«

»

Molar um málfar og miðla 1273

Áskell sendi eftirfarandi ((04.08.2013): ,,Vefmiðillinn visir.is segir þannig frá mynd Baltasars Kormáks:
1. „Mynd Balta tekur inn milljarð á fyrsta degi.“
2. „… hefur halað inn 10 milljónum dollara.“
3. Á lista „Box office“ raðast myndir „eftir því hversu háum fjárhæðum þær safna í sölu aðgangsmiða.“
4. „Til samanburðar má geta þess að fyrri mynd Baltasars, Contraband, sem einnig skartaði Mark Wahlberg í aðalhlutverki, græddi 8,6 milljónir dollara sinn fyrsta sýningardag. Ítarleg úttekt er á sölutölum fyrri hluta helgarinnar á Viðskiptablaðinu Forbes. Því er spáð að myndin muni hafa hagnast um 30 milljónir dollara þegar helgin er á enda.“
Ég var að hugsa um að skrifa um alla fjóra liðina en hver um sig er svo vitlaus að það tekur sig ekki að byrja. Þegar Eiður hafði mannaforráð á fjölmiðlum hefði hann, býst ég við, velt fyrir sér framtíð blaðamannsins á vinnustaðnum í örskamma stund.”
Sjá: http://www.visir.is/mynd-balta-tekur-inn-milljard-a-fyrsta-degi/article/2013130809759

Já, Áskell. Hefði gefið honum kost á að bæta ráð sitt. Lesa upp og læra betur. Ella leita sér að annarri vinnu. Í þessum skrifum er það svo sannarlega ekki eitt heldur allt.

 

Og ekki er mbl.is mikið betra! Þar mátti á miðvikudag (07.08.2013) lesa: Farþegaflugvél frá Indónesíu klessti á kýr og rann til hliðar á flugbraut … Eru menn hættir að gera kröfur á Mogga? Hjá sæmilega upplýstu fólki verður mbl.is að athlægi fyrir svona rugl. – Þetta var að vísu lagfært eftir að búið var að benda á bjánaskapinn á Fésbók. Það gengur einhver laus á ritstjórn mbl.is,sem ekki ætti að vera í námunda við tölvur og lyklaborð.

 

Lesandi benti á illa skrifaða frétt á visir.is. Hér er hún. Lesendur dæmi: http://www.visir.is/article/20130804/FRETTIR01/130809731 . Hann benti líka á orðið ölvunarerill, sem notað hefur verið ítrekað í fréttum Ríkisútvarpsins. Molaskrifari sér svo sem ekkert athugavert við þetta orð , þótt ekki hafi hann heyrt það áður. Það er skýrt og skiljanlegt.

 

Það eru óvönduð og ófagleg vinnubrögð þegar fréttastofur sjónvarpsstöðvanna aftur og aftur sýna gamlar fréttamyndir með nýjum fréttum án þess að geta þess að um myndir úr safni sé að ræða. Svona vinnubrögð tíðkast ekki hjá sjónvarpsstöðvum í öðrum löndum.

 

Hallgrímur skrifaði (06.08.2013): „Hroða­legt fyrir fólk að
sjá flugvél fara niður“

,,Hinn sorglegi atburður við Akureyri er túlkaður á þennan klaufalega hátt á visir.is mánudaginn 5. ág. Þarna er auðvitað átt við að flugvélin brotlenti.
Fyrirsögnin hér að ofan minnir á aðra sem birtist í Fréttablaðinu í síðustu viku og fjallaði um togara sem sökk,þar sagði að hann hefði farið niður.” Þetta er allt rétt sem, Hallgrímur segir. Þakka sendinguna.

Enn einu sinni:  Í gærkveldi (07.08)  sýndi Ríkissjónvarpið gamlan grillþátt Hrefnu Sætran, ágætan að vísu, á besta tíma strax eftir fréttir. Þetta var endursýnt efni. Endursýnt efni á ekki að vera á dagskrá strax að loknum fréttum. Okkur var ekki sagt, ekki frekar en fyrri daginn að hér væri um að ræða gamalt efni.. Hversvegna þennan óheiðarleika, herra útvarpsstjóri?  Um þetta hefur áður verið spurt. Engin svör.  Það er auðvitað algjör óþarfi að svara spurningum  viðskiptavina Ríkisútvarpsins.  Æðstu stjórnendur í Efstaleiti hafa  annað merkilegra að gera.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta er alveg makalaust ! Takk. k kv ESG

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég aftur á ferðinni. Var nú rétt í þessu að horfa á þáttinn „Revolution“ á Stöð 2.
    Í ensku er stundum talað um að eitthvað sé „like a house divided against itself“.
    Er þá t.d stundum sagt „The nation was like a house divided against itself“ og er þá átt við að sundrung var á meðal þjóðarinnar eða að hver höndin var upp á móti annarri.
    Ótrúlegt en satt þá þýddi þýðandinn ofangreint orðatiltæki „að þjóðin væri eins og hús sem stæði gegn sjálfu sér“
    Ég segi nú bara, HVAÐ ER EIGINLEGA Í GANGI ??????
    Eru þýðendur almennt að verða glórulausir ?
    Kveðja, Egill

  3. Eiður skrifar:

    Satt og rétt, Egill.

  4. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Í morgun er fyrirsögn á mbl.is „Fór yfir á rangan vegarhelming“
    Síðan er skrifað „Ljóst er að önnur bifreiðanna sem lenti saman á Suðurlandsvegi………“
    Ég átta mig ekki alveg hvað hér er að en finnst að þetta hefði mátt orða betur.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>