Trausti skrifaði (02.10.2013) vegna forsíðugreinar í Fréttablaðinu daginn áður:
Fyrirsögnin er: ,,Útilokað að fylla skörð læknanna”. Síðan segir:
,,Heimildir Fréttablaðsins herma að hér gæti skapast ófremdarástand liðist teymið í sundur, en það stendur á milli þess að senda þurfi sjúklinga í stórum stíl erlendis til lækninga með gríðarlegum tilkostnaði.“ Svo segir Trausti:
,,Því miður er ég svo illa gefinn að mér tekst ekki að fá neina vitræna merkingu út úr þessu.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta er óskiljanlegt rugl. Hvar er gæðaeftirlitið með fréttaskrifum í Fréttablaðinu?
Gunnar skrifaði (02.10.2013): ,,Heimir Már Pétursson talaði aftur og aftur um „reblíkana“ í hádegisfréttum Bylgjunnar 1. október sl. Hann er varla í akkorði við fréttalesturinn, er það?
Undarleg árátta hjá Matthíasi Má Magnússyni á Rás 2 að tala alltaf um „óttóber“. Hann hlýtur að vita að mánuðurinn heitir „október“, ótta er allt annað hugtak.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins 2. október var nokkrum sinnum talað um „lággjaldaflugfélög“, en líklega var átt við „lágfargjaldaflugfélög“. Ætli þetta sé leti eða hugsunarleysi? Sama á við þegar „lágvöruverðsverslanir“ eru kallaðar „lágvöruverslanir“.” Molaskrifari þakkar Gunnari sendinguna.
Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra (02.10.2013) talaði formaður Samfylkingarinnar um að versla innfluttan varning. Við verslum ekki innfluttan varning. Við kaupum innfluttan varning. Þessi ambaga er greinilega bráðsmitandi. Í þessum sömu umræðum talaði formaður VG um að vonandi bæri okkur gæfa til … Algeng villa. Vonandi berum við gæfu til. Iðnaðarráðherra talaði um að ganga erinda erlendra auðhringja!!! Það var og. Og sjávarútvegs- landbúnaðar- og auðlinda og ég veit ekki hvað, sagði að minnsta kosti tvisvar sjávarútveggnum. Hver er sá veggur víður og hár ….?
Einar Þorsteinsson fréttamaður sem talaði frá Alþingi var klæddur eins þingsetningu hæfði. Það eru ekki allir fréttamenn sem hafa rænu á því að klæðast eftir tilefninu. Gott.
Annars ætti að láta dagskrá Ríkissjónvarpsins í friði. Sjónvarpa stefnuræðunni á íþróttarásinni og útvarpa henni á Rás tvö.
Í Spegli Ríkisútvarpsins (02.10.2013) var sagt, – ef þetta markmið á að takast. Markmið takast ekki né mistakast. Hér hefði verið eðlilegra að segja: … ef þetta markmið á að nást, eða ef þetta á að takast.
Fyrsjáanlegt er að stóra holan við Hótel Sögu og Þjóðarbókhlöðuna verður áfram stór hola um ókomin ár. Var ekki Þjóðarbókhlaðan 17 ár í byggingu að minnsta kosti. Kannski stendur til að slá það met.
( Sjá til dæmis Vísbendingu: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3141293) Þessi langi byggingartími er talinn hafa hækkað byggingarkostnað bókhlöðunnar um 30% . Safnahúsið við Hverfisgötu, sem nú er kallað Þjóðmenningarhús og er ein glæsilegasta bygging höfuðborgarinnar, var byggt á tveimur árum. Tveimur árum, 1906 til 1908.
Bíð eftir að einhver fjölmiðlungurinn segi að holan sé komin til að vera! Fram hefur komið að búið er að setja 600 milljónir í fyrirhugað Hús íslenskra fræða sem á að rísa upp úr þessari holu. Vor þjóðlega ríkisstjórn sem ætlar að leggja sérstaka áherslu á vernd þjóðmenningar og tungunnar hefur ýtt þessu máli til hliðar, út í ystu myrkur, ásamt mýmörgum menningarmálefnum. Jafnvel þótt Háskóli Íslands eigi fjármuni til að steypa húsið upp eins og fram kom í fréttum (02.10.2013). Það er undarlegur íslenskur ósiður, sbr. Þjóðarbókhlöðuna á sínum tíma að hefja stórframkvæmdir án þess að sjá til lands í fjármálunum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar