«

»

Molar um málfar og miðla 1280

 

Prýðilegur fyrsti þáttur af þremur um Reykjanesið í gerð þeirra Ara Trausta Guðmundssonar Valdimars Leifssonar , sem var á dagskrá á miðvikudagskvöld (13.08.2013). Ari Trausti nefndi jarðskorpuflekana sem mætast hér og kallaði þá plötur (e. plate). Molaskrifari hefur frekar vanist því að talað sé um fleka en plötur. Rangt er í dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins um efni næsta þáttar að tala um Selártanga. Það heita Selatangar og eru ein af mörgum perlum Reykjanessins. Það rennur ekkert vatnsfall til sjávar ofanjarðar á Reykjanesi frá Læknum, Hamarskotslæk, í Hafnarfirði að Ölfusárósum. Selatangar. Ekki stórvirki. Maður verður öllu innlendu, bitastæðu efni, feginn í dagskrá Ríkissjónvarpsins, enda er þar ekki um auðugan garð að gresja.

 

Reykjavíkurborg er ekki að fylgja lögum, segir í fyrirsögn á visir.is (14.08.2013). betra væri: Reykjavíkurborg fylgir ekki lögum, Reykjavíkurborg fer ekki að lögum.

 

Dæmi um villandi fyrirsögn , en ekki beinlínis ranga er fyrirsögn á mbl.is á fimmtudag (15.08.2013): Segir fréttamann Rúv hóta sér. mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/08/15/segir_frettamann_ruv_hota_ser/ Flestum hefur líklega dottið fyrst í hug að hér væri um að ræða hótun um líkamlegt ofbeldi eða eitthvað þess háttar. Svo er ekki. Páll Vilhjálmsson sem segist vera blaðamaður, og er sérstakur skjólstæðingur Morgunblaðsins, sakaði einn af fréttamönnum Ríkisútvarpsins um fréttafölsun. Þetta var fjarstæða, en fullyrðing Páls var um þýðingu fréttamannsins á ummælum úr ensku yfir á íslensku. Ekkert var athugavert við þýðingu fréttamannsins. En ljóst er að Páll skildi ekki ensku ummælin. Fréttamaðurinn íhugar málssókn. Það hefði Molaskrifari líka gert ef hann hefði verið sakaður um fréttafölsun meðan hann starfaði á fréttastofu Sjónvarpsins forðum daga. Þetta er sennilega hinn dæmigerði hálfsannleikur. Ómerkilegt.

 

Áskell skrifaði (13.08.2013): ,,Baráttan um ruglið er hörð
Í texta um unga fyrirsætu sagði á visir.is: „…fyrirsætan Chrissy Teigen stóð fyrir svörum …“ Ég hef vanist því að fólk sitji fyrir svörum – og þá ekki síst ef manneskjan situr eins og fyrirsætan gerði!!!
Mbl.is sagði um nýtt farartæki: „… Segir Musk að þessi nýja tækni muni aldrei lenda í árekstri eða klessa á, verði ódýrari og hraðari en háhraða lestir og þar að auki muni hún útvega alla orku sjálf sem knýr tækið áfram.
Í fyrsta skipti sem ég sé að tækni geti lent í árekstri eða „klesst á“ eins og barnið sagði sem skrifaði fréttina, sem átakanlega illa rituð.
Geta visir.is og mbl.is ekki sameinast um prófarkalesara?” Góð hugmynd, Áskell. Þakka bréfið.

Eirný Vals skirfaði þessa athugasemd við MOla (13.08.2013): http://www.visir.is/kettir-atu-eiganda-sinn/article/2013130819656

,,Sæll Eiður,
Ég rakst á þessa frétt á vefnum. Hefði líklega ekki lesið hana nema af því að þessi málsgrein sást vel.
Hennar eigin kettir höfðu étið og tætt í sig lík konunnar sem hafði verið látin um nokkurt skeið áður en hún fannst. Mér finnst að það væri hægt að orða betur. Síðar í sömu frétt stóð:
…konan hafi legið látin í allt frá nokkrum vikum upp í einhverja mánuði.
Þarna væri betra/fallegra/réttara að segja nokkra mánuði. Ég sleppi umræðu um hvort einhver liggi látinn”. Satt er það. Þetta er ekki vel skrifuð frétt. Hér hefði einhver með máltilfinningu þurft að lesa fréttian og lagfæra áður en hún var birt.

Guðmundur Guðmundsson, verkamaður, skrifaði: ,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
Tengill við greinina: http://www.ruv.is/frett/rettarholdum-listaverkathjofa-frestad
Meðal verka sem ,,voru stolin“… var sagt í fréttum RUV kl. 11 þann 13. ágúst 2013. Málleysur í fréttum RUV fara versnandi og eru til háborinnar skammar! Gera verður réttmætar kröfur til fréttamanna og yfirstjórnar RUV. Við skulum ekki minnast á RÁS 2!” Molaskrifari þakkar bréfið. Gæðaeftirlit með fréttaskrifum í Ríkisútvarpinu er oft mjög í skötulíki.

 

Visr.is (14.08.2013): ,,.. og hefur nú fest kaup á Blómavalsreitnum svokallaða, þar sem hann hyggst opna fleiri hótelrými og byggja upp ráðstefnuaðstöðu fyrir erlenda sem innlenda gesti.” Að tala um að opna fleiri hótelrými er óvandað stofnanamál sem ekki á erindi í fréttir. Maðurinn hyggst opna hótel.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Þorvaldur.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Sæll. Já, það hefði sennilega mátt koma skýrar fram hjá mér að þetta er tekið úr tilvitnun hér að ofan í Netmoggann. Er þessi klausa í 22. línu hjá þér og er sú ofarlega í 4. efnisgrein þar sem Netmogginn fjallar um hylki sem skjóta mönnum milli staða og klessa aldrei á.

  3. Eiður skrifar:

    Hvaðan er þetta , Þorvaldur?

  4. Þorvaldur S skrifar:

    „…og þar að auki muni hún útvega alla orku sjálf sem knýr tækið áfram“
    Hér er þó enn merkilegri frétt! Það er sem sagt búið að finna eilífðarvélina upp!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>