«

»

Molar um málfar og miðla 1278

Enn er spurt: Hversvegna kemur Ríkissjónvarpið óheiðarlega fram við okkur? Hversvegna segir það okkur ekki satt? Hversvegna var okkur ekki sagt að þáttur Egils Helgasonar og Þorleifs Friðrikssonar um verkamannabústaðina við Hringbraut , Verkamannafélagið Dagsbrún og Héðin Valdimarsson sem sýndur var á miðvikudagskvöld(13.08.2013), væri endursýnt efni? Þetta var gamalt efni úr Kiljunni. Fróðlegt og áhugavert, en hefur verið sýnt áður og það ekki fyrir löngu. Þetta er subbuskapur af hálfu dagskrárstjóra Ríkissjónvarpsins. Svona gera ekki alvöru sjónvarpsstöðvar.

Athyglisvert að heyra Egil Helgason kalla Héðin Valdimarsson kapítalista! Héðinn var sósíalisti. Hann var varaformaður Alþýðuflokksins og fyrsti formaður Sósíalistaflokksins, Sameiningarflokks alþýðu, eins og hann var kallaður.

 

Vilhelm G. Kristinsson skrifaði Molum (10.08.2013):

,,Stundum er talað um fréttabörn. Þetta hefur farið illa í suma á fjölmiðlunum, en þessi nafngift á þó oft á tíðum rétt á sér, því engu er líkara en að sumar fréttir séu ritaðar í yngstu bekkjum grunnskóla. Þannig er algengt orðið að ritað sé að bílar KLESSI Á, þegar þeim er ekið á aðra bíla eða fyrirstöður. Ennfremur DINGLA menn bjöllunni í gríð og erg. Ég man að það var nokkurt átak að venja börn mín af þessu málfari þegar þau voru smábörn, en það tókst.
Ennfremur langar mig til að minnast á lestur fréttamanna (og hér tala ég einungis um Ríkisútvarpið, þar sem ég horfi ekki á aðrar íslenskar stöðvar). Mér virðist að lestrarkennslu hjá Ríkisútvarpinu hafi hrakað. Á árum áður voru málfarsráðunautar, t.a.m. Baldur heitinn Jónsson, iðnir við að taka fréttamenn í lestrartíma. Einstaka fréttamenn, þ.á.m. mjög góðir fagmenn, hafa ekki lag á að koma efninu sómasamlega frá sér. Þetta ætti þó að vera einfalt að lagfæra. Reynslan sýnir að hægt er að ná miklum árangri í framsögn með góðri leiðsögn.Vilji og svolítill metnaður er allt sem þarf.” Molaskrifari þakkar Vilhelm þetta ágæta bréf.

 

Molavin skrifaði (12.08.2013) ,,Lögreglan á lof skilið fyrir að nota fólksmiðla á borð við Fasbók til daglegra samskipta við almenning; t.d. að fræða um umferðarmál og segja fréttir úr starfi sínu. Í dag segir í pistli „Lögregla var þá kölluð að veitingahúsi í miðborginni vegna einstaklings sem mikið var búið að kvarta undan. Þegar lögregla kom á vettvang veittist viðkomandi að lögreglumönnum og var handtekinn.
Mikið var um ölvun og ölvunartengd útköll og mikið að gera. Allt í allt gista 11 manns í fangaklefum, þar á meðal 3 af eigin ósk.“

Þessir pistlar einkennast um of af stofnanamáli, sem er ekki beinlínis rangt en það verður hvimleitt til lengdar. Einstaklingar eru t.d. fólk, í ofangreindu tilviki drukkið og orðið „einstaklingur“ segir ekkert um viðkomandi. Þegar lögreglan er kölluð til vegna ölvunar er hugtakið „ölvunartengd útköll“ nánast óþarfi. Það segir sig sjálft. Auk þess er vert að benda á að tölurnar einn til níu eru ritaðar með bókstöfum en ekki tölustöfum.

Í gær talaði lögreglan á Fasbók um „umferðaróhapp“ þar sem orðið hafði banaslys. Nákvæmni skiptir máli.” Molaskrifari þakkar bréfið og tekur undir það sem þar er sagt.

 

Enn tönnlast Ríkisútvarpið á þeirri ákvörðun Arons Jóhannssonar að leika með bandaríska landsliðinu í knattspyrnu. Það var gert í í íþróttafréttum sjónvarps í gærkveldi (13.08.2013) og  tuðinu var haldið áfram á Rás tvö í morgun (14.08.2013). Er þetta að verða einhver þráhyggja fréttatofunnar eins og birting kúkamyndanna úr Ölfusá?

 

 

Hversvegna tala fréttamenn Ríkisútvarpsins ýmist um rúf eða rúv? Útvarpsstjóri sem bannfært hefur hið rétta heiti stofnunarinnar, Ríkisútvarpið, ætti að minnsta kosti að samræma vitleysuna.

 

Matur er neyddur ofan í fangana, var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarps á sunnudagsmorgni (11.08.2013). Molaskrifari hallast að því að hér hefði átt að segja: Mat er neytt ofan í fangana. Þetta hefur verið nefnt áður. Hvað segja Molalesendur?

 

Í fréttum Ríkisútvarps um liðna helgi (10.08.2013) var sagt um Gleðigönguna í Reykjavík að þar hefði meðal annars verið gengið til heiðurs bandaríska uppljóstrarans … og í erlendum fréttum (frá Belfast) var sagt til heiðurs lagasetningar… Molaskrifari er á því að þarna hefði annarsvegar átt að segja: … til heiðurs uppljóstraranum, og … til heiðurs lagasetningu …, sem er reyndar hálfkjánalegt orðalag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>