«

»

Molar um málfar og miðla 1290

Egill sendi Molum þessa ágætu athugasemd (27.08.2013): ,,Sæll Eiður,
Ég held að það sé ekki ofsagt að halda því fram að nokkuð stór hluti þjóðarinnar geti ekki komið út úr sér setningu án þess að enda hana á „þú veist“ „eða „skilurðu“. Það eru ekki mörg ár síðan að þetta fór að heyrast en lengra er þó síðan að fólk fór að troða dönskuslettunni „sko“ inn í allar setningar sem að það út úr sér lætur og jafnvel oft í sömu setningu.
Reyni ég að færa þetta í tal við viðkomandi aðila og benda honum á þetta þá bregst viðkomandi annaðhvort hinn versti við eða skilur ekki rökin fyrir ábendingunni
( Eiður skilurðu ? )
Þetta er fulllangur formáli að því sem ég ætlaði að koma á framfæri. Á mbl.is í dag mánudag er þessi fyrirsögn „Rúrik lék leikinn í 20 mínútur“ Síðan kemur “ Ég spilaði leikinn í einhverjar 20 mínútur……“
Er Rúrik ekki með það á hreinu hvaða 20 mínútur hann spilaði ? „einhverjar“ er hér ofaukið og eitt af þeim orðum sem að fólk notar í setningum hjá sér og er samskonar ofnotkunin og misnotkunin og ég minnist á hér að ofan.
Kv, Egill” Molaskrifari þakkar þessa athugasemd sem svo sannarlega er tímabær.

 

 Hvað þarf góður fjárhundur að bera spurði fréttaritari Stöðvar tvö í fréttum á sunnudagskvöld (25.08.2013). Sennilega ætlaði hann að spyrja um hvað góður fjárhundur þyrfti að hafa til að bera, – hvaða kostum eða eiginleikum hann þyrfti að vera gæddur.

Í sama fréttatíma sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra: ,, Þetta er auðvitað bara dæmi um að ýmsar ráðstafanir sem fyrri ríkisstjórn greip til voru ekki sjálfbærar, – voru tímabundnar og voru líklegar til að renna sitt skeið þannig að það þyrfti að grípa til nýrra ráðstafana…” Molaskrifari játar að hann áttar sig ekki á notkun orðsins sjálfbær í þessu samhengi.

 

Á baksíðu Morgunblaðsins  er (28.08.2013) viðtal við Hafnfirðing sem í dag heldur upp á hundrað ára afmælið sitt. Illmögulegt er að ráða í það hvort maðurinn heitir Guðjón eða Kristinn. Það sér á, að prófarkalestur  er ekki lengur til staðar í þeim mæli sem áður var á Morgunblaðinu, sem var öðrum fjölmiðlum  oftar en ekki fyrirmynd í þeim efnum.

 

Engu fleira var stolið, sagði á fréttavef Ríkisútvarpsins (26.08.2013). Betra hefði verið: Ekki var fleiru stolið.

 

Sjálfsagt hafa ýmis lesendur Morgunblaðsins brosað í kampinn við að lesa hallærislega húsbóndahollan pistil Stefáns Gunnars Sveinssonar blaðamanns við hlið leiðara Moggans á mánudag (26.08.2013). Þar er því haldið fram að höfnun IPA styrkjanna frá ESB spari ríkissjóði fé. Þetta eykur auðvitað trúverðugleika fréttanna í Morgunblaðinu. Ekki veitir af.

 

Margt áhugavert bar á góma í lokaþætti þeirra Ara Trausta og Valdimars Leifssonar um Reykjanes í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (27.08.2013). Molaskrifari fannst þátturinn dálítið áttavilltur, – eins og hann vissi ekki alveg hvað hann ætti að vera. Eivör frá Götu átti ekkert erindi , – svo frábær söngkona sem hún annars er , – í helli við Selatanga. Ari Trausti hefði átt að halda sig meira við jarðfræðina og tengd efni. Hægt hefði verið að gera tíu áhugaverða þætti um ýmislegt sem þarna var aðeins drepið á, Margt áhugavert en um of yfirborðskennt og sundurtætt. Svolítil fljótaskrift. – Takk samt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Gunnar.

  2. Gunnar skrifar:

    Sæll Eiður.
    Bendi á þá reginvitleysu (sem fjölmargir apa svo upp) að þáttur Ara Trausta fjallaði um Reykjanesskaga, en ekki aðeins um Reykjanesið. Sjálft Reykjanes er suðvesturhornið á Reykjanesskaga, sunnan Hafna og Sandvíkur. Skaginn, sem fjallað var um í þáttunum, er svo miklu stærri. Kv. Gunnar.

  3. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Paul.

  4. Eiður skrifar:

    Sammála þér, Egill. Þarna var allt of mörgu og óskyldu blandað saman. Eins og Reykjanesið er ferðafólki óþrjótandi uppspretta nýrra leiða, getur það verið þáttargerðarmönnum efni í nær óteljandi þætti um jarðsöguna og – söguna.

  5. Paul B Hansen skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég sé að Egill er að minnast á danska tökuorðið „sko“ , sem líklega er komið af „sgu“ en það orð var notað ótæpilega þegar ég var að vaxa upp, en virðist ekki vera algengt í nútíma dönsku. Fletti þessu upp í orðabók og fann þetta: „sgu“, adverbium
    UDTALE [sgu] tip
    OPRINDELSE ligesom sågu, sammentrækning af så gud, afkortning af så gud hjælpe (e.l.) mig.
    Þó svo að hér sé vitnað í Guð almáttugan þá er þetta talið s.k. „bandeord“ í dönsku.
    mbk
    Paul B Hansen

  6. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Þetta eru skilaboð okkar á milli.
    Ég tek undir það með þér að þættirnir hans Ara voru ákveðin vonbrigði. Ég átti von á því að þetta væru þættir um jarðfræði og náttúru skagans. Þess í stað var farið ( of ) um víðan völl og félagslífi í Reykjanesbæ blandað saman við eldvirkni á þrettándu öld ásamt öðrum „hræringi“.
    Ég hef annars verið ánægður með þáttagerð Ara.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>