«

»

Molar um málfar og miðla 1295

Reynslubolti úr heimi fjölmiðla skrifaði (01.09.2013):,, Ég feitletra hérna. Fyrri setningin er vel orðuð, en það er meinloka í hinni síðari. Bílar geta ekki sent loftskeyti eða slíkt. En búnaður í bílnum gæti hafa virkað til þess arna. Þetta var í köldfréttum Stöðvar 2 í gær, frétt sem Höskuldur Kári var með.

,,Sögufrægur bíll sem tengist njósnastarfsemi Þjóðverja á Íslandi í seinni heimsstyrjöld er nú til sýnis hér á landi. Talið er að bíllinn hafi verið notaður til að senda skilaboð til þýskra kafbáta á Atlantshafi.”   Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Molalesandi spyr (02.09.2013) ,,Sæll Eiður, tókstu eftir þessari fyrirsögn í Mbl. í dag?: Forsetinn segir Eið mega fara

Ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum þegar ég las fréttina! Hélt að nú væri eitthvað krassandi að gerast.”  Reyndar tók Molaskrifari einnig eftir þessu. Er að mestu hættur að láta sér bregða þegar hann sér nafn nafna síns Smára í fyrirsögnum fjölmiðla. Sú var tíðin að hann kipptist svolítið við. – Ekkert krassandi að gerast að því Molaskrifari best veit!

 

Það er ekki auraleysið hjá Ríkisútvarpinu okkar þegar kemur að poppinu og Evróvisjón, sem þeir reyndar kalla Júróvisjón upp á ensku. Milljón í verðlaun fyrir eitt popplag, – það kemur ofan á milljónatugina sem keppnin kostar og allt umstangið í kring um hana. Þá er seilst ofan í seðlakistur Efstaleitis og hvergi til  sparað.

 

Í tilefni þess sem hér hefur verið skrifað um það sem Ríkissjónvarpið kallar ,,gamanþætti” um Gunnar á Völlum, skrifaði Sigurbjörn Magnússon (02.09.2013): Um leið og ég þakka þér, Eiður fyrir marga góða pistla í gegnum árin, vil ég segja að ég er þér hjartanlega sammála um hinn svokallaða Gunnar á Völlum. Ég held að ég hafi aldrei séð aðra eins vitleysu í sjónvarpi hvorki hjá Ríkisútvarpinu né öðrum.
Ég þykist nú hafa kímnigáfu í lagi, en þættirnir um Gunnar eru svo arfavitlausir að mér stekkur ekki bros á vör þegar ég slysast til að horfa á þá.
Ég hef aldrei talið eftir mér að greiða afnotagjaldið af Ríkisútvarpinu, en ég sé mikið eftir þeim peningum, sem fara í að halda uppi Gunnari á Völlum og hans félögum. Góðar stundir.” Molaskrifari þakkar Sigurbirni línurnar.

 

 

Góð tilbreyting  að fá vandaða heimildamynd um Olof Palme í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (01.09.2013),. Molaskrifari var reyndar   búinn að sjá þessa mynd  (nokkuð viss um það) í einni af norrænu sjónvarpsstöðvunum sem við eigum kost á að sjá hér. – Guð lof sér fyrir þær. Molaskrifari varði sunnudagskvöldinu í Þjóðleikhúsinu, lét verða af því að sjá Engla alheimsins.  (Þjóðleikhúsinu sem átti samkvæmt hrakspám ýmissa menningarpostula á vinstri vængnum að lognast út af með tilkomu sjónvarpsins 1966!) Kvöldstundin í leikhúsinu varð með þeim eftirminnilegri. Stórkostleg uppsetning, leikurinn afbragð. Eftir bók og kvikmynd öðlaðist verkið nýtt líf í huga þess sem þetta skrifar. — Það er annars makalaust hver margir ekki geta orða bundist á fésbók,- þegar Ríkissjónvarpið sýnir tvær góðar myndir í beit, Hálfbróðurinn og heimildamyndina um Olof Palme. En hefur slíkt ekki áður gerst svo elstu menn muni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valur skrifar:

    Ég er sammála þessu með Eurovision, ef menn ætla að þýða þetta er þá ekki lágmark að þýða allt orðið ekki bara fyrri helminginn.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    „Talið er að bíllinn hafi verið notaður til að senda skilaboð til þýskra kafbáta á Atlantshafi.“
    Hvað er athugavert við þetta orðalag? Hér er bíllinn verkfæri til að senda skilaboðin sem og sá búnaður sem í honum var fólginn. Það mætti eins gera athugasemd við setningu eins og: „Hnífurinn var notaður til að skera hjartað úr nautinu.“ Engum dettur í hug að hnífurinn hafi skorið af eigin rammleik eður hvötum og trúlega fáum að bíllinn hafi búið yfir sjálfstæðum vilja og getu tiil skeytasendinga.

  3. Stefán Friðrik Stefánsson skrifar:

    Sæll Eiður. Tek undir með þér að dagskrá sunnudagskvöldsins var hin besta langalengi hjá RÚV. Kvikmyndirnar þar verið í B- eða C-flokki í mest allt sumar. Eina myndin að undanförnu sem ég hafði gaman af að sjá var ítalska verðlaunamyndin La vita é bella, sem var sýnd í ágúst. Annars verið slappt en vonandi ná menn að bæta kvikmyndavalið í vetur.

  4. Egill skrifar:

    Þú vilt þýða „Eurovision“ í „Evróvisjón“.
    En hvaða vitleysa er hér á ferðinni? Fór þýðandinn í frí í miðju orði? „Visjón“ er ekki íslenska. Ef þú vilt þýða þetta þá ætti orðið að vera „Evrósýn“ eða eitthvað álíka. En „Evróvisjón“ er bull og vitleysa … hálfþýtt orð. Söngvakeppni Evrópskra sjónvarsstöðva er þó skárra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>