«

»

Molar um málfar og miðla 1260

Fyrirsögn á mbl.is (18.07.2013): Ólafsfjarðaráin opnar. Ekki var sagt hvað áin opnaði. Líklega var verið að segja lesendum að veiði værihafin í Ólafsfjarðará.

http://www.mbl.is/veidi/frettir/2013/07/18/olafsfjardarain_opnar/ Í fréttinni segir: Könnunarleiðangur á vegum SVAK fór fram í fyrradag, 16. júlí, í Ólafsfjarðará. Það var og, – könnunarleiðangur fór fram í ánni! Þarna mætti ýmislegt betur fara.

 

Stöð tvö hefur lítinn metnað til að þýða heiti erlendra þáttaraða. Þar er sýndur myndaflokkur sem á ensku heitir The Newsroom. Ekki væri þó flókið að þýða heitið og kalla þáttinn Fréttastofuna. Þessi myndaflokkur er sýndur í færeyska sjónvarpinu og heitir þar Tíðindadeildin, muni Molaskrifari rétt.

 

Í fréttayfirliti kvöldfrétta Ríkisútvarpsins (19.07.2013) var sagt frá umsvifum Ístaks í Noregi og að þar störfuðu menn við gangnagerð, – jarðgangagerð. Málfarsráðunautur þarf, sé hann enn til staðar, að láta til sín taka, því þessi villa heyrist aftur og aftur. Eignarfall orðins göng er ganga en eignarfall fleirtöluorðsins göngur, fjárleitir er gangna. Í fréttinni var þetta hinsvegar rétt og er skylt að geta þess. Ef málfarsráðunautur er ekki lengur í Efstaleiti gæti Sveinn Helgason fréttamaður sem hafði þetta rétt í fréttinni kannski leiðbeint þeim kollegum sínum sem ráða ekki við þetta.

 

Sumir lögmenn virðast geta spilað á fjölmiðla eins og hljóðfæri og komið sér og sínum málum í fréttirnar af minnsta tilefni. Þannig líða ekki margar vikur milli frétta af lögmanninum Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, skjólstæðingum hans og málaferlum bæði í Ríkisútvarpi og dagblöðum. Sumt af þessu hefur vægast sagt takmarkað fréttagildi. Í gamla daga vöruðu yfirmenn okkur fréttamenn við lögmönnum sem sífellt reyndu að troða sér og sínum málum inn í fréttatímana.

 

…. sem liggja á bak við þessum upphæðum, sagði Framsóknarþingmaður í fréttum Stöðvar tvö (21.07.2013). … sem eru að baki þessum upphæðum hefði verið betra.

 

Á laugardagsmorgni (20.07.2013 ) var í Ríkisútvarpinu haldið áfram að staglast á enskuskotinni auglýsingu frá veitingastað á Akureyri sem kallar sig Kungfu Sticks AND Sushi. Í sama auglýsingatíma auglýsti annar veitingastaður á Akureyri HAPPY HOUR  milli klukkan 16 og 18. Auglýsingar í íslensku Ríkisútvarpi eiga að vera á íslensku. Ef til vill  er almennt farið að tala ensku á Akureyri. Það gerir kannski útlandaloftslagið sem þar hefur verið í allt sumar.

 

Ríkissjónvarpið auglýsti Carlsberg undir yfirskini léttöls í útsendingunni frá knattspyrnukappleiknum í Svíþjóð á sunnudaginn (21.07.2013). Um þá sem eru óforbetranlegar er stundum sagt að þeir kunni ekki að skammast sín. Hversvegna láta rétt yfirvöld Ríkissjónvarpinu haldast þetta uppi  átölulaust?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Aldrei heyrt þetta orð. En eigum við að reyna að get
    aa okkur til um merkinguna?

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,

    Nú í kvöld sendi einn af „málfarssnillingum“ mbl.is frá sér frétt um andlát bandaríska leikarans Dennis Farina. Ég gríp hér í miðja fréttina.

    „Verið var að vinna að bíómynd í Chicago og Farina var fenginn til að leiðsaga leikstjóra myndarinnar um borgina“

    Ég veit ekki hvað er að leiðsaga. Veist þú það Eiður ?

    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>