Molavin skrifaði (12.08.2013): ,,Vikudagur segir: „Betur fór en á horfðist þegar fólksbifreið með tveimur mönnum innanborðs hafnaði í Glerá seint í gærkvöld.“ Óþarfa málalengingar af þessu tagi sjást æ oftar. Einkum er fjallað um flugvélar með svo og svo marga „innanborðs“ – rétt eins og títt sé að farþegar séu hafðir hangandi utan á þeim líka. Blaðamenn þurfa að lesa sínar eigin fréttir yfir með gagnrýnum huga áður en þær eru settar á Netið – úr því prófarkalestur og eftirlit ritstjóra er úr sögunni.” Molaskrifari þakkar bréfið.
Í fréttum Ríkisútvarps árla að morgni föstudags (09.08.2013) var sagt að vatnsdæla hefði verið sett um borð í skútu sem leki hafði komið að vestur af Garðskaga. Í fréttum klukkan átta var dælan orðin að sjódælu. Svo sökk reyndar skútan en öllum um borð var giftusamlega bjargað. Það var björgunarafrek við erfiðar aðstæður.
Guðlaugur skrifaði (09.08.2013): ,,Sæll Eiður. Ég vil benda á þekkingarleysi fréttamanna Fréttablaðsins. Tvisvar undanfarið hefur Fréttablaðið birt fréttir af vindrafstöðvunum á Búrfelli. Þar hafa þeir sagt, að stærð rafstöðvanna sé 900 vött hvor þeirra.
Þetta afl nægir ekki einu sinni til þess að hita lítinn hraðsuðuketil, hvað þá að hita heilu húsin.” Rétt ábending, Guðlaugur.
Jón Sigurður Eyjólfsson sendi eftirfarandi athugasemd (10.08.2013): Heill og sæll og þakka þér fyrir mjög svo áhugaverðan vef. Á honum er þó einn galli. Þú átt greinilega pennavini sem senda þér ábendingar en skoðar þær greinilega ekki vel sjálfur áður en þú birtir þær á vef þínum. Dæmi um það er þetta:
Hallgrímur skrifaði Molum og vitnaði í Fréttablaðið (01.08.2013): ,,Kominn niður á klukkutíma. Átta manna áhöfn var bjargað af færeyska togaranum Gullbergi þegar hann sökk við makrílveiðar norður af Færeyjum í gær.- Skipið sem sökk ………hvaðan kom „hann“ skipið?”- Þetta hefði mátt orða betur. Molaskrifari þakkar Hallgrími sendinguna. (tilvitnun lýkur)
Hvernig gat það farið framhjá þessum pennavini og þér að ,,Hann“ er komið af orðinu togari. Ég skrifaði þessa frétt og þætti vænt um það að þú leiðréttir þessa aðfinnslu. Það væri einnig vel af sér vikið ef þú vilt að maður taki þessum skrifum alvarlega. Annars virkar þetta eins og vettvangur þar sem hægt er að hnýta í fjölmiðlafólk hvort sem fótur er fyrir því eður ei.
Bestu kveðjur, Jón Sigurður Eyjólfsson. – Þessari athugasemd er hér með komið á framfæri.
Molaskrifara þykir óþörf þolmyndarnotkun óþolandi! Af mbl.is (09.08.2013): ,,Tæplega mánaðargamlar kínverskar tvíburasystur er nú komnar í leitirnar en þeim var rænt af fæðingarlækni sem tók á móti þeim þegar þær komu í heiminn. Stúlkurnar fæddust í síðasta mánuði í Shaanxi í Kína og eru þær ekki fyrstu fórnarlömb læknisins.” Rændi læknirinn þeim, eða var þeim rænt frá lækninum? Undarlegt hve sumir fréttaskrifarar eru elskir að óþarfa þolmynd sem gerir merkingu óljósa.
Í Spegli Ríkisútvarpsins á föstudagskvöld (09.08.2013) var vitnað í ummæli tveggja verslunarskólapilta (Verslingar voru þeir kallaðir í fréttinni) um sukksama útskriftarferð til Spánar sl. vor. Höfðu þeir sagt að ekki hefði ferðin átt að vera nein menningarferð heldur hefði átt að skemmta skrattanum samfellt í tvær vikur. Áttu sjálfsagt við að stunda hefði átt taumlaust skemmtanahald í tvær vikur. Að skemmta skrattanum þýðir hinsvegar samkvæmt málvenju að efla óvinafagnað. Ágætt dæmi um rétta notkun þessa orðtaks er að finna á vefnum T24, en ábyrgðarmaður hans er Óli Björn Kárason fv. ritstjóri. Þar segir: ,,Framsóknarmenn halda áfram að skemmta skrattanum. Í stað þess að leysa persónuleg deilumál sín á milli halda fréttatilkynningar áfram að berast fjölmiðlum. Skeytasendingar líkar þeim sem framsóknarmenn senda sín á milli, eru ekki til þess fallnar að styrkja flokkinn. Tilgangurinn er einhver allt annar.” Fréttatilkynningar Framsóknarmanna efla sem sé óvinafagnað.
Það er auðvitað vita tilgangslaust að beina spurningum til stjórnenda Ríkisútvarpsins, sem telja sig yfir það hafna að svara spurningum viðskiptavina. Enn skal þó reynt:
Hversvegna eru bara sumir fréttatíma Ríkisútvarpsins aðgengilegir á útvarpsvefnum?
Hversvegna eru ekki á annarri hvorri rásinni fréttir á klukkustundarfresti allan sólarhringinn? Vakt er á fréttastofunni allan sólarhringinn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
13/08/2013 at 18:30 (UTC 0)
Rétt er það , Eirný. Þetta er illa skrifað. Fæ að birta þetta þí Molum með nafni þionu. K kv ESG
Eirný Vals skrifar:
13/08/2013 at 16:05 (UTC 0)
http://www.visir.is/kettir-atu-eiganda-sinn/article/2013130819656
Sæll Eiður,
Ég rakst á þessa frétt á vefnum. Hefði líklega ekki lesið hana nema af því að þessi málsgrein sást vel.
Hennar eigin kettir höfðu étið og tætt í sig lík konunnar sem hafði verið látin um nokkurt skeið áður en hún fannst.
Mér finnst að það væri hægt að orða betur.
Síðar í sömu frétt stóð:
…konan hafi legið látin í allt frá nokkrum vikum upp í einhverja mánuði.
Þarna væri betra/fallegra/réttara að segja nokkra mánuði. Ég sleppi umræðu um hvort einhver liggi látinn.
Kveðja,
Eirný