«

»

Molar um málfar og miðla 1289

Í morgunfréttum Ríkisútvarps , klukkan sex á mánudagsmorgni (26.08.2013) var talað um þjóðarrétt Breta , djúpsteiktan fisk og franskar kartöflur ( fish and chips sem oftast er ,eða var,pakkað inn í gömul dagblöð).Þetta var svo endurtekið í fleiri fréttatímum. Þetta voru kallaðar veigar, en veig er vín , áfengur drykkur. Ekki er vitað til þess að neinn hafi orðið fullur af því að snæða fisk og franskar. Á fréttavef Ríkisútvarpsins segir: ,,Gary Warner, framkvæmdastjóri Warners Fish Merchants, sem sér tæplega tíu prósent sölustaða þessara djúpsteiktu veiga fyrir fiski, segir fyrirtækið í góðu samstarfi við íslenska sjávarútvegsfyrirtækið”. Alltaf er betra fyrir fréttamenn að vita merkingu orða sem þeir nota. http://www.ruv.is/frett/hagnadur-i-vasa-islenskra-hvalveidimanna

En hvernig er annars með gæðaeftirlitið hjá fréttastofu ríkisins? Hlustar enginn? Les enginn yfir? Greinilega ekki.

 

Í fréttayfirliti kvöldfrétta í Ríkisútvarpinu á laugardagskvöld (24.08.2013) var sagt: Starfsmaður, sem sýknaður var af ákæru um harðræði gagnvart grunnskólabarni í sumar, var sagt upp störfum í kjölfar skipulagsbreytinga. Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem skrifa fyrir okkur fréttir sem lesnar eru í Ríkisútvarpinu að þeir geti haft heila setningu í hausnum þegar þeir skrifa og komið henni óbrenglaðri frá sér. Starfsmaður var ekki sagt upp störfum. Starfsmanni var sagt upp störfum.

 

Úr illa saminni frétt á Stöð tvö (24.08.2013): Nánari upplýsingar um staðsetningu hersveita sem gætu látið til skarar skríða fæst ekki uppgefin, en sagt er að búið verði í haginn þannig að hægt verði að bregðast skjótt við. Hér hefur fréttaskrifara ekki tekist að koma heilli setningu fyrir í huga sér. Að búa í haginn er tæplega rétt orðalagið þarna. Hér er tillaga að öðru orðalagi: Nánari upplýsingar um staðsetningu hersveita, sem gætu látið til skarar skríða, eru ekki fáanlegar en sagt er að þannig verði um hnútana búið að hægt verði að bregðast skjótt við.

 

Kóreógrafía er beisikallí …. sagði ung kona, sem rætt var í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (24.08.2013). Sennilega er þetta ágætis dæmi um málfar fólks á svipuðum aldri og þessi unga kona.

 

Arnarhóll var þétt setinn, var sagt í fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (24.08.2013) Molaskrifari sá ekki betur en tónleikagestir á Arnarhóli stæðu.

 

Sá auglýsingu á netinu frá fyrirtæki sem kallar sig Innkassó (24.08.2013) Hún var svona: Vantar þig að rukka reikninga? Það verður að segjast eins og er að sá sem ber ábyrgð á þessu kann ekki mikið í íslensku.

 

Einhver kynni að segja að það væri ágætt dæmi um sjálfhverfu fréttastofa sjónvarpsstöðvanna hve mikinn áhuga Stöð tvö sýndi stórtónleikum Bylgjunnar á Ingólfstorgi og Ríkissjónvarpið tónleikum Rásar tvö á Arnarhóli. Laugardagskvöld (24.08.2013)

 

Fréttamaður Stöðvar tvö sagði (25.08.2013) að ekki stæði til að framlengja ákvæðinu. Molaskrifari hefði betur kunnað að meta , ef talað hefði verið um að framlengja gildistíma ákvæðisins.

 

Fréttabörnin á visir.is fá líka að semja fyrirsagnir. Þau eru alltaf að klessa á (25.08.2013). Sjá http://visir.is/stalu-bil-og-klesstu-tvisvar-a/article/2013130829439

 

Það var undarlegt fréttamat hjá Stöð tvö á sunnudagskvöld (25.08.2013) að gera Sigmund Davíð Gunnlaugsson að aðalatriði í frétt af þingi Þjóðræknisfélagsins. Á þinginu var urmull gesta frá vesturheimi sem áhugaverðara hefði verið að sjá og heyra í fréttum. SDG forsætisráðherra flutti þar fremur meinleysislegt ávarp. Þingið virðist alveg hafa farið framhjá Ríkissjónvarpinu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hárrétt hjá þér, Valgeir.Kær kv Eiður

  2. Valgeir sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Ósköp kann ég illa við þetta, sem sumir kalla stofnanamál: Starfsmanni…sagt upp störfum, – og margt annað þessu líkt. Ætli að Þórbergur sálugi hefði ekki kallað þetta staglstíl?
    Kær kv. VS.

  3. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Eirný.

  4. Eirný Vals skrifar:

    Þegar ég heyrði fréttir ríkisútvarpsins klukkan sjö í morgun, þriðjudag 27. ágúst, tók ég eftir að sá sem skrifaði frétt um árekstur við Vellina í Hafnarfirði forðaðist að nota orðin klessti. Fréttin var um að tvær bifreiðar, sem komu úr gagnstæðri átt, rákust á.
    Það er ágætt því árekstur er einmitt það að rekast á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>