«

»

Molar um málfar og miðla 1307

Lesandi skrifaði Molum (20.09.2013): Aðalforsíðufréttin i Vísi – net útgáfunni – er kynnt svona: ,, Júlíus Vífill Ingvarsson stefnir ótrauður a fyrsta sætið í Reykjavík. Þorbjörg Helga liggur undir felld…..“
Liggur undir – hverjum? Felld – bara fallin strax! Uppsláttur við hæfi illa skrifandi fréttabarna.
Þá heyrði ég nú i annað sinn i hádegisfréttum Bylgjunnar – tvo daga i röð – þann annars ágæta fréttamann Heimi Má ræða um að stríðandi aðilar i Sýrlandi „bærust a banaspjótum“.,,Eg berst a fáki fráum, fram um veg“ orti Hannes Hafstein. Skyldu ekki stríðandi aðilar a Sýrlandi verða sárir í rassinum eftir að hafa borist svo lengi a banaspjótum?
Heimir Már er of reyndur fréttamaður til þess að láta sér skjöplast svona. Það gera eiginlega bara fréttabörnin.”

 

Jóhannes Ingimundarson sendi Molaskrifara línu (19.09.2013) og benti á broslega grein eða frétt, í Viðskiptablaðinu. Fréttina má lesa hér: ahttp://www.m5.is/?gluggi=frett&id=196086
Jóhannes segir líka:,,Það er mér hulin ráðgáta hvernig hægt er að fóðra naut eftir slátrun. Svo er endirinn skrautlegur ! Satt og rétt. Erfitt er að sjá eða skilja hvernig hægt er að fóðra naut eftir að þeim hefur verið slátrað. Þar við bætist að ambaga er í fyrirsögn og fyrstu setningu fréttarinnar, en þar segir: ,,Nauti sem slátrað var hjá Norðlenska á dögunum myndi sennilegast duga í 3000 hamborgara” Betra væri, til dæmis: Nautið sem slátrað var …. mundi sennilega duga í 3000 hamborgara.

 

Gunnar skrifaði (20.09.2013): ,, Nú er Andri Freyr kominn aftur á Rás 2 eftir langt og gott sumarfrí. Síðastliðinn fimmtudag sagði hann hvað eftir annað við viðmælendur sína: „Herðu stúlkur …“ sem er afskaplega hvimleiður ávani. Hann ætti að fá lengra frí.
Heimir Már Pétursson sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar á föstudag: „Liðinu vantar tvö stig …“ Það er ekki rétt. Liðið vantar tvö stig. Þolfall, ekki þágufallssýki.”

 

Molaskrifari þakkar þessi lesendabréf.

 

Er það af ásettu ráði að þulur í svokölluðum Hraðfréttum Ríkissjónvarps talar svo hratt að hann er flestum áhorfendum óskiljanlegur? Ekki að það skipti svo sem neinu máli.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (20.09.20132) um flutning sjúklinga af Landspítala á Vífilsstaði brá fyrir stofnanamáli – fráflæðisvanda, – sem ekki er víst að allir hafi skilið. Málfar í fréttum þarf ekki að vera flatneskja en það á að vera auðskilið. Þá talaði fréttamaður um aðgerðaráætlun og að kostnaðurinn væri hundruð milljónir króna. Eðlilegra hefði verið, að mati og málsmekk Molaskrifara að tala um aðgerðaáætlun og að kostnaðurinn næmi hundruðum milljóna króna.

 

Ánægjulegt var í morgun ((21.09.2013) að hlusta á Rás eitt á útvarpsperlu, þátt Jón Karls Helgasonar um Leyndardóma vínartertunnar, af slóðum Íslendinga í Vesturheimi. Þátturinn var frá 1995, fyrsti þáttur í þáttaröð frá þeim tíma. Vonandi fáum við að heyra fleiri þætti úr þessari þáttaröð. Vel unninn og vandaður þáttur. Sannkölluð perla. Eitthvað annað en ruslið sem Ríkissjónvarið bauð upp á í fyrra úr vesturheimi, – það stendur til þó allt  til bóta. Egill Helgason undirbýr nú nýja þáttaröð að vestan. Áhugamenn um samskiptin við  vini okkar vestra bíða þeirra þátta með eftirvæntingu

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Arnbjörn skrifar:

    Gefum Jóni Aðalsteini Jónssyni orðið um það að berast á banaspjót: „Þar bendir [Ari Páll Kristinsson] á, að elzt muni vera að berast á banaspjót, en merking þess er sú „að sækjast hvor eftir annars lífi“. Hér er berast á notað gagnverkandi, þ.e. bera hvor á annan, sbr. að slást, þ.e. slá hvor annan. Þannig er hugsunin sú, að hvor ber banaspjót á hinn, þeir beita vopni hvor gegn öðrum. Hins vegar hefur þetta fyrir löngu verið misskilið og menn ályktað sem svo, að smáorðið á ætti að stýra hér þágufalli. Þannig hefur komið upp orðtakið að berast á banaspjótum. Trúlega er sú gerðin orðin svo almenn, að lítt tjói við að fást. Aftur á móti er sjálfsagt að benda á hina upprunalegu gerð orðtaksins: að berast á banaspjót.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>