«

»

Molar um málfar og miðla 1270

Vesalings Manni! Svo mælir vinur Molanna. Prófessor Helgi Haraldsson í Osló, og vitnar í fyrirsögn á mbl.is : Manni sem var bjargað úr bílskúr er látinn

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/07/30/manni_sem_var_bjargad_ur_bilskur_er_latinn/. Þakka ábendinguna, Helgi. Þetta hefði átt að vera: Maður sem bjargað var úr bílskúr er látinn.

 

Bjórauglýsing, áfengisauglýsing frá Thule , sem Ríkissjónvarpið sýnir um þessar mundir er brot á reglum Ríkisútvarpsins. Auglýsingin er nær öll á ensku og er óþýdd. Sem fyrr skeytir auglýsingadeildin hvorki um skömm né heiður, útvarpsstjóri lætur þetta viðgangast. Hve lengi ætlar ráðherra Ríkisútvarpsins að láta lögbrot viðgangast í Efstaleiti?

 

Gunnar sendi eftirfarandi (30.07.2013): ,,Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður á Stöð 2, sagði ítrekað sl. mánudagskvöld: „Með sitt annað mark“, „í sínum þriðja leik“, af hverju notar hann enska setningauppbyggingu? „Með annað mark sitt“ og „í þriðja leik sínum“ er rétt íslenska.
„Ég gruna það að einhver eigi eftir að hringja í þig,“ sagði Þórður Helgi Þórðarson svo á Rás 2. Ef hann hefði talað rétt, hefði hann sagt: „Mig grunar …“
Þótt þetta heiti Stöð 2 og Rás 2, er óþarfi að dreifa yfir okkur annars flokks íslensku.”. Þakka sendinga, Gunnar.

 

Á þriðjudagskvöld (30.07.2013) sýndi Ríkissjónvarpið óþýdda auglýsingu frá Orkunni sem var nær öll á ensku. Það er skýrt brot á starfsreglum stofnunarinnar. En eins og oft hefur komið fram þá er eins og auglýsingadeildin sé stjórnlaus, fer á svig við lög og reglur eins og henni sýnist.

 

Í morgunþætti Rásar eitt (01.08.2013) var talað um mestu ferðamannahelgi ársins. Mesta ferðahelgi ársins hefði verið betra.

 

Hversvegna kalla umsjónarmenn morgunþáttar Rásar tvö auglýsingar skilaboð? (30.07.2013). Hvernig væri að kalla auglýsingar , auglýsingar ?

 

Á vefsíðu Varití, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (30.07.2013) um kvikmyndagagnrýni á vefsíðu Variety, /var´æetí/. Fréttamenn eiga að kynna sér framburð erlendra orða sem fyrir kunna að koma í fréttum.

 

Í frétt um auðar íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs og banka víðsvegar um land á Stöð tvö (31.07.2013) var talað um íbúðir í söluferli. Þetta er einhverskonar tísku orðalag um íbúðir sem eru til sölu, íbúðir sem verið er að selja.

 

Í Fréttablaðinu (01.08.2013) er ung kona spurð: ,,Hefur þú farið þangað áður um verslunarmannahelgina?” Hún svarar: ,,Já, alveg nokkrum sinnum.” Gaman að sjá hvernig málið breytist , – og ekki endilega til bóta!

 

Í Fréttablaðinu (01.08.2013) segir í fyrirsögn: Glugginn lokaði. Verið var að fjalla um svokallaðan félagaskiptaglugga KSÍ. Glugginn lokaði ekki neinu. Honum var lokað. Hann lokaðist. Þrálát meinloka.

 

Í morgunþætti Rásar tvö (02.08.2013) var rætt við Vestmannaeying um stríð um veitingasölu á þjóðhátíð í Eyjum. Hann sagði: Við erum hugsandi fólk í Vestmannaeyjum og við erum ekkert að fara yfir ánna. Hann átti við að ekki þyrfti aðkomufólk til að sjá um veitingasölu á þjóðhátíð. Hugsandi fólk talar ekki um að fara yfir ánna. Ótrúlega algengt orðið að heyra þessa ambögu.

 

Stuðningur við stjórnina minnkar, er fyrirsögn á eindálki á vinstri síðu , bls.4  í Morgunblaðinu á föstudag (02.08.2013). Það er af sem áður var. Hefði þótt meiri frétt í fyrra. En svona er Mogginn, – stundum.

 

Molaskrifari hefur að undanförnu heldur forðast morgunþátt Rásar tvö á föstudagsmorgnum til að fá ekki yfir sig  slúður- og slettusúpuna frá Hollywood sem þar hefur lengi verið fastur liður. Það var því ánægjuleg tilbreyting í morgun að heyra fróðlegt spjall um Bayeruth hátíðina þar sem rætt var við Árna Heimi Ingólfsson, tónlistarfræðing. Takk fyrir það.

 

… þvinga þeir siði sína upp á aðra, segir í grein eftir fyrrverandi borgarstjóra, Ólaf F. Magnússon í Morgunblaðinu í dag (02.08.2013). Molaskrifari hallast að því að þarna hefði átt að standa: … þvinga þeir siðum sínum upp á aðra.

 

Næstu Molar munu birtast þriðjudaginn 6. ágúst.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Hallgrímur, – Þetta er réttmætar ábendingar.

  2. Hallgrímur T Jónasson skrifar:

    „Hroða­legt fyrir fólk að
    sjá flugvél fara niður“

    Hinn sorglegi atburður við Akureyri er túlkaður á þennann klaufalega hátt á visir.is
    mánudaginn 5. ág. Þarna er auðvitað átt við að flugvélin brotlenti.
    Fyrirsögnin hér að ofan minnir á aðra sem birtist í Fréttablaðinu í síðustu viku og
    fjallaði um togara sem sökk,þar sagði að hann hefði farið niður.

  3. Eiður skrifar:

    Já, þetta er eiginlega svolítið skemmtilega vitlaust!

  4. Axel skrifar:

    ,,Gaman að sjá hvernig málið breytist – og ekki endilega til bóta!“. Þetta hljóta að teljast stórtíðindi. Eftir allt saman þykir molaskrifara gaman að sjá málið breytast í allar áttir. Eða hvað?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>