«

»

Molar um málfar og miðla 1274

 

Helgi Haraldsson prófessor emeritus í Osló spyr (07.08.2013) : ,,Hvaða veiði er verið að sýna passanum?! Náttúrupassanum er sýnd veiði en ekki gefin. Í skýrslu sem Ferðamálastofa gaf út í gær kemur fram að svonefndum náttúrupassa, sem Samtök ferðaþjónustunnar hafa ályktað sérstaklega um, sé e.t.v. sýnd veiði en ekki gefin.” Von er að spurt sé, en þetta er tilvitnun í fimm dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins á miðvikudag í þessari viku. Af fréttinni má draga þá ályktun að verið sé að vitna í skýrslu frá ferðamálastofu. Hvort villan er Moggans eða Ferðamálastofu skiptir kannski ekki öllu máli. Hér hefði átt að standa: Náttúrupassi er sýnd veiði en ekki gefin.

 

Egill skrifaði í gærkveldi (08.08.2013): ,,Sæll Eiður,
Var nú rétt í þessu að horfa á þáttinn „Revolution“ á Stöð 2.
Í ensku er stundum talað um að eitthvað sé „like a house divided against itself“.
Er þá t.d stundum sagt „The nation was like a house divided against itself“ og er þá átt við að sundrung var á meðal þjóðarinnar eða að hver höndin var upp á móti annarri.
Ótrúlegt en satt þá þýddi þýðandinn ofangreint orðatiltæki „að þjóðin væri eins og hús sem stæði gegn sjálfu sér“
Ég segi nú bara, HVAÐ ER EIGINLEGA Í GANGI ??????
Eru þýðendur almennt að verða glórulausir ?” Ja, hérna, ekki er nema von að spurt sé. Þetta er með ólíkindum.

Málglöggur Molalesandi benti á þetta af dv.is (07.08.2013):

 Ingibjörg Sólrún segir Kóraninn ekkert andstæðari konum en Biblían

Hér má fá fram þrjár merkingar eftir falli á orðinu „biblía“

1        Ingibjörg Sólrún segir Kóraninn ekkert andstæðari konum en Biblían

2        Ingibjörg Sólrún segir Kóraninn ekkert andstæðari konum en Biblíuna

3        Ingibjörg Sólrún segir Kóraninn ekkert andstæðari konum en Biblíunni

 

Væntanlega var ætlunin að bera saman Kóraninn og Biblíuna með því að hafa orðin í sama falli: „… segir Kóraninn ekki andstæðari konum en Biblíuna“.

En tilfinning fyrir föllum og merkingu þeirra er á hröðu undanhaldi.”Rétt athugað. Athyglisvert. Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (06.08.2013) var talað um að vinna að kröfugerðum í tengslum við kjarasamninga. Kröfugerð er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu.

 

Annar lesandi og vinur Molanna benti Molaskrifara á þessa dæmalausu frétt á mbl.is í gærkveldi (08.08.2013): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/08/08/fimm_hestar_alvarlega_slasadir/ Hér rekur hver ambagan aðra. Þetta hefði þurft að lesa og lagfæra fyrir birtingu. Hvað er að gerast á gamla Mogga?

 

Hvaðan skyldi vera komin sú árátta sem meðal annars hrjáir einn af íþróttafréttamönnum Stöðvar tvö (06.08.2013) að segja ævinlega evvvst í staðinn fyrir efst?

 

 Íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps sagði um verslunarmannahelgina að leikmenn hefðu verið gjörsamlega búnir á því. Búnir á hverju? Kæruleysismálfar á ekki heima í fréttum. Ekki einu sinni íþróttafréttum.

 

 Gunnar Gunnarsson er alveg prýðilegur píanóleikari. Hann virðist reyndar vera eini píanóleikarinn sem þulir og útsendingarstjórar Rásar eitt þekkja. Til hans er alltaf gripið þegar jafna þarf tíma í útsendingu. Ekki sakaði örlítið meiri fjölbreytni í þessum efnum.

 

 Í fréttum Ríkisútvarps (06.08.2013) var talað um aðkallandi vatnsskort! Óskiljanlegt . Hversvegna les enginn yfir? Til hvers er fréttastjóri og til hvers eru vaktstjórar?

 

 Af mbl.is (06.08.2013) … segir líðan hans stöðuga, en ekki sé hægt að spá fyrir um framhaldið. Molaskrifari hefði talið eðlilegra að hér væri sagt, til dæmis, … en ekki er hægt að spá um framhaldið, segja til um framhaldið. Ekki spá fyrir um. En hinsvegar er sagt: Hún fór til spákonu sem spáði fyrir henni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>