«

»

Molar um málfar og miðla 1259

Haft er eftir Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra á visir.is (18.07.2013): ,,Mér er alveg sama þó það sitji fjórar Láru Hönnur í stjórn. I couldn´t care less. Ég þarf bara að passa mig á lögunum. Það er mín skylda,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. – Þetta getur ekki verið rétt eftir ráðherranum haft. Svona talar ekki menntamálaráðherra. Ekki sá sem á að vernda íslenska tungu. http://www.visir.is/illugi-gunnarsson-barnalegt-upplegg-i-laru-honnu-malum/article/2013130719234

 

Kim rífur þögnina, sagði í fyrirsögn á visir.is (18.07.2013). Væntanlega alveg í tætlur. Sjá: http://www.visir.is/kim-rifur-thognina/article/2013130719261

 

Ekki heyrði Molaskrifari betur en rétt fyrir hádegisfréttir Ríkisútvarpsins  væri auglýsing um að veitingastaður gæfi út at borða! Veitingastaðurinn,sem er á Akureyri, var kallaður Kung Fu Sticks AND Sushi. Það er ekki að spyrja að auglýsingadeild Ríkisútvarpsins í Efstaleiti. Það er oft eins og enginn í Efstaleiti hlusti á lestur auglýsinga og frétta.

 

Af eyjan.is (18.07.2013): Aðspurður hvort hann neiti fyrir þessa frásögn segir Steingrímur: –  Það er ekkert til sem heitir að neita fyrir. Það er hægt að þræta fyrir eða hafna, afneita, eða þræta fyrir. Hér hefði farið best á því að segja, til dæmis: Er þessi frásögn tilhæfulaus að dómi Steingríms?

 

Gunnar skrifaði (18.07.2013): „Nú erum við að brjóta einhver blöð í útvarpi,“ sagði Þórður Helgi Þórðarson á Rás 2 í gærmorgun. Það er talað um að brjóta blað í sögu einhvers, sé eitthvað gert sem aldrei hefur verið gert áður. En þetta orðalag útvarpsmannsins er út í hött. – Kærar þakkir, Gunnar. Líka er talað um að brjóta í blað. Meira bullið, sem stundum heyrist á Rás tvö.

 

Baltasar Kormákur vinnur hörðum höndum að undirbúningi …. var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (18.07.2013). Að vinna hörðum höndum er sennilega ofnotaðasta klisja tungunnar.

 

Mikilvægt er að fara rétt með orðtök. Í fréttum Stöðvar tvö (18.07.2013) var sagt: … af pólitískum rótum spunnin. Hefði átt að vera: .. af pólitískum róttum runnin.

Í sama fréttatíma var sagt: Við þeim óskum hafi ekki orðið. Þetta er út í hött. Fréttamaður hefði átt að segja: Við þeim óskum var ekki orðið. Nauðsynlegt er að fréttamenn hafi gott vald á tungunni.

 

Aníta Hinriksdóttir rúllaði upp sínum riðli, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (18.07.2013). Fréttamaður sem svona tekur til orða ber ekki mikla virðingu fyrir starfi sínu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>