«

»

Molar um málfar og miðla 1320

Gunnar skrifaði (04.110.2013):  ,,Þær sorglegu fregnir berast nú úr Efstaleiti að nafni elsta sjónvarpsþáttar landsins hafi verið breytt úr „Stundin okkar“ í „Stundin Okkar“. Þetta kemur fram í sjónvarpsauglýsingum um þáttinn. Líklega eru þetta bein áhrif frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, en þar er víst lenska að drita upphafsstöfum út um allt. Á íslensku er þetta rangt og leiðinlegt að vita til þess að þátturinn, sem er ætlaður börnum, skuli nú vera sendur út með stafsetningarvillu í nafninu.” Molaskrifari þakkar Gunnar þessa ábendingu, sem er hárrétt. Það er brýnt að ráða málfarsráðunaut að Ríkisútvarpinu. Það er greinilega enginn slíkur starfandi þar. Svona  slys ættu sér ekki stað, ef starfandi væri málfarsráðunautur  sem  sinnti starfi sínu.

 

Ásgeir skrifaði (06.10.2013). Hann þakkar fyrir Molaskrif og segir: ,,Hér er ábending:
Í þessum pistli (http://visir.is/tekid-sem-sjalfsogdum-hlut/article/2013710049919) er talað um langan tíma. Tíminn er teygjanlegt hugtak en pistlahöfundur hefði getað notað orðið „lengi“. Fleira í pistlinum, t.d. titillinn, er athyglisvert.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Á Stöð tvö hefur fréttaþulurinn Telma Tómasdóttir það fyrir sið að skipa áhorfendum að fara ekki langt, þegar fréttum lýkur og íþróttafréttir hefjast. Molaskrifari bregst jafnan við þessu með því að slökkva á Stöð tvö. Nýlega heyrði Molaskrifari þetta apað eftir í morgunútvarpi, – líkast til á Rás tvö. Svona éta fjölmiðlamenn oft hver eftir öðrum. Og stundum það sem síst skyldi.

 

 Hvað ertu að safna , spurði fréttamaður Stöðvar tvö (06.10.2013) telpu sem var að safna fé handa útigangsmönnum. Hverju ertu að safna? Hefði verið betra orðalag.

 

Í endalausu masi, og ekki mjög innihaldsríku, í morgunþætti Bylgjunnar ((07.10.2013) var talaði um neðari byggðir í Reykjavík. Það er ekkert til sem heitir neðari. Neðri.

 

Fréttaþulur í Ríkissjónvarpi (06.10.2013) sagði um dóma um kvikmyndina um Walter Mitty sem frumsýnd var í Bandaríkjunum að þeir hefðu verið lofsamir. Í fréttinni var sagt að dómarnir hefðu verið lofsamlegir, sem er betra. Orðið lofsamur þekkir Molaskrifari ekki.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Heill og sæll, Þorgrímur- satt og rétt hjá þér. K kv ESG

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Guðlaug. Þetta er góður kveðskapur. K kv Eiður

  3. Guðlaug Hestnes skrifar:

    Heill og sæll. Ég les alltaf pistlana þína og kaffið út í daginn byrjar á þeim. Það væri of langt mál að telja upp ambögurnar sem fara í taugarnar á mér, en læt hér fylgja snjalla hugleiðingu fengna úr Goðasteini frá 1968.

    Þegar enginn Íslendingur yrkir stöku,
    þá er okkar þjóðarsómi
    þorrinn mjög að flestra dómi.

    Mun þá jafnvel tungan týnd í tímans iðu,
    menning vor til grafar gengin,
    gleymdur Snorri, Njála gengin. Jónatan Jakobsson.

    Kær kveðja.

  4. Eiður skrifar:

    Sæl, Eirný. Fáránlegt orðalag. Takk.

  5. Eirný Vals skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég las frétt á vef Ríkisútvarpsins.

    http://www.ruv.is/frett/hafa-mokad-sidan-fjogur
    Þar segir meðal annars
    Sex af nýjum snjóruðningsbílum

    Hvað ætli borgin hafi marga nýja snjóruðningsbíla?
    Hvers vegna er ekkert af gömlu tækjunum notað?
    Gæti þetta verið ritvilla? Ætti kannski að standa sex af níu?

    Svo er yfirleitt talað um tæki til hálkuvarna og snjóruðnings. Tækin eru sett á bíla, nýja eða gamla, mikið notaða eða lítið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>