«

»

Molar um málfar og miðla 1313

Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að ungir blaðamenn kunni mikið um bílasögu. Á forsíðu Moggans (26.09.2013) er mynd af sextugum Dodge Weapon á leið inn á Landmannaafrétt. Í myndatexta er bíllinn kallaður jeppi. Jeppi og Dodge Weapon (Weapons Carrier) eru tvær ólíkar tegundir bíla. Báðar tegundirnar komu hingað til lands með bandaríska hernum 1941 og voru eftir stríð mikið notaðir til fjallaferða og áttu sinn þátt í að opna öræfaslóðir. Dodge Weapon eða víponinn eins og þeir voru venjulega kallaðir var stærri og öflugri en jeppinn og framleiðandinn annar. Nöfn beggja voru íslenskuð á sinn hátt, jeep – jeppi og weapon – vípon. Þessi mögnuðu farartæki eiga sinn merka þátt í samgöngusögunni. Fáeinir eru enn til og sumir í góðu standi.

 

Af mbl.is (26.09.2013): Hallgrímur Þórhallsson, bóndi á Brekku í Fljótsdal, segir að bændum í Fljótsdal vanti enn talsvert margt fé, en hann óttast að margt fé hafi drepist í óveðrinu sem gerði …. , – Molaskrifari efast stórlega um að Hallgrímur bóndi hafi tekið svona til orða, heldur sé þetta þágufallsorðalag heimabakað í Hádegismóum.

 

Ekki heyrði Molaskrifari betur í morgunútvarpi Rásar tvö (26.09.2013) en rektor Háskólans í Reykjavík beitti brellunni, sem við kenndum við stjórnmálamanninn Gunnar Thoroddsen, – með réttu eða röngu á fréttastofunni í gamla daga. Í stað þess að svara spurningu fréttamanns , sagði hann stundum: Já, en áður en ég svara því langar mig til að benda á …. Og komst yfirleitt upp með það! Þegar viðmælandinn hefur lokið máli sínu án þess að svara spurningunni er spyrillinn búinn að gleyma um hvað hann spurði og tekur hugsunarlaust næstu spurningu á blaðinu hjá sér.

 

Breyting hefur verið gerð á viðmóti vefs Ríkisútvarpsins. Molaskrifara þykir hún ekki bóta. Þetta var fínt eins og það var. Vefurinn hefur um flest verið til fyrirmyndar. Stundum er þó óskiljanlega löng bið eftir uppfærslum. Það á aldrei að gera við það sem ekki er bilað.

 

Í tíufréttum Ríkissjónvarps (26.09.2013) var sagt frá fjölmennum baráttufundi grunnskólakennara í Iðnó í Reykjavík. Kennari sem rætt var við talaði um dropann sem fyllti mælinn. Grunnskólakennarar verðskulda betri kjör, en þeir eiga að kunna að fara rétt með algengustu orðtök tungunnar. Það er ekki dropinn sem fyllir mælinn. Kornið fyllir mælinn.

 

sem koma í stað Silfur Egils, sagði fréttamaður í Ríkissjónvarpinu á miðvikudagskvöld (25.09.2013) . Betra hefði verið: … sem koma í stað Silfurs Egils.

 

Lesandi spyr (26.03.2013): ,,Það er búið að vera mikið í umræðunni að undanförnu orðið drone og á íslensku hefur það verið kalla dróni.
Eru fjölmiðlamenn virkilega ekki með betra orð? Þegar fólk heyrir orðið dróni eða drone hrekkur það í kút og finnur fyrir ógn.” – Hafa lesendur tillögu að betra orði yfir þessi fjarstýrðu vígtól?

 

Gaman að sjá gamla fréttahaukinn Morley Safer í CBS 60 Minutes á DR 2 í gærkveldi (27.09.2013). Hann verður áttatíu og tveggja ára 8. nóvember. Hann hefur verið einn fréttamannanna í þessum þætti allar götur síðan í desember 1970, á þriðja ári þáttarins. Það er nokkuð gott úthald. Molaskrifari áttaði sig á því að hann horfir of sjaldan á þennan frábæra þátt.

