«

»

Molar um málfar og miðla 1258

Páll Vilhjálmsson ESB andstæðingur,(blaðamaður), ásakaði fréttamann Ríkisútvarps um falsanir á þýðingu ummæla formanns leiðtogaráðs Evrópuráðsins í Moggabloggi sínu á þriðjudag (16.07.2013). Þessi ásökun var algjörlega tilhæfulaus. Hún er gott dæmi um málflutning  þar sem menn svífast einskis  og láta staðreyndir ekkert þvælast fyrir sér.  Það var ekkert athugavert við þýðingu fréttamanns Ríkisútvarpsins á þessum ummælum. Ekkert. Þetta var hárrétt þýðing. Morgunblaðið var ekki lengi að taka við sér. Það tók heils hugar undir  ásakanir Páls Vilhjálmssonar, sem alltaf kallar sig blaðamann í leiðara á miðvikudag. Morgunblaðið er eins og Páll Vilhjálmsson  þekkt fyrir vandaðar þýðingar úr erlendum málum, allt frá því að sagt var frá konunni sem gekk á krukkum (d. krykker) , Staff hershöfðingja, (e. general staff) og Búlgaranum Fake sem heimsótti lögreglumanninn Hideout, ( e.The fake policeman went to the Bulgarians hideout, úr þýðingu á myndasögu um James Bond). Svo eru fleiri dæmi nær okkur í tímanum sem meðal annars hafa verið rakin hér í Molum.  Morgunblaðið var nefnilega farið að nota Google þýðingarvélina áratugum áður en hún var fundin upp. Svo hefur þessi ranga þýðing verið talin þjóna málstaðnum í Hádegismóum.

 

Molavin skrifaði (17.07.2013): ,,Morgunblaðið segir í dag (17.7.) frá köfunarferð Rússlandsforseta niður að skipsflaki, Haft er eftir honum að skipið liggi á ,,hægri hliðinni.“ Auðvitað þekkir Pútín ekki hugtökin stjórnborði og bakborði, en það ættu Moggamenn að þekkja.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Gott viðtal við Þorstein Víglundsson í morgunútvarpi Rásar tvö (19.07.2013). Vonandi hafa ráðherrarnir og verið að hlusta.

 

Gunnar skrifaði (16.07.2013): ,,Leiðinlegt að heyra ambögur Hjörvars Hafliðasonar á Stöð 2 sl. sunnudag, þegar hann talaði m.a. um „kílómeter“, en ekki „kílómetra“.
Þá var með ólíkindum að heyra Magnús Hlyn Hreiðarsson fréttaritara Stöðvar 2, kalla hinn landsþekkta „Valda koppasala“ á Hólmi, í sífellu „Valla koppasala“. Það ber að vanda sig við allan fréttaflutning.”

Og Gunnar spyr (17.07.2013): ,,Er ekki snúið við orsök og afleiðingu í neðanskráðri klausu, sem finna má á vefsíðu Tímans (timinn.is)???

Skúrkurinn Snowden?

Tíminn | 12.07.2013 | Uppljóstrarinn

Edward Snowden er mjög umtalaður í fjölmiðlum þessa dagana og ekki að undra. Uppljóstrarinn hefur fylgst með þessum unga manni sem kom upp um stærstu persónunjósnir mannkynssögunnar á kostnað þess að hann situr nú á flugvelli í Moskvu, …” Jú, þetta er ekki rökrétt hugsað. Molaskrifari þakkar ábendingarnar.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (16.07.2013) var ítrekað talað um tvær heilsugæslur. Átt var við tvær heilsugæslustöðvar.

 

Í DV (17.07.2013) talar tæknimaður um að framkvæma símtal. Það hét einu sinni að hringja.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>