Í fréttum Ríkissjónvarps(15.07.2013) var sagt frá erlendum tónlistarmanni sem kom til landsins þann dag með stóru fylgdarliði. Betur hefði farið á því að tala um fjölmennt fylgdarlið, ekki stórt fylgdarlið.
Í fréttum Stöðvar tvö (15.07.2013) var talað um að stöðva mikilvægar umferðaræðar. Betra hefði verið að tala um að loka mikilvægum umferðaræðum eða stífla mikilvægar umferðaræðar. Þetta var í svokölluðu Heimshorni, þar sem hrúgað er saman nokkrum stuttum erlendum fréttum.
Í Íslandi í dag á Stöð tvö (15.07.20139 var rætt við mann sem komist hafði lífs af úr alvarlegu umferðarslysi vestur í Bandaríkjunum. Umsjónarmaður sagði: Björgunarmenn gátu með engu móti skilið hvernig hann gat gengið frá slysinu. Hér skín enskan í gegnum óvandað orðalag, – how he could walk away from the accident. Hvernig hann lifði slysið af.
Það er frekar lítið spennandi að hlusta á viðtöl í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 og sjá svo og svo koma sömu viðtölin myndskreytt í fréttum Ríkissjónvarps klukkustundu síðar. Þetta gerist kvöld eftir kvöld.
Rúmlega hálfs annars klukkutíma löng og tveggja ára gömul heimildamynd um bandaríska dagblaðið New York Times, sem Ríkissjónvarpið sýndi á mánudagskvöld (15.07.2013) var mjög áhugaverð fyrir þá sem hafa áhuga á fjölmiðlun,- blaðamennsku. Ekki ber að vanþakka þá örsjaldan Ríkissjónvarpið sýnir bitastæðar heimildamyndir, en betri staður í dagskrá fyrir mynd af þessu tagi hefði verið að loknum seinni fréttum, ekki strax að loknum fyrri fréttum.
Í myndatexta á forsíðu Morgunblaðsins (16.07.2013) segir: Það stefnir í úrkomumikla helgi á flestum stöðum á landinu, en bjartviðri norðan- og austanlands. Hmmm????
Gunnar skrifaði (16.07.2013): ,,Í lok almennra frétta Ríkissjónvarpsins á þriðjudagskvöldið, sagði María Sigrún Hilmarsdóttir: „Og þá er komið að íþróttunum, Edda Sif.“
Edda Sif Pálsdóttir: „Jess, og við byrjum á fótboltanum.“
Hvers vegna „jess“? Nægir ekki að segja já? Vill Edda Sif e.t.v. flytja okkur íþróttafréttirnar á ensku? Götutalmál á ekki heima í fréttatímum sjónvarps. Þetta bendir hugsanlega til þess að Edda telji þennan hluta fréttatímans skör neðar en aðrar fréttir?” Molaskrifari þakkar Gunnari Bréfið. Þetta var reyndar á mánudagskvöld, ekki þriðjudagskvöld. Enskuslettan fór fram hjá Molaskrifara en heyrist greinilega þegar hlustað er á fréttatímann á vef Ríkisútvarpsins
Af mbl.is (16.07.2013) : Vegna breytinga á áfengislöggjöfinni í Ástralíu spretta nú litlar krár upp víðsvegar um borgina. Ástralía sem sagt orðin borg! Hvar var prófarkalesarinn?
Þetta er ekkert að fara að hætta, segir í bíóauglýsingu frá SAM-bíóum sem nú er sýnd á Stöð tvö. – Þessu er ekkert að linna, þetta er ekkert að hætta.
Misserum saman hefur Molaskrifari gagnrýnt að stjórnendum Ríkisútvarpsins skuli haldast uppi að brjóta landslög og auglýsa áfengi. Ritstjóri DV, Reynir Traustason, tekur myndarlega undir þetta í leiðara DV (17.07.2013) Bjórvæðing RÚV, þar sem hann segir að Ríkisútvarpið sleppi með að ljúga því að bjór sé léttöl. Nú þarf menntamálaráðherra að koma lögum yfir stjórnendur Ríkisútvarpsins, ekki bara láta kanna hæfi einstakra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins til stjórnarsetu vegna þess að sá sem í hlut á þýðir neðanmálstexta við froðuséríu á Stöð tvö.
Sjá: http://www.dv.is/leidari/2013/7/17/bjorvaeding-ruv/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/07/2013 at 15:28 (UTC 0)
Takk fyrir ábendinguna. K kv Eiður
Jón skrifar:
18/07/2013 at 14:57 (UTC 0)
Ef þú ferð inn á Eyjuna þá má stundum sjá þar áfengisauglýsingu efst til hægri. Ekki léttöl heldur léttvín.