«

»

Molar um málfar og miðla 1275

Í Molum var nýlega vikið að þáttagerð Andra Freys Viðarssonar í Ríkissjónvarpinu. Af því tilefni skrifar Helgi Haraldsson prófessor emerítus í Osló og vitnar í Molana: ,,Sæll Eiður
„Andri Freyr Viðarsson gerir þætti um Andra Frey Viðarsson í Ríkisútvarpi og Ríkissjónvarpi.“
Er þetta ekki sá sami Andri og var í þáttunum „Andri á flandri“ ?
Því miður voru nokkrir þessara þátta sýndir í NRK á sínum tíma.
Það varð ekki til að auka hróður Íslands meðal norskra sjónvarpsnotenda.
Mér er gjörsamlega óskiljanlegt að fé skuli varið í aðra eins ruslagerð.
A.m.k. hefðu menn átt að sjá sóma sinn í því að leyna skömminni fyrir útlendingum. Með virktum, HH” Molaskrifari þakkar Helga bréfið og tekur undir að þessir þættir eru ekki góð útflutningsvara.

Gauti skrifaði (07.08.2013): ,,Sæll Eiður. Er það rangt mat hjá mér að málfari í auglýsingum, sem framleiddar eru af auglýsingastofum (held ég), hraki stöðugt. Þessa dagana angrar mig hvað mest útvarpsauglýsing þar sem við erum hvött til að kaupa „þrjár vörur.“. Ég held, Gauti, að þetta sé rétt mat hjá þér. Auglýsingastofur eru misjafnar. En sumar þeirra vanda sig ekki við textagerð.

Halda tónleika til heiðurs Hljóma, segir í fyrirsögn á visir.is (08.08.2013). Þetta ætti að vera: Halda tónleika til heiðurs Hljómum. Sjá: http://www.visir.is/halda-tonleika-til-heidurs-hljoma-i-horpu/article/2013708089989

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (07.08.2013) talaði fréttamaður á Akureyri um jarðgangnagerð. Þetta hefur verið nefnt áður í Molum. Rétt hefði verið að tala um jarðgangagerð, eins og María Sigrún Hilmarsdóttir fréttaþulur réttilega gerði. Fréttamenn hljóta að geta tileinkað sér  jafneinfalt atriði eins og það að eignarfall orðins göng er ganga en eignarfall af orðinu göngur er gangna. Þetta er ekkert flókið.

Í fréttum Stöðvar tvö (07.08.2013) var talað um skipið sem innihélt gáminn. Eðlilegra hefði verið að tala um skipið sem flutti gáminn. Í sama fréttatíma sama miðils var sagt: … sýning náttúruminjasafns Íslands á að opna hér … Sýningin verður opnuð hér. Hún opnar að sjálfsögðu hvorki eitt né neitt. Enn einu sinni!

Í fréttum Ríkisútvarps (07.08.2013) var sagt um  sumaropnun  Fiskvinnslunnar Arctic Odda, að það fari eftir stærð aflans hve margir verði kallaðir til starfa. Afli er ekki stór,- hann er mikill eða lítill, góður eða lélegur. Hér hefði mátt segja, að það færi eftir því hve vel aflaðist, hve vel fiskaðist, hve margir yrðu kallaðir til starfa. –  Brýnt er að ráða málfarsráðunaut til Ríkisútvarpsins.

Í ágætri yfirlitsfrétt um stöðu frárennslismála, sem var í Ríkissjónvarpi í gærkveldi (9.08.2013) var minnst á Garðinn. Sveitarfélagið heitir Garður, en er oftast notað með ákveðnum greini, – í Garðinum. Talað var um Garðabryggju.

Hún er ekki til. Bryggjustúfurinn í Garðinum er yfirleitt kallaður Gerðabryggja og dregur nafn sitt af Gerðum í Garði.

Þættir Ríkissjónvarpsins um Gunnar á Völlum eru ófyndnasta efni sem komið hefur á skjáinn í áraraðir. Það er eiginlega ekki einu sinni hægt að kalla þetta aulafyndni. Ömurlegt.

Alkunn er ást innkaupa- og dagskrárstjóra Ríkissjónvarpsins á hverskyns drauga- og vampírumyndum. Í kvöld er okkur boðið upp á draugamynd, The Great Ghost Rescue. Myndin fær algjöra falleinkunn á IMBd eða 4,5. Efstaleitismenn halda áfram að skrapa botn ruslakistunnar og sýna okkur ruslið sem þeir finna þar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Ein vara, tvær vörur. Ég sé ekkert aðfinnsluvert við þetta. Segi máltilfinning manna þeim annað þá gott og vel en það er, eins og þú segir, smekksatriði og ekki gott dæmi um að málfari fari hrakandi.

  2. Eiður skrifar:

    Gauti svarar fyrir sig, Bergsteinn, en mér finnst svolítið ankannalegt að tala um tvær vörur, viðurkenni það.Ætti verslun til dæmis að auglýsa að hún sé með meira en tíu þúsund vörur á boðstólum? Þá mundi ég tala um vörutegundir, eða mismunandi vörur. Kannski sérviska.

  3. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Hvað er að því að tala um þrjár vörur? Varla vill Gauti kaupa þrennar vörur?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>