Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (20.08.2013) var okkur sagt frá ökumanni sem sigraði sérútbúna flokkinn. Er útilokað að íþróttafréttamenn geti farið rétt með þetta? Menn sigra ekki flokka, sigra ekki heldur keppni. Þetta er ekkert flókið. Menn sigra í flokki eða í keppni. Í sama fréttatíma var okkur sagt frá heimsmeistara í badminton sem hefði spilað eins og engill! Vissi ekki að englar spiluðu badminton. Gaman væri að sjá það. Nota kannski ekki spaða heldur vængina? Eitthvað til að hlakka til?
Gott innslag í fréttum Stöðvar tvö (20.08.2013) um hjólhýsahverfin þar sem víða leynast slysagildrur og þar sem reglum og eftirlit virðist áfátt. Sama gildir um umfjöllun Ríkissjónvarp um bílaleigumál þar sem eftirliti virðist mjög ábótavant og óprúttnir menn komast upp með að leigja viðskiptavinum óskáða bíla, ekki skráða sem bílaleigubíla og jafnvel ótryggða og illa búna bíla, druslur, eins og einu sinni var sagt. Hér hafa yfirvöld sofið á verðinum. Gott hjá sjónvarpsstöðvunum að ýta við þeim.
Af mbl.is (19.08.2013) Apple hefur farið þess á leit við byrgja sinn í Taívan að búa sig undir að senda tvær nýjar týpur af iPhone á markað í lok mánaðar. Byrgja hvað? Endemis rugl. Birgir er fyrirtæki sem sér öðru fyrirtæki fyrir aðföngum, segir orðabókin.
Molaskrifara hefur svona á heildina litið þótt sem fréttirnar á Stöð tvö hafi heldur verið í sókn að undanförnu. Þar hefur verið ýmislegt bitastætt,sem ekki hefur verið annarsstaðar, sérstaklega varðandi olíuleit og rannsóknir á þeim vettvangi frá Kristjáni Má Unnarssyni. Fréttatími Ríkissjónvarpsins klukkan 1900 ber hinsvegar æ meiri keim af því að vera myndskreytt útgáfa útvarpsfréttanna frá því klukkan 1800. Þar er ekki við starfsfólkið að sakast heldur skipulag vinnunnar af hálfu stjórnenda hjá Ríkissjónvarpinu.
Á síðu í Morgunblaðinu, sem nefnist Dægradvöl, eru m.a. myndasögur og skopmyndir. Ein myndanna sem þar birtist jafnan er undir fyrirsögninni Í klípu. Um þetta segir glöggur Molalesandi: ,,Þýðingarnar eru oft afleitar og stundum alveg fáránlegar og gera brandarann marklausan. Í morgun (20.08.2013) t.d. er fáránleg þýðing og í raun er ekki hægt að þýða þennan brandara. Þú getur ekki sett ,,nei“ og ,,vandamál“ í stað no problem. Betra væri að halda sig við enskuna eða sleppa þessu alveg.” Hárrétt, – no problem þýðir nefnilega ekki ,,nei ,vandamál”. Út í hött.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
23/08/2013 at 09:30 (UTC 0)
Vantar ekki eitthvað hér aftan á, Guðlaug?
Guðlaug Hestnes skrifar:
22/08/2013 at 19:01 (UTC 0)
Takk fyrir góða og nauðsynlega pistla. Heyrði á dögunum aldeilis fárálega þvælu á einum ljósvakamiðlinum. „Ég hef verið í þessum brönsum lengi,“ og einn var langtímaþreyttur. Kær kveðja.
Eiður skrifar:
22/08/2013 at 18:40 (UTC 0)
Kærar þakkir, – Eirný. Fæ að birta þetta í laugardagsmolum. K kv ESG
Eirný Vals skrifar:
22/08/2013 at 15:28 (UTC 0)
Þegar ég hlustaði á fréttir útvarpsins í vikunni fannst mér vera lesið, þyrla Landghelgisgæslunnar TFGNA (ég hélt að þyrlan bæri nafnið Gná, sem væri á flugmáli TF-GNA).
Þegar ég renndi í gegnum upptökur til að finna réttan fréttatíma heyrði ég
– foreldrakönnun meðal foreldra – þetta hlýtur að hafa verið forvitnileg könnun, ég hefði haldið að könnun meðal foreldra hefði verið réttara
– íbúðaverðsvísitala – heilir 17 stafir í einu orði, betra væri vísitala íbúðaverðs (sem er einnig klúðurslegt)
Eiður skrifar:
22/08/2013 at 10:52 (UTC 0)
Ágæt þýðing, Rafn.
Rafn skrifar:
22/08/2013 at 10:37 (UTC 0)
Einföld þýðing á „no problem“ er „ekkert mál“