«

»

Molar um málfar og miðla 1322

Utanríkisráðherra lýðveldisins  skrifaði grein í Fréttablaðið á þriðjudag (08.102013). Í fyrstu tveimur málsgreinunum eru fjögur dæmi í sex línum um óeðlilega orðaröð í íslensku. Ráðherra skrifar..,, Evrópa er okkar mikilvægasti út flutningsmarkaður. Evrópa er mikilvægasti útflutningsmarkaður okkar. Þangað fara um 80% af okkar vöruútflutningi í dag og rúm 60% af okkar innflutningi eru frá Evrópu. Þangað fara um 80% af  vöruútflutningi okkar í dag og rúm 60% af innflutningi okkar eru frá Evrópu. Það er að mínu mati nauðsynlegt að styrkja okkar hagsmunagæslu í Evrópusamstarfi. Það er að mínu mati nauðsynlegt að styrkja hagsmunagæslu okkar í Evrópusamstarfi. Hvað er utanríkisráðherrann með marga aðstoðarmenn? Þrjá? Fleiri? Einhver þeirra hlýtur að geta skrifað fyrir hann.

 

Hópurinn verður í varðhaldi þar til honum verður flogið aftur til heimalandsins, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö (08.10.2013). Hópnum verður ekki flogið. Hópurinn fer flugleiðis til heimalandsins. Í sama fréttatíma var talað um króatísku fjölskyldurnar sem sendnar voru aftur til heimalandsins. Sem sendar voru aftur til heimalandsins, hefði verið rétt að segja. Þriðja dæmið úr sama fréttatíma: Fréttamaður talaði um gæði heys í heyrúllum og sagði : … en eru eins og svart og hvítt þegar kemur að gæði heysins. Þegar kemur að gæðum heysins, hefði hann betur sagt.

 

Iðinn bloggari skrifaði á fésbók (08.10.2013): ,,WHO telur að tóbak hafi grandað 100 milljónir á síðustu öld og geti drepið milljarð á þessari öld, ef ekki verður að gert.” Tóbak grandaði ekki 100 milljónir, heldur 100 milljónum.

 

Enn eitt dæmið um að fréttir eru ekki lesnar yfir áður en þær eru birtar á netinu: Mbl.is (09.10.2013) ,,Ég hafði áhyggjur af því að það var farið að skyggja og maðurinn hafði enga flogið flugvél áður og þekkti ekki takkana í stjórnborði vélarinnar, allt var dimmt hjá honum líka.“ Kæruleysi og virðingarleysi við lesendur af hálfu fjölmiðils sem mikið er lesinn.

 

Í gærkveldi , miðvikudagskvöld (09.10.2013) var þáttur á dagskrá Ríkissjónvarpsins sem hét Sveitapiltsins draumur. Hversvegna ekki hafa íslenska orðaröð í heita þessa þáttar? Hann hefði átt að heita Draumur sveitapiltsins. Hvar er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

7 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ýmislegt er leyfilegt í bundnu máli, – skáldaleyfi. Ég er svo illa að mér í dægurlagatónlist að þetta vissi ég ekki.- Kertaljós og klæðin rauð! Þannig er nú það. Kærar þakkir.

  2. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta, Markús.

  3. Arngrímur skrifar:

    Ég skil ekkert í þessu unga fólki með sitt bítlagarg! Af hverju getur það ekki bara farið í klippingu og notað rétta íslensku?

  4. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Sæll Eiður

    Sveitapiltsins draumur er eitt þekktasta lag í sögu íslenskrar dægurtónlistar. Það kom út fyrir hálfum fimmta áratug! En hvað finnst þér þá um Melónur og vínber fín? Ætti það ekki að vera Fínar melónur og vínber? Eða Melónur og fín vínber?

    Með kveðju
    Bergsteinn

  5. Markús Þórhallsson skrifar:

    Sæll Eiður. Svona orti Ómar Ragnarsson við lag sem hljómsveitin Mamas & the Papas gerðu vinsælt árið 1965:

    „Næðir dimm um grund norðanhríðin köld
    Nauðar rjáfrum í seint um vetrarkvöld
    Í svartamyrkri gljúpu svefninn linar þraut
    Sveitapiltsins draumur ber hann þá á braut

    Flýgur hann um geim í fjarlæg sólarlönd
    þar hann faðmar hýra mey á hvítri pálmaströnd
    Það þori ég svei mér ekki að nefna sem sveinninn lendi í
    En sveitapiltsins draumur sleppir ekki því

    Næðir dimm um grund norðan hríðinköld
    Nauðar rjáfrum í seint um vetrarkvöld
    Svartamyrkri gljúpu hann sveittur vaknar í
    Sveitapiltsins draumur er búinn enn á ný

    Sveitapiltsins draumur er búinn enn á ný
    Sveitapiltsins draumur er búinn enn á ný“

    „Draumur sveitapiltsins“ passar fremur illa við laglínuna.

  6. Eiður skrifar:

    Takk , Eirný. Ég er greinilega illa að mér í þessari tegund tónlistar ! orðarröðin er r0öng samt !

  7. Eirný Vals skrifar:

    Þátturinn var um Hljóma og bein tilvísun í lagið
    Sveitapiltsins draumur

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>