«

»

Molar um málfar og miðla 1294

Í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (30.08.2013) talaði fréttamaður um heimildargerðarmann. Átt var við heimildamyndargerðarmann ( Klúðurslegt orð sbr. Vaðalaheiðarvegavinnumannaverkfærageymslu…..), – verið var að tala um höfund heimildamyndar. Það var eins og enginn hefði heyrt þetta á fréttastofu Stöðvar tvö. Enginn leiðrétting.

 

Plús til fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir að segja okkur frá jarðgangadeilunni í Færeyjum (30.08.2013), – einu hatramasta deilumáli sem þar hefur  komið upp í áratugi. Aðrir fjölmiðlar hafa ekki sagt frá deilunni svo Molaskrifari hafi tekið eftir.

 

Í auglýsingu á Bylgjunni ( og sjálfsagt víðar) er talað um stórt hlutfall umferðarslysa. Eðlilegra er að tala um hátt hlutfall, fremur en stórt hlutfall.

 

Æ oftar er talað um heilsugæslur. Orðið heilsugæsla er ekki til í fleirtölu. Þegar fréttamenn tala um heilsugæslur (Ríkissjónvarp 30.08.2013) eiga þeir við heilsugæslustövar.

 

Var stunginn níutíu og tveimur sinnum , var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (30.08.2013). Hér hefði farið betur á að segja níutíu og tvisvar sinnum.

 

Það er freistandi spyrja hér í lok þessara Mola: Hvað halda yfirmenn í Efstaleiti um viðskiptavini Ríkisútvarpsins sem býður upp það sem kallað er Gunnar á Völlum eins og gert var á föstudagskvöld (30.08.2013)? Í þessum þætti var blandað saman bjórauglýsingu og efni þáttarins sem er brot á reglum Ríkisútvarpsins. Áfengisauglýsingar eru bannaðar.

Það bann brýtur Ríkisútvarpið átölulaust , næstum daglega. Ekki á að blanda saman auglýsingum og efni. Auglýsingar eiga að vera skýrt afmarkaðar. Hvað segir stjórn Ríkisútvarpsins ohf.? Hvað segir menntamálaráðherra, – æðsti yfirmaður þessarar mikilvægu stofnunar?

Aðeins meira um svokallaðan Gunnar á Völlum. Einn af rithöfunum okkar hefur kveðið upp þann dóm að Molaskrifari sé algjörlega húmorslaus fyrst honum hugnist ekki vitleysisgangurinn í þessari endemis afurð Ríkissjónvarpsins. Rtihöfundurin, er handhafi hinnar einu og sönnu kímnigáfu. Legg til að að honum verður falið að selja Skaupið. Getur ekki brugðist.

 

Niðursoðna konuröddin sem kynnir okkur dagskrár Ríkissjónvarpsins sagði okkur (31.08.2013) frá manni sem fékk flugu inn í höfuðið. Til þessa hefur nægt að tala um að fá flugu í höfuðið, þegar einhver verður heltekinn af fáránlegri hugmynd.

 

Hversvegna tala fréttamenn Ríkisútvarpsins ýmist um fylki eða ríki í fréttum um Bandaríkin? Þarna vantar samræmi. Í Noregi eru fylki, en í Bandaríkjunum ríki.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurbjörn H. Magnússon skrifar:

    Um leið og ég þakka þér, Eiður fyrir marga góða pistla í gegnum árin, vil ég segja að ég er þér hjartanlega sammála um hinn svokallaða Gunnar á Völlum. Ég held að ég hafi aldrei séð aðra eins vitleysu í sjónvarpi hvorki hjá Ríkisútvarpinu né öðrum.
    Ég þykist nú hafa kímnigáfu í lagi, en þættirnir um Gunnar eru svo arfavitlausir að mér stekkur ekki bros á vör þegar ég slysast til að horfa á þá.
    Ég hef aldrei talið eftir mér að greiða afnotagjaldið af Ríkisútvarpinu, en ég sé mikið eftir þeim peningum, sem fara í að halda uppi Gunnari á Völlum og hans félögum.

    Góðar stundir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>