«

»

Molar um málfar og miðla 1310

 

Gunnar skrifaði (25.09.2013): ,,Sæll, Eiður. Nú eru auglýstir væntanlegir þættir á Stöð 2, sem eiga að heita því ömurlega nafni: „Ísland got talent“. Hæfileikakeppnir í þessum dúr heita t.d. „Talang“ í Svíþjóð. Það er sænska orðið yfir hæfileika. Norðmenn nota norska nafnið „Norske talenter“ og í Danmörku heitir þátturinn danska nafninu „Talent“. Þá heitir hann t.d. „Minuta slavy“ í Rússlandi, sem þýðir einfaldlega „Frægðarmínútan“. Þetta sannar það að ekki virðist nauðsynlegt að nafn þáttanna innihaldi enska orðið „Talent“
(þar sem þættirnir eru framleiddir undir erlendu sérleyfi) en á Stöð 2
þurfa snillingarnir að blanda saman íslensku og ensku í nafni þáttarins.
Þá hefði verið skömminni skárra að hafa allt nafnið á ensku. Ég er ansi
hræddur um að lágkúran hafi náð nýjum lægðum í Skaftahlíðinni að þessu
sinni. Nafnið eitt og sér fælir fólk frá því að horfa.” Kærar þakkir , Gunnar . Allt er þetta rétt sem þú segir. Nafngiftin ber vott um einstaka hugmyndafátækt og er atlaga að tungunni. Líta stjórnendur Stöðvar tvö á það sem hlutverk sitt að ráðast gegn móðurmálinu, gegn tungunni? Það er engu líkara.

 

Og hér er meira frá Gunnari (24.09.2013), sem er málglöggur Molalesandi: ,,Í sjónvarpsauglýsingu frá Símanum, segir Haraldur Gíslason, formaður
Félags leikskólakennara: „Ég spái stundum í því …“. En það er ekki rétt.
Hann spáir í það, hitt er þágufallssýki sem er ekki sæmandi manni í
þessari stöðu.” Það er rétt, Gunnar. Stundum er eins og enginn lesi eða hlusti áður en ambögunum er hellt yfir okkur.

 

Úr frétt á mbl.is (25.09.2013): Þriðjungur japanskra ungra kvenna dreymir um að ganga í hjónaband og vera heimavinnandi, … Þarna hefði auðvitað átt að standa: Þriðjung japanskra ungra kvenna dreymir um …. Ekki hefur sést eða heyrst að mbl.is hafi auglýst eftir prófarkalesara , yfirlesara.

 

Í morgunútvarpi Rásar tvö var í morgun (25.09.2013) fróðlegt viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um málefni hælisleitenda. Hún virðist ætla að taka þessi mál mjög skynsamlegum tökum að fyrirmynd Norðmanna. Þetta hefur verið í rugli í mörg ár. Umsjónarmenn hefði getað notað tækifærið og spurt þennan æðsta yfirmann Vegagerðarinnar um það sem margir telja lögbrot Vegagerðarinnar , – eyðileggingu Gálgahrauns með óþarfri vegagerð. Það var ekki gert. Hinsvegar var ágætt viðtal við Eydísi Franzdóttur úr stjórn Náttúruverndarsamtaka suðvesturlands fyrr í þættinum. Molaskrifari er reyndar ekki hlutlaus í því máli. Óvart talaði umsjónarmaður um Gálgavini þegar hann átti við félagið Hraunavini.

 

Það er ekki nýtt fyrirbæri, en virðist færast í aukana að útvarpsstöðvar, til dæmis Rás tvö Bylgjan og  Útvarp Saga tvö útdeili gjöfum frá fyrirtækjum í auglýsingaskyni. Molaskrifara finnst þetta orka tvímælis.

 

Það er sem betur fer sjaldgæft að rafmagnið fari, en það gerðist í Garðabænum (og víðar) nokkru fyrir miðnætti á mánudagskvöld (23.09.2013). Þá er maður óþyrmilega minntur á hve háður nútímamaðurinn er rafmagninu. Svartamyrkur yfir og allt um kring, ekkert sjónvarp og auðvitað ekkert netsamband. Leit hófst að vasaljósi , – eldspýtur heyra sögunni til. Kertakveikjari einhvers staðar í skúffu. Í fréttum Ríkisútvarps á miðætti og gott ef ekki líka klukkan eitt eftir miðnætti var tíundað rækilega að rafmagn hefði farið af í Hafnarfirði. Ekkert var minnst á Álftanes eða stóran hluta Garðabæjar þar sem einnig varð rafmagnslaust. Mbl.is hafði þetta hinsvegar rétt og nefndi líka Álftanes og hluta Garðabæjar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>