«

»

Molar um málfar og miðla 1269

Er Garðabær inn í dag? Þannig spurði fréttamaður Stöðvar tvö bæjarstjórann í Garðabæ í fréttum á mánudagskvöld (29.07.2013). Og bæjarstjórinn svaraði: Garðabær er inn og hefur verið inn bara mjög lengi og verður. Hallærisleg og óþörf enskusletta.

 

Umsjónarmaður Morgungluggans á Rás eitt í Ríkisútvarpinu sagði okkur í morgun (01.08.2013) að Vilhjálmur Bretaprins yrði næsti konungur Bretlands! Þess var að engu getið í fréttum.

 

Rafn skrifaði 29.07.2013: ,,Eftir allar þær tilfærslur, sem gerðar hafa verið á dagskrá Sjónvarpsins vegna boltaleikja undanfarið, þá kom það mér á óvart, að úrslitaleikur heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu kvenna skyldi aðeins sýndur á „íþróttarás“ sjónvarpsins (eða RUV fyrir þá sem velja það heiti).

Skýringin virðist þó blasa við þegar dagskráin er skoðuð. Á dagskrá var bein útsending frá golfkeppni.

Að sjálfsögðu kom ekki til álita að raska við útsendingu íþróttaefnis, þótt fréttaþáttum og öðrum föstum liðum megi kasta út í hafsauga, ef íþróttir kalla . Forgangröðunin virðist augljós.” Þetta er rétt. Molaskrifari var einmitt að velta þessu fyrir sér. En þetta er auðvitað skýringin..

 

Mikið eldingaveður hefur verið á Kili í dag og í gær, var skrifað á visir.is (29.07.2013). Á íslensku tölum við um þrumuveður eins og réttilega var gert á mbl.is.

 

Síðasta lag fyrir fréttir í hádegisútvarpi Ríkisútvarpsins (31.07.2013) var Mamma ætlar að sofna, ljóð Davíðs Stefánssonar. Þulur sagði að textinn væri eftir Davíð Stefánsson. Hvimleitt að heyra þennan þul aftur og aftur tala um ljóðskáld okkar sem textahöfunda.

 

Vitnað var í sjávarútvegsráðherra Framsóknarflokksins á dv.is (30.07.2013): Sigurður Ingi segir að ESB ráðist gegn smærri þjóðum en sambandið setji hljóðan þegar rætt sé um veiðar Rússa á makríl. Sambandið setur hljóðan! Það var og.

 

Fanney benti á eftirfarandi frétt á mbl.is: Bílar | mbl | 31.07 | 09:02

„Volvo-trukkur vann Porsche í spyrnukeppni“

Tvinntrukkur Volvo, sem gengur undir nafninu, Grimmur græni, hefur víða vakið athygli og sett met. Og nú hefur hann bætt einu afreki til viðbótar í safnið því á dögunum lagði hann sportbíl frá Porsche að velli í spyrnukeppni í Þýskalandi. Meira

„Grimmur græni“ er hér notað sem þýðing á „Mean Green“, sem í mínum huga nær hvorki merkingu né hrynjandi enska heitisins. “ – Takk fyrir sendinguna, Fanney.

 

Lesandi benti á þessa fyrirsögn á mbl.is (30.07.2013): Fækkun í útgáfu vegabréfa. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/07/30/faekkun_i_utgafu_vegabrefa/ Hann spyr hvort átt sé við að færri starfi nú við útgáfu vegabréfa en áður  eða hvort færri vegabréf séu gefin út en áður? Eðlilegt að spurt sé. Fyrirsögnin er óskýr. Í fréttinni kemur fram að færri vegabréf hafa verið gefin út það sem af er árinu en á sama tíma í fyrra.

 

Skrítið orðalag á heimasíðu Ríkisútvarpsins (30.07.2013): Ekki er mögulegt að flytja bátinn, sem er 15 tonna strandveiðibátur, í land þar sem nú er fjara, en þegar tekur að falla að verður það flutt í land og skemmdir rannsakaðar frekar.

Flytja bátinn í land? Flytja það í land? Las enginn yfir? Ekkert gæðaeftirlit?

 

Það liggur allt undir, sagði Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður, í morgunútvarpi Rásar tvö (31.07.2013). Þingmaðurinn átti við að allir útgjaldaliðir væru til athugunar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

 

 

 

 

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    „Skipið sem sökk ………hvaðan kom „hann“ skipið? “
    Er ekki ljóst að hann var togarinn sem sökk? Og að togarar eru skip? Og að ekkert er athugavert við að kalla skip togara í einni málsgrein og skip í annarri?
    Gæti Mean Green ekki annars verið Eiturgrænn? Þýðir mean green ekki vondur grænn ef bókstaflega er tekið?
    Og hvenær var heimsmeistarakeppni kvenna í knattspyrnu annars haldin síðast? Tók íslenska kvennalandsliðið ekki örugglega þátt í Evrópumeistaramóti í fótbolta á dögunum, hvers úrslitaleikur var sýndur í sjónvarpinu á sunnudaginn?

  2. Eiður skrifar:

    Þakka þ´æer fyrir Hallgrímur,. Fæ að birta þetta eftir helgi. K kv Eiður

  3. Hallgrímur T Jónasson skrifar:

    Kominn niður á klukkutíma

    Átta manna áhöfn var bjargað af færeyska togaranum Gullbergi þegar hann sökk við makrílveiðar norður af Færeyjum í gær.

    Skipið sem sökk ………hvaðan kom „hann“ skipið?

    Fréttablaðið 01.08.2013

  4. Eiður skrifar:

    Þakka þér orðin, Kristján. Þetta er rétt hjá þér. Mér finnst þessi þýðing ekki slæm. Þetta er vandþýtt, kem ekki auga á neitt betra. hefði átt að geta þess. K kv Eiður

  5. Kristján Magnusson skrifar:

    Sæll Eiður,

    sé að þú birtir athugasemd Fanneyjar og hef ekkert við það að athuga. Velti því þó fyrir mér hvort þú sért henni sammála?

    Betur hefði eflaust farið hjá fjölmiðlamanni að rita enska heitið innnan sviga en annars kann ég ekki betri þýðingu á Mean green. Væri gaman að vita hvort lesendur þínir lumuðu á annarri og betri.

    Þakka þér fyrir þitt þarfa starf.
    Góð kveðja,
    Kristján á Akureyri

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>