjá Merkel í Þýskalandi alla næstu viku. Þegar forsetinn heimsótti Kína í maí 2005 var heimsóknin lengri en reglur Kínverja leyfðu. Þess vegna urðu forseti og fylgdarlið að dveljast á hóteli síðustu daga heimsóknarinnar. Kínverjar greiddu ekki þann reikning. Forseti þurfti margt að ræða við kínverska ráðamenn og var þetta þó áður en hann fann upp hitaveituna.

Í Molum hefur verið minnst á aðila sem ríða húsum fjölmiðla og eru á stundum aðal söguhetjur í dagbók lögreglunnar. Málglöggur Molalesandi benti á að sífellt væri tönnlast á orðinu samkeppnisaðilar og allir gleymdu því góða orði keppinautar. Réttmæt ábending.

Allar vörur tax free, er auglýst í Ríkisútvarpinu (20.06.2013). Auglýsingar í útvarpi allra landsmanna eiga að vera á íslensku. Sennilega heldur auglýsingadeildin að tax free sé íslenska. Svo er reyndar ekki. Ekki enn þá.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorleifur Gíslason skrifar:

    Texti verður varla lélegri en þetta.
    MBL.Frétt í dag

    Gaupa gekk laus í Saint-Tropez

    Franska lögreglan tókst í dag að handsama gaupu sem sloppið hafði frá rússneskum eigendum sínum í ferðamannabænum Saint-Tropez í suðurhluta Frakklands. Dýrið slapp frá glæsivillu sem fólkið hefur á leigu í gær.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>