«

»

Molar um málfar og miðla 1271

Úr frétt á mbl.is (02.08.2013): Ekki var hægt að yfirheyra þennan aðila vegna ölvunarástands en hann verður boðaður í skýrslutöku síðar. Á mannamáli hefði átt að segja: Ekki var hægt að yfirheyra manninn vegna þess hve drukkinn hann var.

 

Það var eiginlega unun að hlýða á kjarnyrtan pistil Kristins R. Ólafssonar um Berlusconi í Spegli Ríkisútvarpsins á föstudagskvöld (02.08.2013). Svona eiga sýslumenn að vera, – og er þá ekki átt við Berlusconi!

 

Dyggur Molalesandi skrifaði (02.08.2013): ,,Hér er leiðinleg beygingarvilla, tölvuvert algeng – viðliður tengdur með sem á alemlnnt að beygjast með aðalliðnum

Vísir á Netinu 2. ágúst 2013:

Fréttastofan hefur greint frá málefnum Láru Hönnu Einarsdóttur fulltrúa Pírata sem varamaður í stjórn,

Þarna ætti að standa:

Fréttastofan hefur greint frá málefnum Láru Hönnu Einarsdóttur fulltrúa Pírata sem varamanns í stjórn” Rétt mæt ábending. Molaskrifari þakkar bréfið.

Hallgrímur skrifaði Molum og vitnaði í Fréttablaðið (01.08.2013): ,,Kominn niður á klukkutíma. Átta manna áhöfn var bjargað af færeyska togaranum Gullbergi þegar hann sökk við makrílveiðar norður af Færeyjum í gær.- Skipið sem sökk ………hvaðan kom „hann“ skipið?”- Þetta hefði mátt orða betur. Molaskrifari þakkar Hallgrími sendinguna.

Óvenjulegt viðtal var í fréttum NBC sjónvarpsstöðvarinnar bandarísku á fimmtudagskvöld (01.08.2013) Brian Williams er aðal fréttaþulur NBC , les fréttir alla virka daga, er þeirra akkeri eins og þeir segja í Ameríkunni. Fjallað var um þá tækni sem nú er orðin algeng að fólk fær nýja hnjáliði. Brian Williams  sagðist hafa verið með verki í 35 ár eftir fótboltameiðsl á háskólaárunum og farið í margar aðgerðir en nú ætti sem sé að skipta um hnjálið. Hann sagðist vilja hafa það á hreinu hversvegna hann yrði fjarri góðu gamni í fréttatímunum næstu vikur, þannig að fólk héldi ekki að hann lægi fyrir dauðan eða væri í meðferð!

Molalesandi benti á undarlega fyrirsögn á dv.is (02.08.2013): ,,Ég varð hreinlega að benda þér á þessa fyrirsögn af dv.is.
http://www.dv.is/lifsstill/2013/8/1/allt-er-gott-sem-groir-WRYBUK/
Fyrirsögnin er annars „Allt er gott sem gróir“. – Ja, hérna. Allt er gott sem gróir! Ef ég hruflaði mig sem krakki, sagði hún móðir mín stundum til að hugga mig:  ,, Það grær áður en þú giftir þig!” Ekki gróir!!!

Andri Freyr Viðarsson gerir þætti um Andra Frey Viðarsson í Ríkisútvarpi og Ríkissjónvarpi. Hann gerði afspyrnu vonda þætti um slóðir Vestur Íslendinga fyrir Ríkissjónvarpið. Þættirnir voru svo vondir að Egill Helgason var sendur í fótspor hans til að gera nýja þáttaröð af slóðum vestur Íslendinga í Kanada og Norður Ameríku. Hlakka til að sjá þætti Egils. Nú greinir Fréttatíminn frá því (02.089.2013) að Ríkissjónvarpið hafi gert Andra Frey út af örkinni til Færeyja til þáttagerðar. Hafa stjórnendur í Efstaleiti aldrei heyrt að vítin séu til að varast þau? Er þeim fyrirmunað að læra af reynslunni?  Nú er bara að sjá hver verður sendur til Færeyja til að gera nýja þáttaröð um Færeyjar, þegar dellunni lýkur. Fyrirfram er næsta víst að þetta er sóun á takmörkuðu dagskrárfé og ef að líkum lætur verður þetta engin rós í hnappagati innlendrar dagskrárgerðar Í Efstaleiti sem reyndar er í molum undir núverandi stjórn þar á bæ.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

 

 

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þessir þættir Andra frá Vesturheimi voru meira um Andra Frey en nokkuð annað. Þetta var Ríkissjónvarpinu til háborinnar skammar og er ég ekki einn unm þá skoðun. Hann hafði enga þekkingu á því sem hann var að reyna að fjalla um og úr varð tónm vitleysa. Hann varð sér og stofnuninni til skammar meðal fólks af íslenskum uppruna þarna fyrir vestan.

  2. Arnar H skrifar:

    Þú ert við sama heygarðshornið að tuða vegna Andra. Hann er mjög vinsæll útvarps- og sjónvarpsmaður og fólk er almenn ánægt með hans þætti. Hann leyfir okkur að sjá t.d. Vesturheim frá hans sjónarhorni en ekki bara útfrá sjónarhorni hins lærða heimsborgara. Við höfum sem betur fer ekki öll sama smekk fyrir dagskrá miðlanna. Ansi væri nú dauft yfir dagskránni ef bara væri rætt við fyrrv. sendiherra eða prófessora emeritusa að segja okkur sögu vesturfara, sem reyndar er marg oft búið að koma til skila í sjónvarpi.
    Áfram Andri á flandri.

    Kv Arnar H

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>