«

»

Molar um málfar og miðla 1279

 

bróðir Hollandsdrottningu , sagði fréttamaður Stöðvar tvö (12.08.2013) Slæmt að segja þetta og verra þegar viðkomandi heyrir ekki vitleysuna og les óhikað áfram.

 

Sigurjón skrifaði (13.08.2013):,, Þeir sem lýsa golfi tala mikið um fínasta högg eða fínasta pútt og svo heyrði ég Veðurfréttamann segja fínasta veður á morgun.
Hvað finnst þér um þetta?” Molaskrifari svarar: Þetta er frekar óformlegt orðalag, en mér finnst ekkert athugavert við að taka svona til orða. Segi þetta oft sjálfur. Veðurfræðingurinn er að tala við okkur. Þetta er  venjulegt talmál.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (12.08.2013) var talað um tvær flóttamannabúðir.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (14.08.2013) talaði Óðinn Jónsson fréttastjóri rréttilega um tvennar mótmælabúðir. Þorvaldur Friðriksson fréttamaður talaði hinsvegar í sama fréttatíma um tvær mótmælabúðir, sem er ekki rétt. Búðir eru fleirtöluorð. Tvennar búðir. Enn kom þessi sama meionloka í fyrstu morgunfréttum Ríkisútvarpsins í morgun(15.08.2013). Þar sem málfarsráðunautur  virðist ekki starfa við Ríkisútvarpið ætti fréttastjóri að senda sínu fólki tölvupóst með leiðbeiningum um notkun nokkurra algengra fleirtöluorð. Til dæmis: Búðir, tónleikar, kosningar og buxur.

 

Allt á sér stað. Í fréttum Ríkisútvarps um helgina var sagt frá banaslysi sem átti sér stað við Rauðavatn og í Belfast á Norður Írlandi ( ekki norður Írlandi eins og skrifað var á vef Ríkisútvarpsins) áttu sér stað alvarlegar óeirðir. Auðvitað ekki rangt, en sérvitrum Molaskrifara finnst að þetta hefði mátt orða á annan veg.

 

Molalesandi sendi eftirfarandi (12.08.2013):,, Í guðanna bænum komdu því til skila að- eitt er að reka erindi eða að ganga erinda. Úr minningu minni úr MR sagði sá ágæti kennari, Magnús Finnbogason að hann hefði lesið á forsíðu Morgunblaðsins, að Einar Olgeirsson væri farinn til Moskvu til að ganga erinda íslenskra kommúnista. Honum vað þá á orði það er ekkert lítið sem maðurinn hefur þurft að skila frá sér. Að ganga örna sinna skilja flestir sem eru sæmilega vel að sér í íslensku, en örna er einmitt eignarfall í fleirtölu af erindi ( örendi) Þetta er því miður orðin viðtekin venja hjá fólki sem í blöð skrifa að ruglast á þessu.” Þörf ábending sem hér með er vakin athygli á.

 

Norrænu sjónvarpsstöðvarnar sem við getum haft aðgang að hér á Íslandi hafa undanfarin misseri sýnt flokka heimildamynda og einstakar myndir um Kína og það sem þar er að gerast og hefur verið að gerast. Ríkissjónvarpið hefur gjörsamlega brugðist í því að hafa á boðstólum slíkt efni, – heimildamyndir um sögu og samfélag í veröldinni. Það er eins og slíkt efni sé eitur í beinum þeirra sem velja efni handa okkur í Ríkissjónvarpinu.

Nú þegar Kínverjar seilast til síaukinna áhrifa á Íslandi væri fróðlegt að opna glugga til austurs til að gefa okkur kost á að fylgjast með því sem er að gerast í einu voldugasta ríki veraldar. Það verður þó varla meðan Ríkissjónvarpið er rekið eins og amerísk víedóleiga undir núverandi stjórn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Nenni ekki að þrasa um þetta , Þorvaldur. hef líklega ekki orðað hugsun mína nógu skýrt. Flóttamannabúðir og æfingabúðir til dæmis að taka eru ekki til í eintölu.

  2. Eiður skrifar:

    Ég hef ekki orðað hugsun mín nægilega skýrt. Flóttamannabúðir, æfingabúðir til dæmis að taka eru fleirtöluorð. Við tölum ekki um flóttamannabúð eða æfingabúð.

  3. Þorvaldur S skrifar:

    Þetta er alfarið misskilningur hjá þér, Eiður, með notkun nafna míns á búðunum. Búð er staður þar sem ýmsar vörur fást, eða menn dvelja um stundar sakir, sbr. t.d. Njálsbúð. Hann á því vafalaust við búð þar sem mótmæli fást keypt, eða versluð. Svoddan búðir eru ekki hafðar í fleirtölu nema þær séu amk. tvær. Þannig fer ég ýmist í búð eða búðir eftir því hversu fjölbreytt erindin eru.
    Annars er gaman sð fjölbreytni og blæbrigðum málsins. Ég tók einu sinni kosningu í stjórn Blaksambandsins en ekki kosningum. Meira að segja er buxa til í eintölu og þýðir þá buxnaskálm.

  4. Jón skrifar:

    Í Íslenzkri orðabók Árna Bö (hef ekki Mörð við hendina) segir:
    búð, -ar, -ir kv. 1. tjald eða skáli (til bráðabirgða): á söguöld bjuggu menn í búðum á Þingvelli um þingtímann….

    Hvergi er minnst á fleirtöluorðið búðir.

  5. Axel skrifar:

    Ég er ekki alltaf sammála molaskrifara um dagskrástefnu Rúv. En ég er sammála því að Rúv mætti sína meira af vönduðu efni um sögu og samfélag. Þá hefur kvikmyndavalið hefur verið sérlega slakt í sumar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>