«

»

Molar um málfar og miðla 1293

Pétur Kjartansson sendi Molum línu (30.08.2013) vegna þess sem hér hefur  verið skrifað um fleirtölumyndina smalamennskur. Pétur segir: ,,Ég er kunnugur í Borgarfirði þar sem Gísli Einarsson ( fréttamaður Ríkisútvarps)  mun eiga uppruna sinn.  Þar var a.m.k. alvanalegt að tala um smalamennskur í fleirtölu.  ,,Hann er farinn í smalamennskur“, ,,smalamennskur (að hausti) eru að byrja“, ,,,það eru allir í smalamennskum“.  Nóg er af ambögunum en þetta er ekki ein af þeim og Gísli hafður fyrir rangri sök.” Þessu er hér með til haga haldið. Molaskrifari þakkar Pétri þetta ágæta bréf.

 

Orðavin sendi eftirfarandi (29.08.2013): ,,Framúrskarandi frammistaða blaðamanns í frétt http://www.visir.is/hardur-arekstur-vid-vellina/article/2013130829309 á visir.is:
,,Að sögn lögreglu skullu tveir bílar saman sem voru að koma úr gagnstæðri átt. Loka þurfti Reykjanesbrautinni vegna slyssins og opnaði hún ekki aftur fyrr en laust eftir miðnætti. Líðan hins slasaða, sem er kona, er stöðugt að sögn vakthafandi læknis á gjörgæslu.
Villa í hverri einustu setningu!”  Ja. hérna!  Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Jón Axel Egilsson skrifaði (28.08.2013): ,,Smáleiðrétting sem ég vil koma á framfæri:
Í fréttatíma Stöðvar 2 var getið um gróðursetningu Vigdísar Finnbogadóttur og þar sagt að hún hefði nefnt tréð, sem er askur, Ask Yggdrasils og síðan að hún hefði valið örlaganornina Verðandi fyrir framtíð skógræktar á Íslandi.
Hér er fréttin – skrifuð og kvik –

http://www.visir.is/vigdis-finnbogdottir-grodursetti-ask-yggdrasils/article/2013130829495
Reyndar skrifað Iggdraslis – en í kviku fréttinni nefnir Vigdís hvorki tréð né örlaganornina – því hefði hún gert það hefði hún nefnt Skuld sem er norn framtíðar, en ekki Verðandi sem er norn nútíðar.
Rétt er að geta þess að í frétt á RÚV var hvorki minnst á tréð né nornina.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Blæs byrlega fyrir vindorku , var ágæt  fyrirsögn í Morgunblaðinu (29.08.2013) um raforkuframleiðslu með vindmyllum.

 

Molaskrifari viðurkennir að hann er orðinn svolítið þreyttur á , tilgerðarlegu, niðursoðnu konuröddinni sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins og  segir okkur að nú verði líf  fjör í eða á  læknamiðstöðinni og  talar um eftirlætismeinafræðing.   Það er kominn tími  til að skipta. Leyfa okkur að heyra fleiri raddir. Fólk sem talar með venjulegum og eðlilegum áherslum íslenskunnar.

 

Lesandi benti á þessa frétt (29.08.2013) á fréttavef Ríkisútvarpsins: Verkalýðsfélög höndla húsnæðisvandann – http://www.ruv.is/frett/verkalydsfelog-hondla-husnaedisvandann Hann spyr:, ,,Hvað skyldi ráðherrann eða fréttastofa útvarpsins meina með því að tala um að verkalýðsfélögin höndli húsnæðisvandann?? en ekki kemur fram í fréttinni hvort þetta orðalag fyrirsagnarinnar er ráðherrans eða hvaðan það er komið.
Ég reyndi að fletta upp í Orðabók Menningarsjóðs, en var engu nær eftir þá uppflettingu.” Molaskrifari bætir við: Ekki getur þetta talist vandað orðalag.

 

Þegar sjónvarp hófst á Íslandi 30. september  1966 fengum við margháttaða aðstoð og fyrirgreiðslu frá norrænu sjónvarpsstöðvunum. Danska sjónvarpið  þjálfaði tæknimenn og  dagskrárgerðarmenn,  tækjabúnaður kom  meðal annars frá  sænska sjónvarpinu og því norska. Þessi aðstoð skipti sköpum um það hversu fljótt og greiðlega tókst að koma  sjónvarpinu á legg.

Nú leggur Molaskrifari til að á ný verði óskað eftir  aðstoð  frá norrænum sjónvarpsstöðvum til handa ríkissjónvarpinu okkar. Þessi aðstoð ætti einkum að vera tvennskonar.  Í fyrsta lagi ætti hún að beinast því hvernig   best sé að setja saman dagskrá þannig að hún sé við sem flestra  hæfi.  Þetta hefur Ríkissjónvarpinu mistekist. Í öðru lagi þyrfti að efna  til námskeiðs  fyrir þá sem annast innkaup á  erlendu efni  fyrir Ríkissjónvarpið. Kvikmyndavalið í sumar hefur  verið svo hörmulegt að með ólíkindum er, – hver ruslmyndin á  fætur annarri. Það þarf líka að koma því inn hjá innkaupastjórum  að blóðsugu, – vampíru og  draugamyndir eru alls ekki  það sem þorri fólks kýs  sér til afþreyingar til dæmis á föstudags- og  laugardagskvöldum. Í versta falli mætti  segja  núverandi innkaupastjórum upp og  fela  til dæmis þeim sem  annast innkaup  fyrir    norska ríkissjónvarpið að  sjá um þetta  fyrir okkur í leiðinni. Þá værum við hreint ekki illa sett.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>