«

»

Molar um málfar og miðla 1321

Af mbl.is (07.10.2013): Samtökin fjögur, Hraunavinir, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, … Hér hefði verið eðlilegra að tala um fern samtök. Ekki fjögur samtök.

 

Margrét skrifaði (07.10.2013): ,,Í gær var sagt frá í fréttum útvarpsins að í norska sjónvarpinu verði sýndur þáttur, þar sem peysa verður prjónuð. Allt frá því maður rýr kind ….. (á væntanlega að vera rýir kind)
Svo var á Mbl.is í dag sagt frá því að lamb gekk laust á Akureyri, en það tókst að hafa hendur í ull hrútsins. Hvort um sig stakk mig í augu og eyru… “ Molaskrifari þakkar Margréti bréfið.

 

– Hvernig gengur þessi söfnun fyrir flóttafólkinu í Sýrlandi? Svona spurði umsjónarmaður í morgunþætti Rásar tvö (08.10.2013). Það er að sjálfsögðu ekki verið að safna fyrir flóttafólki. Strákurinn er að safna fyrir reiðhjóli. Það er verið að safna fé handa flóttafólki í Sýrlandi, til að rétta flóttafólki hjálparhönd. Annar umsjónarmaður í sama þætti bætti svo við (efnislega) að flóttamannavandamálið í Sýrlandi væri ekki að fara neitt eða ekki á förum. Það var og.

 

Í tíu fréttum Ríkissjónvarps (07.10.2013) var haft eftir umboðsmanni Alþingis um vistun geðsjúkra fanga í fangelsum að slíkt  … gæti nánast talist brot á mannréttindasáttmála Evrópu. Molaskrifari áttar sig ekki alveg á þessum ummælum. Annað hvort er þessi háttsemi yfirvalda á Íslandi brot á mannréttindasáttmálanum eða ekki. – Gæti nánast talist … er dálítið undarlegt og óljóst  orðalag í þessu sambandi.

 

Af mbl.is (08.10.2013): Strætisvagn keyrði útaf og þveraði við við Holtasel í morgun. Hvar er nú prófarkalestur, yfirlestur, mbl.is? Greinilega les enginn fréttir yfir áður en þeim er hent út á vefinn og í okkur lesendur. Hér hefur sennilega átt að standa: ,,Strætisvagn keyrði útaf og þveraði veg við Holtasel í morgun.” Eins og reyndar segir í fyrirsögn. Það er reyndar ekki nákvæmt. Ef bíll hefur farið út af (mjög ósennilegt er að vagnstjórinn hafi keyrt út af) þá þverar hann ekki veg. Bíllinn hefur farið þversum á götunni, veginum, vegna hálkunnar.

 

Dyggur Molalesandi benti á þetta á vef Ríkisútvarpsins (08.10.2013): Sex af nýjum snjóruðningsbílum sem borgin hefur yfir að ráða séu nú starfandi. Hvað eru nýju snjóruðningsbílarnir margir? Eru bílarnir starfandi? Þetta er hálfgert rugl. Var  kannski átt við sex af níu snjóruðningsbílum?  Enn kemur í ljós að enginn les yfir, ekki frekar en fyrri daginn. Það er lítið eða ekkert gæðaeftirlit á þessari fjölmennustu fréttastofu landsins.

 

Þjóðin getur andað léttað. Ásdís Rán með annan fótinn á Íslandi. Og ekki lýgur Mogginn. Merkilegt fréttamat mbl.is (07.10.2013). http://www.mbl.is/smartland/stars/2013/10/07/asdis_ran_med_annan_fotinn_a_islandi_2/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Arnbjörn. Á vef Árnastofnunar eru báðar orðmyndirnar rýr og rýir. Þannig að hvort tveggja er blessað þar á bæ.

  2. Arnbjörn skrifar:

    Eg fann þetta í þingræðu fjárbóndans Höllustaða-Páls frá 1974. Honum ætti beyging sagnarinnar að rýja að vera töm: „Eftirfarandi er haft eftir Sesari: Hygginn fjármaður rýr sauði sína en flær þá ekki.“

  3. Eiður skrifar:

    Ég skil hvað þú ert að fara Þorsteinn, en kannski má segja að þetta orki tvímælis, – en samt finnst mér rétt að tala um fern samtök, – þá hefði að vísu þurft að umorða framhaldið.

  4. Þorsteinn Th skrifar:

    „Af mbl.is (07.10.2013): Samtökin fjögur, Hraunavinir, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, … Hér hefði verið eðlilegra að tala um fern samtök. Ekki fjögur samtök.“

    En hvernig ætti þetta þá að vera?

    „Samtökin fern, …“ eða „Fernu samtökin, …“? „Hin fernu samtök, …“

  5. Þorgrímur Gestsson skrifar:

    Sæll vertu Eiður.
    „Sex af nýjum snjóruðningsbílum sem borgin hefur yfir að ráða séu nú starfandi.“
    Finnst þér ekki ankannalegt að hafa sögnina í viðtengingarhætti þarna? Það finnst mér eiginlega meira en það, ég tel að það sé hreinlega málleysa. Þarna á náttúrlega við að nota framsöguháttinn en þetta hefur færst mjög í vöxt og á víst að leggja áherslu á að það sé ekki blaðið/blaðamaðurinn sem tali heldur vimælandinn. En einhvern veginn var því nú komið skila á lipurlegri hátt þegar við fengumst við blaðamennsku!
    Með baráttukveðju,
    Þorgrímur

  6. Þorvaldur S skrifar:

    Mér fannst einmitt vel til fundið að Akureyringar hefðu hendur í ull hrútsins. Tæplega hefði farið betur á að segja að þeir hefðu haft hendur í hári hans?
    Þetta er svo burtséð frá því að alveg var bannað í minni sveit að taka í ull sauðkinda væri annars nokkur kostur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>