«

»

Molar um málfar og miðla 1272

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (03.08.2013) var sagt: Á Neskaupstað er útihátíðin Neistaflug haldin hátíðleg. Betra hefði verið að segja, til dæmis: Í Neskaupstað er útihátíðin Neistaflug. Sagt er í kaupstaðekki á kaupstað. Óþarfi er að tala um hátíð sé haldin hátíðleg. Í þessum fréttatíma komu aðilar einnig við sögu í hverri lögreglufréttinni á fætur annarri. – Í fréttum Stöðvar tvö virðist föst regla að segja á Neskaupstað. Molaskrifari er ekki hrifinn.

 

Lesandi benti á tvennt sem honum þótti athugavert í helgarblaði DV (02.-0.6.082013) Í inngangi að viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir segir að hún hafi … oftar en einu sinni þurft að flýja í sprengjuvirki. Lesandi spyr: Hvað er sprengjuvirki? Virki er  venjulega staður þar sem byssur eru til varna, en hér er sennilega átt við sprengjubyrgi þar sem er vörn fyrir sprengjum. Hitt atriðið sem lesandi benti á er að sagt  var (bls.40) að fiskiolía væri góð við streitu. Hann spurði hvort hér væri ekki átt við lýsi? Molaskrifari hallast að því. Málvenja er að tala um lýsi sem unnið er úr feitfiski þótt það komi ekki bara úr lifrinni. Til dæmis síldarlýsi og loðnulýsi.

 

Af dv.is (03.08.2013): Rétt fyrir klukkan hálf þrjú varð líkamsárás í Austurstræti. Árásaraðilinn var handtekinn og vistaður í fangageymslur þar til hann verður viðræðuhæfur. Hrein snilld. Líkams árás varð í Austurstræti ! Árásaðili var vistaður í fangageymslur! Alltaf eru þessir aðilar að gera eitthvað af sér. Var þetta ekki bara árásarmaður?

 

Gunnar er næmur hlustandi. Hann sendi þetta (04.06.2013): ,,Breiðablik voru að spila í Kasakstan,“ sagði Hjörvar Hafliðason á Stöð 2 um daginn. Honum virðist ganga illa að átta sig á eintölu og fleirtölu. „Breiðablik var að spila …“ er rétt.
Á laugardag sagði Hjörvar einnig: „Arsenal fengu víti,“ en rétt er: „Arsenal fékk víti.“ Einnig sagði hann: „Þetta er í fyrsta sinn sem heimsmeistaramót er sjónvarpað,“ en rétt er að segja: „heimsmeistaramóti er sjónvarpað“. Hvernig væri að hann fari að vanda sig við fréttaflutninginn?

Sindri Sindrason sagði okkur frá því í fréttum Stöðvar 2 á laugardag að fjöldi höfrunga sé við Garðskaga og að vel sé fylgst með þessum fiskum. Einhver þyrfti að láta hann vita að höfrungar eru spendýr, en ekki fiskar.

Að lokum má nefna að okkur var sagt frá því í tvígang á Stöð 2 að tónlistarhátíðin „Rykrokk“ hefði verið endurvakin í Breiðholti, en í fréttum Ríkissjónvarpsins talaði Haukur Holm um „Rykkrokk“, sem er rétta nafn hátíðarinnar. Ekkert ryk þar.”  Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Í Fróðleiksmolum úr sögu og samtíð sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson ritar í Morgunblaðið (03.08.2013) segir: ,,Þetta er í svipuðum anda og Jón Sigurðsson sem var eindreginn frjálshyggjumaður segir í Nýjum félagsritum 1843:” Hannesi Hólmsteini og félögum hans hefur tekist að koma óorði á orðið frjálshyggju. Það er óþarfi að klína því á Jón Sigurðsson, forseta.

 

 … var lengi meðal eftirsóttustu glæpamanna í Bandaríkjunum, var sagt í hádegis Ríkisútvarpsins (03.08.2013). Það var sérkennilega að orði komist!

 

Úr Morgunblaðinu (04.08.2013): Verð fyrir eina heimsókn kostar 6.400 krónur … Verð kostar ekki. Verðið fyrir eina heimsókn er 6.400 krónur. Hver heimsókn kostar 6.400 krónur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Allt er þetta satt og rétt, Benedikt. Kærar þakkir. Þetta hefur verið nefnt í Molum, 1272. K kv ESG

  2. Benedikt Axelsson skrifar:

    Sindri Sindrason sagði okkur frá því í fréttum Stöðvar 2 á laugardag að fjöldi höfrunga sé við Garðskaga og að vel sé fylgst með þessum fiskum. Einhver þyrfti að láta hann vita að höfrungar eru spendýr, en ekki fiskar.
    Mér finnst fólk allt of oft rugla saman tíðum: Sagði að sé er rangt, sagði að væri er rétt.
    Þetta er orðið svo algengt í fréttum að það er spurning hvenær málvöndunarmenn telja þetta rétt mál.Um það hvort höfrungur er fiskur eða maður læt ég liggja á milli hluta.

  3. Eiður skrifar:

    Held reyndar að þetta sé rétt hjá þér. Má ég ekki birta þessa athugasemd og nafnið þitt í Molum?

  4. Guðl. Gauti Jónsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Er það rangt mat hjá mér að málfari í auglýsingum, sem framleiddar eru af auglýsingastofum (held ég), hraki stöðugt. Þessa dagana angrar mig hvað mest útvarpsauglýsing þar sem við erum hvött til að kaupa „þrjár vörur.“

    Kv. Gauti

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>