«

»

Molar um málfar og miðla 1311

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ætlar að fresta gildistöku nýrra náttúruverndarlaga, sem taka áttu gildi þann 1. apríl 2014. Þetta er úr frétt í DV (25.09.2013). Þetta er auðvitað ekki rétt. Ekki er hér hægt að kenna reyndum blaðamanni um. Þetta er tekið beint af heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Sjá heimasíðu ráðuneytisins: http://www.umhverfisraduneyti.is/ Ráðherra getur hinsvegar lagt það til við Alþingi að gildistöku laga verði frestað. Það er svo Alþingis að ákveða hvort orðið verður við ósk ráðherrans. Ráðherra getur frestað gildistöku reglugerða, – ekki laga.

 

Upplýsandi og skemmtilegt viðtal við Erlend Sveinsson , forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands var í þætti Björns Bjarnasonar, Björn, á ÍNN í gærkveldi (25.09.2013). Gaman hefði verið að sjá kafla úr fleiri myndum sem þar bar á góma. Merkilegt að sjá sjö ára barn keyra Ferguson dráttarvél. Þjóðfélagið færi á hvolf ef þetta hefði verið tekið núna! Þetta var úr gamalli sovéskri heimildamynd um Ísland. Í Kvikmyndasafni Íslands hefur verið, og er,   unnið merkilegt menningarstarf, þótt það fari ekki hátt. Mörg undanfarin ár undir forystu Þórarins Guðnasonar,sem nýlega lét af störfum, en nú Erlendar,sem veit meira um íslenska kvikmyndasögu en flestir aðrir. Molaskrifari hvetur lesendur til að kynna sér kvikmyndasýningar safnsins í Bæjarbíói, – í sal sem er menningarverðmæti í sjálfu sér , – óbreyttur frá 1945 og líklega sá eini slíkur á Norðurlöndum.

 

Rafn skrifaði (25.09.2013): ,,Á vef Pressunnar er í dag frétt um að nemendur íhugi að flytja „erlendis“ að námi loknu. Ég fór strax að lesa til að sjá hvar viðkomandi hyggðust ljúka námi, því í mínum huga er aðeins hægt að nota orðið erlendis um dvöl utan Íslands ellegar flutning milli staða utan Íslands. Í ljós kom, að átt var við flutning frá Íslandi, landflótta.

Að tala um flutning erlendis þegar átt er við flutning frá Íslandi er ámóta og að tala um að ganga inni um dyr þegar átt er við að gengið sé inn um dyrnar. Þú getur verið inni og fært þig til inni (flutt milli herbergja inni), en þú ferð ekki inni þegar þú ferð inn.” Sjá:

Helmingur nema íhugar flytja erlendis strax að loknu námi

,,Einungis 13 prósent háskólanema í heilbrigðisgreinum geta hugsað sér að starfa á Landspítalanum til framtíðar. Helmingur þeirra íhugar að flytja erlendis strax að loknu námi við Háskóla Íslands..” – Kærar þakkir. Allt er þetta rétt, Rafn, og hefur raunar verið nefnt hér áður, en ekki svona skilmerkilega.

 

Sjálfsagt á Gísli Marteinn Baldursson eftir að gera ýmislegt gott í Ríkissjónvarpinu. Engu skal illu spáð um það. Honum er ýmislegt til lista lagt. Erfitt gæti honum þó reynst að ræða við fyrrum pólitíska samherja. Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi (25.09.2013) var haft eftir Páli Magnússyni útvarpsstjóra ,,að Gísli Marteinn hafi verið hæfasti sjónvarpsmaðurinn sem stóð til boða í þessa dagskrárgerð”. Kannski hefur útvarpsstjóri ekki áttað sig á því að með þessi orð hans voru áfellisdómur  um starfslið Ríkissjónvarpsins.

 

Forn/úrelt merking sagnarinnar að fífla er ( segir í Íslenskri orðabók) að gabba eða glepja. Í þeirri merkingu ber að skilja leiðara DV á miðvikudag (25.09.2013) þar sem Ingi Freyr Vilhjálmsson skrifar um Framsóknarflokkinn: ,,Þó að Framsóknarflokkurinn hafi stundað alla þessa endurskoðun þá hefur flokkurinn enn ekki staðið við stóru orðin sín frá því í vor; stóru orðin sem voru stærsta ástæða þess að flokkurinn fíflaði fjórðung kjósenda til að setja X við ókeypis peninga”. Í nútímamáli þýðir sögnin að fífla að fleka, að tæla til kynmaka. Sumir mundu vafalaust segja að Framsóknarflokkurinn hafi flekað kjósendur.

 

Meira um Framsókn úr DV (25.09.2013). Á baksíðunni er haft eftir efnahagssérfræðingi og þingmanni Framsóknarflokksins, Frosta Sigurjónssyni:,, Það er bara ,,public execution” í gangi”. Fyrir þá sem ekki eru góðir í ensku þá þýða orðin public execution opinber aftaka. Hversvegna talar þingmaðurinn ekki íslensku? Er hann ekki að tala við Íslendinga? Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: ,,Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, (leturbr. mín) vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan. – Það dugar illa að skrifa eitt og segja annað.

 

Fram kom í fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi (25.09.2013)að frásögn af fundi Ólafs Ragnars og Pútíns sé  með allt öðrum hætti á heimasíðu embættis forseta Íslands en frásögnin á heimasíðu rússneska forsetaembættisins. Þetta kemur stórum hluta þjóðarinnar ekkert á óvart, – margir þekkja nefnilega hvernig Ólafur Ragnar lítur á staðreyndir þegar hann segir frá sjálfum sér og sínum ímynduðu  afrekum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

1 ping

  1. Eiður skrifar:

    Rétt ábending, Eirný. Það er sífellt verið að rugla þessu saman.
    K kv Eiður

  2. Eirný Vals skrifar:

    Í Bítið – Ertu týndur? Erum við að verða háð staðsetningartækjum (GPS)?
    Svo var spurt að morgni 26. september.

    Ég spyr, er munur á að vera villtur og týndur?
    Ég hef nokkrum sinnum villst. Ég hef nokkrum sinnum leitað á korti og reynt að finna út hvar í borg ég er.
    Aftur á móti hef ég aldrei týnst.

  1. Molar um málfar og miðla 1319 | Skrifað og skrafað skrifar:

    […] út og hefur áður verið nefnd í Molum. (Sjá Molar um málfar og miðla 1311, 26. sept. 2013 http://eidur.is/3224). Valdi fluttist ekki erlendis. Hann flutti til útlanda. Flutti úr landi. Hélt ekki að þetta […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>