 

Þessi pistill er númer 1313. Eins og handsápan í gamla daga. Hún hét 1313, bakteríudrepandi handsápa. Þessum pistlum er meðal annars ætlað að drepa málfarsbakteríur.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

13 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Góð ábending, takk.

  2. Jón Ingvar Jónsson skrifar:

    Molaskrifari ritar: „Breyting hefur verið gerð á viðmóti vefs Ríkisútvarpsins.“
    Sem sé, breyting var gerð á viðmótinu.. Betur færi á að segja að viðmótinu hafi verið breytt.
    Á góðri íslensku fer betur á að breyta en að gera breytingu.

  3. Tómas Tómasson skrifar:

    Ég er alveg sammála Jóni Daníelssyni. Ég skil ekki hvers vegna íslenskur almenningur ætti að hrökkva í kút eða fyllast ógn, við að heyra orðið „dróni“. Er það vegna þess að það er of líkt orðinu „dóni“ og rímar við það.

  4. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Jón. Ég hef reyndar notað orðið dróni áður í Molum. Sé raunar ekkert að því. Er það ekki bara hliðstætt við jeppann?

  5. Eiður skrifar:

    Það má færa rök fyrir því, Bergsteinn.

  6. Eiður skrifar:

    Reyndar ekki. Viðgerð, lagfæring.

  7. Jón Ingvar Jónsson skrifar:

    Molaskrifari ruglar saman breytingu og viðgerð. (Sbr.. skrif hans um vef Ríkisútvarpsins.)

  8. Jón Daníelsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Langoftast er ég sammála hverju orði í þessum pistlum, en hér langar mig að koma að athugasemd. Dróni er nefnilega ljómandi gott orð. Það fellur vel að málinu, tekur ljúflega beygingum og er umfram allt líklegt til að festa rætur. Tökuorð hafa þennan kost umfram mörg nýyrði. Jeppi er einmitt gott dæmi um vel heppnað tökuorð.

    Það getur verið varasamt að gefa gamalkunnum orðum nýja merkingu. Ég mæli með að við leyfum drekunum að lifa áfram í ævintýrum og skáldskap.

    Í tilefni fyrirspurnarninnar má taka fram að drónar eru ekki endilega „fjarstýrð vígtól“. Þetta eru ómannaðar flugvélar búnar gervigreind. Mannlausar flugvélar voru vissulega fjarstýrðar framan af, en fjarstýringin má heita úr sögunni. Og drónar eru ekki aðeins notaðar í hernaði, heldur einnig til margs konar eftirlits úr lofti og jafnvel í afar friðsamlegum tilgangi. Þá má t.d. nota við loftmyndatöku og kortagerð, ekki síst við gerð hæðar- og þrívíddarkorta.

  9. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    „Þegar fólk heyrir orðið dróni eða drone hrekkur það í kút og finnur fyrir ógn.“

    Er þetta þá ekki dæmi um velheppnað nýyrði? Drónar eru fjarstýrðar njósna- og vígvélar. Er ekki fyllsta ástæða til að finna fyrir ógn gagnvart þeim?

  10. Eiður skrifar:

    Raunarar mun áður fyrr líka hafa verið talað um dropann, sem fylli mælinn.

  11. Eiður skrifar:

    Sammála, Stefán, þetta hafði farið framhjá mér.

  12. Húsari. skrifar:

    Sæll Eiður.

    Í nútímamáli er talað um kornið sem fylli mælinn.

    Athugunarefni hvort orðasambandið eins og það var
    þekkt og skrifað á tímum Fjölnismanna megi ekki
    halda sér óbreytt og tala hiklaust um kornið sem fyllir mælirinn;
    orðið fallbeygðist eins á 19. öld í nefnifalli og þolfalli; mælir.

  13. Stefán Halldórsson skrifar:

    Hef tekið eftir því að Morgunblaðið kallar Drones stundum Dreka sem mér finnst mun betra orð en Dróni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>