«

»

Molar um málfar og miðla 1291

Valgeir Sigurðsson, fyrrverandi blaðamaður, skrifaði (28.08.2013): ,,Ósköp kann ég illa við þetta, sem sumir kalla stofnanamál: Starfsmanni…sagt upp störfum, – og margt annað þessu líkt. Ætli að Þórbergur sálugi hefði ekki kallað þetta staglstíl?” Það er sennilega alveg rétt, til getið, Valgeir. Þakka þér línurnar.

 

Sigurgeir benti á eftirfarandi: Á dv.is 26. ágúst er frétt með svohljóðandi fyrirsögn: „Nauðgað og brenndur í Heiðmörk.“
Ekki beint áferðarfallegt mál.
Svo segir í sjálfri fréttinni: „Honum hefur nú verið úthlutaður réttargæslumaður.“
Betra hefði verið að segja að honum hafi verið úthlutað réttargæslumanni. En er réttargæslumönnum að öllu jöfnu úthlutað (kannski af úthlutunarnefnd)? Er ekki eðlilegra í þessu sambandi að tala um að útvega?” Þakka Sigurgeiri sendinguna. Eins hefði mátt segja. Hann hefur nú fengið réttargæslumann.

 

Eirný Vals skrifaði eftirfarandi athugasemd (27.08.2013): ,,Þegar ég heyrði fréttir ríkisútvarpsins klukkan sjö í morgun, þriðjudag 27. ágúst, tók ég eftir að sá sem skrifaði frétt um árekstur við Vellina í Hafnarfirði forðaðist að nota orðin klessti. Fréttin var um að tvær bifreiðar, sem komu úr gagnstæðri átt, rákust á.
Það er ágætt því árekstur er einmitt það að rekast á.” Molaskrifari tók eftir þessu líka. Gott þegar fréttaskrifarar vanda sig og éta ekki barnamálið hver upp eftir öðrum.

 

Rafn spyr vegna fyrirsagnar á dv.is (27.08.2013). Fyrirsögnin er svona: Fleiri læsir í Reykjanesbæ en í Reykjavík. Rafn spyr: ,,Getur það verið rétt, að innan við 12% Reykvíkinga geti lesið sér að gagni?

Allir íbúar Reykjanesbæjar eru innan við 12% Reykvíkinga.

Þetta er af vefsíðu DV.IS”.

Hér er önnur ábending frá Rafni. Að þessu sinni vegna efnis á pressan.is. Rafn segir: ,,Ég hefi áður nefnt skort á beygingum falliða. Hér er fréttaefnið bændur og aðrir íbúar við öllu búnir, en tekið er fram, að ástæða sé fyrir þá, að vera við öllu búna (ekki búnir eins og segir í fyrirsögn), Síðan má segja frá íbúum við öllu búnum og leita til við öllu búinna íbúa.

Annað! Hvernig er smalað eftir atvikum??” Sjá: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/brjalad-vedur-a-leidinni–baendur-hefja-gongur-i-dag—astaeda-fyrir-ibua-ad-vera-vid-ollu-bunir?pressandate=20090416%2band%2buser%253d0%2band%2b1%253d1

Molaskrifari þakkar Rafni ábendingarnar.

 

.Af visir.is (27.08.2013): „Ég tók strax upp símann og sagðist ekki vilja hafa neitt eftir mér en sagði að því færi fjarri að í bréfinu væri einhver hótun heldur vangaveltur um framtíð liðsins,“ segir Þórir. Fótboltaforystunni á Íslandi virðast mislagðar hendur um flest.

 

Af mbl.is (27.08.2013: ,,Bandaríkjaher er reiðubúinn fyrir árás á Sýrland vegna efnavopnaárásar sýrlenskra stjórnvalda, segir Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna”.  Reiðubúinn fyrir árás? Væri ekki betra að segja að herinn væri reiðubúinn til árásar?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Tómas Tómasson skrifar:

    Hvað er „að vera búna“? Ég held að Rafn vaði villur með þetta. Fyrirsögnin er ekki til fyrirmyndar en ekki beinlínis röng. Íbúar eru búnir, vel eða illa, við öllu eða engu (til alls eða einskis) en ekki „búna“.
    Vond veður koma ver við illa búna íbúa en þá sem eru vel búnir þannig að betra er að vera vel búinn. Ég mundi líka leita til við öllu búinna íbúa eftir aðstoð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>