Á forsíðu Sunnudagsmogga (06.10.2013) segir í undirfyrirsögn: Valdi flutti erlendis þegar … Þessi ambaga breiðist út og hefur áður verið nefnd í Molum. (Sjá Molar um málfar og miðla 1311, 26. sept. 2013 http://eidur.is/3224). Valdi fluttist ekki erlendis. Hann flutti til útlanda. Flutti úr landi. Hélt ekki að þetta ætti maður eftir að sjá á forsíðu Morgunblaðsins, sem áður fyrr lagði metnað í að vanda málfar.
Það er af sem áður var í Morgunblaðinu.
Í Fréttablaðinu (03.10.2013) segir um óperuna í New York: En árið 2011 byrjaði að halla undir fæti .. Það byrjaði ekki að halla undir fæti. Það byrjaði að halla undan fæti; ástandið fór versnandi.
Í kálfi, ( eins og stundum er sagt) fylgiblaði um Hafnarfjörð og Garðabæ sem fylgdi Fréttablaðinu á föstudag (04.10.2013) segir: ,,Hollvinafélag Hellisgerðis stendur fyrir vinnudag í Hellisgerði 19. október næstkomandi …” Hér ætti að standa: Hollvinafélag Hellisgerðis stendur fyrir vinnudegi í Hellisgerði … Í blaðinu segir líka frá bakaríi í Lom í Noregi. þar stendur: ,, Þar er til dæmis um að ræða hamborgara úr úrvals nautakjöti sem ræktað er á svæðinu”. Molaskrifara finnst hæpið að tala um að rækta nautakjöt. Til dæmis hefði mátt tala um úrvals nautkjöt úr héraðinu eða af svæðinu.
Ágæt staðfesting á því í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (06.10.2013) að Landinn er góður og Útúrdúr eitthvert besta tónlistarefni sem flutt hefur verið á þessum vettvangi. Takk.
Molalesandi sendi Molum þessar línur (03.10.2013) um DV: ,,Sæll Eiður. Ég get ekki á mér setið að senda þér ,,steypu“ úr DV.
,,Skotárás í alríkisþinghúsinu
18:51 3. október 2013
Greint er frá því á vef BBC að hleypt hafi verið af byssum í alríkisþinghúsinu í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Lögreglumaður mun hafa særst í skotbardaga þar.
Skothríðin hófst um klukkan hálf þrjú að staðartíma og var blaðamönnum, starfsmönnum og ferðamönnum skipað að koma sér í skjól. Lögregla í húsinu sendi öllum starfsmönnum að auki tölvupóst, sagði þeim að læsa hurðum og gluggum og finna sér skjól.
Nánar þegar frekari fréttir berast
Uppfært kl 1906
Mesta viðbúnaðinum hefur verið aflétt, en skothríðin mun hafa átt sér stað við Hart skrifstofubygginguna rétt hjá þinghúsinu. Sjónarvottar segjast hafa heyrt í tólf byssuskotum.“
Molaskrifari hefur svo sem séð meiri ,,steypu” en þetta í ýmsum miðlum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
08/10/2013 at 17:22 (UTC 0)
Kærar þakkir Stefán, oft hef ég heyrt talað um Álftaneshrepp hinn forna. Það hefur ruglað mig í ríminu. Hreppnum var skipt 1878 í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Þakka þér leiðréttinguna. Vel veit ég um Álftaneshrepp á Vesturlandi, – í mínu gamla kjördæmi. En nú er þetta orðið eitt sveitarfélag að nýju. Ætti þá ekki að taka upp gamla nafnið yfir sveitarfélagið í heild? Garðabær í Álftaneshreppi.
Stefán Árnason skrifar:
08/10/2013 at 15:53 (UTC 0)
Ágæti Eiður. Þar sem þú ert oft að leiðrétta málfar og stundum að undrast yfir þekkingarleysi samborgara þinna, þá leyfi ég mér að benda á villu hjá þér. Í Kastljósi, þar sem þú ræddir við Gunnar Einarsson, talaðir þú að minnsta kosti tvisvar um Álftaneshrepp. Af samhengi mátti ráða að þú meintir Bessastaðahrepp. Álftaneshreppur er á Mýrum. Með kveðju, Stefán.