«

»

Molar um málfar og miðla 1296

 

Þórður skrifaði (02.09.2013): ,,Fjöllistahópurinn Sirkus Íslands stendur nú fyrir söfnun á sirkustjaldi. Einhver innan hópsins eru ekki betur að sér, en svo að skrifa í sífellu um eitthvað sem þau kalla „sirkús“ og „sirkústjald“. En samræmið er ekkert, stundum stendur „sirkus“ og „sirkús“ í sömu setningunni. Í sumar, þegar þáttur var í sjónvarpinu um sirkushátíðina Volcano í Vatnsmýrinni, talaði sjónvarpskonan Margrét Maack stundum um „sirkús“ með skýru ú-hljóði, en allir aðrir um sirkus. Ég hafði samband við íslenskumann hjá Háskóla Íslands og spurði hann um þetta orð, „sirkús“, sem hvergi er til í íslenskum orðabókum. Hann sagði einfaldlega: „Þetta er bull eða hugsanlega smábarnamál, því orðið „sirkús“ er ekki til í íslensku máli. Það heitir „sirkus“!
Hvað segir máltilfinning þín um þetta Eiður?”

Mín máltilfinning er sú að orðið sirkús sé út í hött.

 

Gott að vera búin að fá Kastljósið aftur á dagskrá í Ríkissjónvarpinu. Af umfjöllun útgerðarævintýri skúffufyrirtæki og fjárfestingar lífeyrissjóð er erfitt að draga aðra ályktun en þá að nokkrir stærstu lífeyrissjóðir landsins hafi verið hlunnfarnir í flókinni fléttu sem teygði anga sína víða um heim. Ekki einfaldaðist málið við umfjöllun gærkvöldsins ((03.09.2013). Tvímælis orkaði löng umfjöllun um nýja hljómplötu í upphafi þáttar.

 

Hvað gekk fréttastofu Ríkisútvarpsins til að draga fyrir fáeinum dögum fram ársgamla könnun á afstöðu Reykvíkinga til Reykjavíkurflugvallar?

 

Við Íslendingar eigum mörg heimsmet. Og það þótt ekki sé miðað við mannfjölda. Í leikhúshléi um daginn sá Molaskrifari hvern viðskiptavininn á fætur öðru veifa greiðslukorti til að greiða fyrir ópal ,eina gosflösku eða einn kaffibolla. Þetta hefur hann hvergi í veröldinni séð áður. Eitthvað hlýtur þetta að kosta.

 

Ríkissjónvarpið hefur aðeins opnað glugga til Færeyja í sjónvarpsfréttum að undanförnu. Við þurfum að fá fleiri fréttir af grönnum okkar í Færeyjum og á Grænlandi.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (02.09.2013) var sagt í frétt um Sýrland: Eldflaugarnar hafi verið skotnar frá svæði stjórnvalda ... Eldflaugarnar voru áreiðanlega ekki skotnar. Þeim var skotið. Á þessu er talsverður munur, – að ekki sé meira sagt, sem fréttaskrifari hefur ekki gert sér grein fyrir.

 

Á forsíðu Morgunblaðsins (02.09.2013) stóð undir forsíðumynd: Netin dregin inn á fiskveiðiáramótum. Molaskrifar er reyndar ekki sérfróður um sjó eða sjómennsku, en hann sá ekki betur en þarna væri verið að hífa troll, botnvörpu , ekki net. Í myndatextanum var tvívegis talað um net. Er Morgunblaðið annars ekki í eigu útgerðarmanna, þeir gefa það út og greiða tapið af útgáfunni? Þótt menn þekki mun á neti og trolli þekkja menn þar á bæ vonandi þorsk frá ýsu.

 

Í morgun þætti Rásar tvö í morgun var okkur tvísagt að í dag 4. september væri 4. ágúst. Þetta er kannski ekki stórmál. En ekki var þetta leiðrétt, sem segir annað tveggja, – enginn var að hlusta í Efstaleiti eða að ekki þótti taka því að leiðrétta þessa missögn. Hvort tveggja er slæmt. – Svo er reyndar óþarfi hjá ágætum umsjónarmanni að herma það eftir einum fréttaþulnum á Stöð tvö að skipa okkur hlustendum að fara ekki langt! Það er reyndar eins og hver önnur vitleysa , – þegar sumir eru að tygja sig til vinnu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta má bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni. – ESG

 

1 athugasemd

1 ping

  1. Jón Steinar skrifar:

    Morgunþáttur er samsett orð. Þú skrifar „morgun þætti“ eins og margir landar þínir gera sem þekkja ekki orðið muninn á samsettum og ósamsettum orðum.
    Þetta er faraldur í rituðu máli í dag.

  1. Hvað gengur fréttastofu Ríkisútvarpsins til? skrifar:

    […] Er nema vona að Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins spyrji á heimasíðu sinni: […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>