«

»

Molar um málfar og miðla 1276

Í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti á laugardagskvöld (10.08.2013) og í næsta fréttatíma var okkur sagt að forseti Bandaríkjanna væri kominn í frí á vínekru á austurströnd Bandaríkjanna! ,,Barrack Obama Bandaríkjaforseti er kominn í sumarfrí. Samkvæmt fréttatilkynningu er hann kominn úr jakkafötunum og mun eyða næstu vikunni á vínekru á austurströnd Bandaríkjanna”.

Hér hefur eitthvað skolast til. Forsetinn er í fríi á eyju sem er suður af Cape Cod í Massachusetts. Eyjan heitir reyndar Martha´s Vineyard. Hún er eftirlætis sumarleyfisstaður ríka fólksins í Bandaríkjunum. Obama er ekki í fríi á vínekru. Það er bara þýðingarbull, sem var reyndar leiðrétt síðar. Fréttabörn eiga ekki að vera ein á vakt um helgar. Þessir fréttatímar eru ekki aðgengilegir á vef Ríkisútvarpsins.

 

Meira um Morgunblaðið og svonefndan náttúrupassa. Þórhallur Jósepsson skrifaði (08.08.2013):

Sæll. Mér brá illilega við að sjá forsíðu Morgunblaðsins í gær, 7. ágúst. Þar sagði í fyrirsögn: „Náttúrupassanum er sýnd veiði en ekki gefin“
Í fréttinni sem með fylgdi var síðan skrifað: “ … kemur fram að svonefndum náttúrupassa, sem Samtök ferðaþjónustunnar hafa ályktað sérstaklega um, sé e.t.v. sýnd veiði en ekki gefin.“
Á vefnum, mbl.is, hafði fyrirsögnin verið leiðrétt þegar ég gáði að um níuleytið í gærmorgun, en ef slóðin var afrituð á Facebook kom gamla fyrirsögnin með villunni (vegir netsins eru órannasakanlegir?).
Nú ætla ég svo sem ekki að fjargviðrast yfir því þótt einn blaðamaður geri svona villu. Trúlega óvanur afleysingamaður og örugglega að vanda sig, en kann bara ekki betur en þetta. Það sem mér þykir verra, raunar svo slæmt að mér bregður illilega við, er að stjórnendur Morgunblaðsins skuli láta svona slæma villu sleppa í gegn og fara alla leið á forsíðu og blaðinu þannig dreift til áskrifenda og annarra lesenda.
Sú var tíð að forsíðan var þaullesin af sérstakri natni, prófarkalesin af sérhæfðum prófarkalesurum, blaðamenn lásu hana yfir, fréttastjórar, ritstjórar lásu forsíðuna og umbrotsmenn og prentarar stóðu oft þessa vakt líka. Það varð uppnám á ritstjórninni og menn (fleiri en einn!) voru kallaðir á teppið ef smávægileg villa slapp í gegn um prentvélarnar.
Í þessu tilviki er um alvarlegan misskilning blaðamanns að ræða. Villan beinlínis æpir á mann í stórri fyrirsögn og er endurtekin í texta fréttarinnar – á sjálfri forsíðunni!
Þetta gefur til kynna að stórveldið Morgunblaðið sem slíkt, sé nú endanlega fallið! Metnaðurinn til að gera vel er horfinn, vaktin sefur, Snorrabúð er stekkur. Sorglegt! Kveðja, Þórhallur Jósepsson” – Allt satt og rétt, sem Þórhallur segir, – því miður. Molaskrifara er minnisstætt frá því  á árunum 1962 til 1966  á Alþýðublaðinu að alltaf kom Benedikt Gröndal ritstjóri ,,niður á blað” á kvöldin og las próförk að leiðaranum og leit yfir forsíðuna. Það voru góð vinnubrögð. Þakka Þórhalli bréfið.

 

Síðdegis á föstudag (09.08.2013) fékk Molaskrifari þetta tölvubréf frá lesanda: ,,Fyrirsögn á aðalfrétt í vefútgáfu Mogga nú er: „Leit að hugsanlegu líki“ Hvað er „hugsanlegt lík?“. Hvað gerist ef það finnst. Segir þá Moggi: „Hugsanlegt lík fundið“. Og hvað er svo gert við „hugsanlegt lík“? Jarðsett í grafreit „hugsanlegra líka“?
Hvað segir „hugsanlegur ritstjóri“ Mbl. við slíku og þvílíku? Er þetta í samræmi við „hugsanlega hagsmuni“ útgefendanna – „hugsanlega LÍÚ“? Eða er þetta e.t.v. „hugsanlega slæm íslenska“ – eða kannske „hugsanleg heimska“ höfundar? Hvað segir þú í þínu „hugsanlega bloggi“?.

Að hugsa sér!- Molaskrifari þakkar bréfið. Og hugsar sig um.

 

 

Rafn skrifaði (08.08.2013): ,,Sæll Eiður

Á Eyjunni:is [það er tvípunktur í síðuhausnum]  er frétt undir fyrirsögninni: Já.is þarf að afmá andlit úr „street view“ þjónustu sinni – „Verulega íþyngjandi“. Í fréttinni er birt tilvitnun í bréf frá Jái upplýsingaveitum hf., þar sem segir m.a.: „Ef ábyrgðaraðili þyrfti að skyggja andlit og bílnúmer fyrirfram þyrfti að fara út í verulega aukna fjárfestingu til að þróa eða kaupa búnað því tengdu.“

Í þeirri málfræði sem mér var kennd beygist „búnaður því tengdur“ „um búnað því tengdan“, „frá búnaði því tengdum“ „til búnaðar því tengds“. Mikill misbrestur virðist hins vegar orðinn á að beygingarkunnátta sé til staðar, jafnt hjá fjölmiðlamönnum sem öðrum, og iðulega sést þágufall notað á aukaliði, sem fylgja eiga beygingu annars orðs, algjörlega án tillits til hvaða fall á við hverju sinni. Jafnvel er viðbótin í röngu kyni eins og hér er raunin.

Kennsla í meðferð fallsetninga og annarra beygingarliða virðist hafa fallið niður með öllu, eftir að hætt var að nota kennslubækur eftir Björn Guðfinnsson”. – Allt er þetta satt og rétt. Þakka bréfið.

 

Egill skrifaði (08.08.2013): ,,Sæll Eiður,
Í morgun er fyrirsögn á mbl.is „Fór yfir á rangan vegarhelming“
Síðan er skrifað „Ljóst er að önnur bifreiðanna sem lenti saman á Suðurlandsvegi………“
Ég átta mig ekki alveg hvað hér er að en finnst að þetta hefði mátt orða betur”. Það er rétt og Egill. Hér hefði til dæmis mátt segja: Ljóst er að önnur bifreiðin fór yfir á rangan vegarhelming. Þegar talað er um að einhverjum lendi saman er yfirleitt átt við að þeir hafi hnakkrifist , slegið hafi í brýnu milli þeirra. Þakka bréfið.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Mér finnst nú reyndar ekkeert við þetta að athuga , Sigurjón.

  2. Sigurjon R. Gíslason skrifar:

    Sæll Eiður.
    Þeir sem lýsa golfi tala mikið un fínasta högg eða fínasta pútt og svo heyrði ég Veður fréttamann segja fínasta veður á morgun.
    Hvað finnst þér um þetta?
    Kv/Sigurjón

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>