«

»

Molar um málfar og miðla 1292

 

Í fréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagkvöld talaði fréttamaður  um smalamennskur. Molaskrifari hefur aldrei séð orðið smalamennska í fleirtölu. Fleirtölumyndina er ekki að finna á vef  Árnastofnunar. Í sömu frétt voru gangnamenn kallaðir smalar. Það kann að vera málvenja einhversstaðar á landinu, þótt ekki láti það kunnuglega í eyrum Molaskrifara.  Sigurgeir sendi Molaum línu um þetta sama og sagði: : ,, Það var leiðinlegt að heyra þann ágæta fréttamann, Gísla Einarsson, tala um smalamennskur bænda í fréttum RÚV fimmtudaginn 29. ágúst. Fyrst hélt ég að honum hefði bara orðið fótaskortur á tungunni en svo endurtók hann þetta, í fleirtölu.
Smalamennska er orð sem á ekkert erindi í fleirtölu, frekar en orðið vinna, sem æ fleiri setja í fleirtölu; segjast vera í tveimur vinnum en ekki störfum eins og eðlilegra væri.
Spurning hvenær kjötin og mjólkirnar koma fram á sjónarsviðið.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Í sama fréttatíma Ríkissjónvarps var fjallað um lúsafaraldur. Þar var sögnina að kemba látin stýra þolfalli. Molaskrifari hefur ekki áður heyrt talað um að kemba einhvern. Heldur kemba einhverjum (þgf) til að leita honum lúsa. Þegar leitað er vandlega  á   tilteknu svæði er stundum sagt að búið sé að kemba svæðið.

 

Fréttamaður Stöðvar tvö talaði (27.08.2013) um fund sem haldinn var af Reykjavíkurborg. Óþörf þolmynd. Betra hefði verið: … fund sem Reykjavíkurborg hélt.

 

Fjörutíu mínútna akstur frá Keflavíkurflugvelli niður í miðbæ í Reykjavík, sagði bæjarstjórinn í Reykjanesbæ í fréttum Stöðvar tvö (27.08.2013). Þá er nú sennilega ekki ekið á löglegum hraða.

 

Paul B. Hansen skrifaði (28.08.2013) vegna ummæla Egils um hikorðið, sko: ,,Sæll Eiður,
Ég sé að Egill er að minnast á danska tökuorðið „sko“ , sem líklega er komið af „sgu“ en það orð var notað ótæpilega þegar ég var að vaxa upp, en virðist ekki vera algengt í nútíma dönsku. Fletti þessu upp í orðabók og fann þetta: „sgu“, adverbium
UDTALE [sgu] tip
OPRINDELSE ligesom sågu, sammentrækning af så gud, afkortning af så gud hjælpe (e.l.) mig.
Þó svo að hér sé vitnað í Guð almáttugan þá er þetta talið s.k. „bandeord“ í dönsku.” – Kærar þakkir fyrir þennan fróðleik, Paul. –  Þessi   sko-notkun var reyndar  afar áberandi í viðtali við unga konu í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi   (30.08.2013).

 

Gunnar skrifaði (28.08.2013): ,,Sæll Eiður.
Bendi á þá reginvitleysu (sem fjölmargir apa svo upp) að þáttur Ara Trausta fjallaði um Reykjanesskaga, en ekki aðeins um Reykjanesið. Sjálft Reykjanes er suðvesturhornið á Reykjanesskaga, sunnan Hafna og Sandvíkur. Skaginn, sem fjallað var um í þáttunum, er svo miklu stærri. “ Þetta er rétt ábending hjá Gunnari. Kærar þakkir.

 

  Við heyrum sögur sem skipta máli, sagði niðursoðna konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins (29.08.2013). Enskulegt orðalag.

 

Stöðvuðu Bríó frá þátttöku í bjórkeppni, sagði í fyrirsögn á mbl.is á miðvikudag (28.08.2013): Þetta er klúðursleg fyrirsögn, að ekki sé meira sagt. Að stöðva einhvern frá einhverju er ekki boðlegt orðalag. Fréttin er um það að komið hafið verið í veg fyrir að sérstök tegund bjórs, Bríó, frá Ölgerðinni gæti tekið þátt í keppni í Þýskalandi. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2013/08/28/stodvudu_brio_fra_thatttoku/

 

Í Garðapóstinum (29.08.2013) er talað um Garðbæísku hljómsveitina Hide Your Kids. Ekki finnst Molaskrifara það orðalag vera til fyrirmyndar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammmála, Valgeir. Kærar þakkir.

  2. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Mér er nauðsyn að árétta orð mín fyrr í dag. Þau voru alltof fljótfærnisleg til þess að vera skrifuð af svo gömlum manni! Ég er alveg sammála Eiði í því að hafa ekki heyrt gangnamenn (kannski 20-30 manns) kallaða smala. Hins vegar gat maður tekið svo til orða um 2-3: Þeir eru nú býsna góðir smalar, strákarnir. Aftur á móti töluðum við alltaf um smalamennskur. Ég held að ég hafi varla heyrt talað um smalanir, fyrr en ég var kominn hingað „suður“. Merkilegt!
    Kær kv. VS.

  3. Eiður skrifar:

    Hef ekki heyrt orðið smali notað um gangnamenn, ekki að marka mín málreynslu er takmörkuð. Norðmenn kalla svið, smalahuvud, hjá okkur lifitr þessi gamla merking eingöngu í orðinu búsmali.

  4. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Heill sé Gísla fyrir að nota bæði orðin smalamennskur og smali í máli sínu. Vel man ég þegar karlarnir heima voru að tala um bújarðir þar sem fé væri óþægt og smalamennskur erfiðar. – Síðan eru ekki nema rúm sjötíu ár! Og smali -um mann- bráðlifandi orð fram á þennan dag. Hann er góðir smali: Hann er glöggur og eftirtektarsamur. Það fer ekkert fram hjá honum.
    Man ekki einhver það sem próf. Einar Ól. Sveinsson segir um þessi orð í Laxdælu: Í fornu máli þýddi smali eingöngu búfé, en smalamaður sá er smalans gætti. Seinna var farið að nota orðið einnig um manninn, Smalamanninn. — Margt fróðlegt segir prófessorinn um þetta, sem ég nenni ekki að rekja.
    Kær kv. VS.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>