«

»

Molar um málfar og miðla 1306

Það var sérkennilegt að hlusta á hádegisfréttir útvarpsstöðvanna á fimmtudag (19.09.2013). Annarsvegar var sagt frá viðtölum við Sigmund Davíð Gunnlaugsson þar sem hann lýsti fyrir útlendingum í London þeirri dýrðar og blómatíð sem nú ríkti á Íslandi á Íslandi. Íslendingar gætu kennt öðrum þjóðum og vísað þeim veginn út úr kreppunni. Hér hefði nánast allt verið rétt gert og vandamálin leyst. Á Íslandi blómstraði efnahagslífið og atvinnulífið stæði vel. Hvatti hann erlenda áheyrendur til að koma með fé sitt il Íslands

Á hinn bóginn var vitnað í Fréttablaðsgrein og rætt við Svönu Helenu Björnsdóttur formann Samtaka iðnaðarins. Svana Helen dró upp dálítið aðra mynd. Hún segir nú svo komið að hátækni og hugbúnaðarfyrirtæki flytji í stórum stíl frá Íslandi og einkum vegna gjaldeyrishaftanna og gjaldmiðilsins. Krónan væri ónothæfur gjaldmiðill og lífskjör hér léleg í samanburði við nágrannalöndin. Þá ríkti hér óstöðugleiki í efnahagsmálum og stjórnmálum. –. Ráðherrann var mikill á lofti, fór með himinskautum. Formaður Samtaka iðnaðarins var að lýsa veruleikanum á Íslandi eins og hann snýr við þeim samtökum sem hún er í forystu fyrir.

 

Rýmingarsala, rýmingarsala , búðin lokar, sagði í útvarpsauglýsingu á fimmtudag. Það er ótrúlega algengt að textahöfundar og auglýsingasnmiðir flaski á því að nota sögnina að loka rétt. Búðin lokar engu, opnar ekkert. Búðinni er lokað klukkan sex. Búðin er opnuð klukkan níu á morgnana.

 

Hér er nýleg frétt af stöð tvö, sem Þorsteinn Davíð Stefánsson vísaði á. Þar skrifar fréttamaður: Heiði og Páli og að gruna. Hefði átt að vera: Heiði og Pál fór að gruna. http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVBAEC71C9-1B88-4CAC-B6F0-FAF1EB2A1C7B

 

Löng búktalaraauglýsing villtist inn í Kastljósþátt gærkveldsins (19.09.2013). Umræður hjá Jóhannesi Kr. Kristjánssyni um áfengisvandann voru ágætar og komið að málinu frá ýmsum hliðum.

Eftir situr setning sem Magnús Einar Magnússon frá Samgöngustofu sagði, en efnislega sagði Magnús, að hér á landi ríkti undarlegt umburðarlyndi gagnvart afbrotum í umferðinni. Þetta er mikið rétt og þarf ekki að aka langan spöl í borginni til að sjá umferðarreglur þverbrotnar.

Fagur fiskur er prýðilegur matreiðsluþáttur sem var skemmdur með útsendingarklúðri. Hvaða erindi átti dagskrárauglýsing inn í miðjan þáttinn? Annars eru uppskriftir og framsetning með ágætum. Fínt að kynna kosti makrílsins sem örugglega er meinhollur.

 

Dagskrá Ríkissjónvarps er stundum dálítið undarlega samsett. Í gærkveldi (19.09.2013) var á dagskrá klukkan 20:50 mynd sem var bönnum börnum. Klukkan 21:35 kom mynd sem var stranglega bönnuð börnum. Eftir tíu fréttir og veður kom svo mynd sem var stranglega bönnuð börnum. Nú eiga börn ekki að sitja heilu kvöldin við sjónvarpsgláp, en þetta er óneitanlega svolítið undarleg uppröðun efnis.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Föd

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þér, , Bergsteinn, rétta skal rétt vera.

  2. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Kynningarstjóri Umferðarstofu heitir Einar Magnús Magnússon, ekki Magnús Einar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>