«

»

Þess vegna borgar þjóðin milljarð að óþörfu

 

Glöggur maður benti mér á það í dag hversvegna  bæjarstjórnarmeirihluti  Sjálfstæðismanna  í Garðabæ gengi  fram með slíku offorsi,- ofbeldi, liggur mér  við að segja, – við lagningu hraðbrautar eftir  endilöngu Gálgahrauni sem er friðað eldhraun á náttúruminjaskrá.

–  Þetta er einfalt, sagði hann. Nú (þegar heilbrigðiskerfið er að hrynja) er þjóðin látin borga rúmlega þúsund milljónir í óþarfan veg, sem  byggður er á  mikilmennskuhugmyndum bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Vegna þess að þjóðin öll  borgar þennan veg en  ekki bæjarsjóður Garðabæjar  er málið keyrt áfram, að þessari hörku, bætti hann við.

Bæjarstjórnarmeirihlutinn úthlutaði lóðum fast upp að núverandi Álftanesvegi og lofaði þeim, sem þær fengu, að nýr vegur yrði lagður um  Gálgahraunið. Álftanesvegurinn yrði því einskonar íbúðagata. Þessvegna var byggt fast upp að núverandi vegi, mest hús í gamla Höfðaborgarstílnum, – einstaklega lítið aðlaðandi byggingar , svo ekki sé  nú sterkar að orði kveðið!

– Verði  nýr vegur ekki lagður, munu þeir sem þessar lóðir fengu  fara í  mál við Garðabæ og krefjast skaðabóta. Þá verður bæjarsjóður Garðabæjar að borga, en  ekki þjóðin öll,  fyrir  þessi hrappallegu  skipulagsmistök bæjarstjórnarmeirihlutans  í Garðabæ.  Þessvegna  lætur bæjarstjórnin svona, sagði  þessi ágæti  maður.

Þessi skýring  er rökrétt og  gæti alveg verið rétt.

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þetta sem þú segir er reyndar rangt í flestum atriðum. Vegurinn fer yfir gamla slóða, – þetta er friðað eldhraun á náttúruminjaskrá, – umhverfismatið á við allt aðra framkvæmd og framkvæmdleyfið löngu úr gildi fallið. Þetta er löglaus framkvæmd.

  2. Margret S. skrifar:

    Það eru um 20 ár síðan þessi vegur var fyrst skipulagður og 10 ár síðan hann var samþykktur. Vegna framtíðaráforma um byggð á Garðaholti og meiri byggð á Álftanesi og ekki síst vegna umferðaröryggis. Vegurinn mun ekki eyðileggja Gálgahraun eða gömlu slóðana. Það er búið að breyta vegastæðinu vegna þess að Gálgahraunið sjálft er friðað. Þess vegna var vegurinn færður þannig að náttúruminjar héldu sér. Ég bý á Álftanesi og fullyrði að vegurinn er hættulegur á veturna, í hálku.
    Það er ömurlegt að þeir sem eru á móti veginum þurfa aldrei að keyra hann sjálfir á veturna. Það er ömurlegt að sjá þessa 20-30 manns stöðva þessar framkvæmdir dag eftir dag. Hvað kostar það? Og dómsmálið, hvað kostar það?

  3. Guðmundur Stefánsson skrifar:

    Nóg til af þessum hraunum og ný munu koma

  4. Eiður skrifar:

    Ég held að sá ágæti maður sem benti mér á þetta hafi einmitt hitt naglann á höfuðið. Áratuga völd hafa spillt þeim sem hér ráða ríkjum. Þeim finnst að lögin eigi einkum að gilda um aðra.

  5. Eiður skrifar:

    Svo sannarlega veit ég ekki hvað er til ráða. Í þessu bæjarfélagi þar sem sami flokkurinn hefur verið við völd í áratugi ræður ríkjum alveg sérstök pólitísk ómenning, sem sumir mundu kalla spillingu.

  6. stefán benediktsson skrifar:

    Þetta er alveg rétt og hefur legið lengi fyrir en spurningin er hvað á að gera í því máli.

  7. Haukur Kristinsson skrifar:

    Athyglisvert „sjónarhorn“.

    Kæmi mér ekki á óvart. Sjallarnir eru séðir og um leið frekir með endemum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>