,,Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu síðasta sumar …”, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (09.10.2013). Eru fréttamenn hættir að geta sagt í fyrra sumar? Það er engu líkara.
Í sama fréttatíma var sagt frá svonefndu snjallúri sem virðist samkvæmt fréttinni til margra hluta nytsamlegt. Kostir úrsins voru tíundaðir í löngu máli og sjálfsagt flest sagt sem máli skipti, – nema hvað gripurinn kostaði, en það var þó áreiðanlega það sem flestir áhorfendur veltu fyrir sér.
Nú kalla knattspyrnumenn og íþróttafréttamenn knattspyrnufélög yfirleitt klúbba, ekki félög. Þetta eru að líkindum bein áhrif úr ensku, – frá ensku knattspyrnunni sem tröllríður þessu þjóðfélagi , að Molaskrifara stundum finnst. Þetta orðalag var notað í íþróttafréttum Stöðvar tvö (109.10.2013) á undan einstaklega innihaldslitlu viðtali við tvo íslenska markverði.
Í fréttum Ríkissjónvarps (09.10.2013) var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, alþingismaður, tvisvar spurð sömu spurningarinnar, en svaraði ekki. Einar Þorsteinsson, fréttamaður, gekk eftir svari, en skýrt kom fram að þingmaðurinn vildi ekki svara. Of algengt, því miður.
Úr frétt á dv.is (10.09.2013): Konan var sjúklingur á sjúkrahúsinu sem hafði verið saknað í rúmlega tvær vikur. Af þessum skrifum má ráða að sjúkrahússins hafi verið saknað !!! Úr sömu frétt á dv.is: Athygli vekur að umræddur stigagangur er tengdur öryggiskerfi sjúkrahússins, sem fer í gang ef hurðar hans eru opnaðar, … Hurðar? Hurðir.
Þessi fyrirsögn á pressan.is er líklega mörgum óskiljanleg: Drukkinn nakinn flugdólgur „teisaður“ eftir að hafa skorað flugstjórann á hólm (10.07.2013). Hér mun átt við að rafbyssu, svokallaðri, hafi verið beitt gegn manninum.
Molaskrifara hefur verið bent á að heiti sjónvarpsþáttar,s em hann vitnaði til í síðustu Molum , Sveitapiltsins draumur, sé tilvitnun í dægurlagstexta. Það sýnir hve illa Molaskrifari er að sér um þessa tegund tónlistar. Engu að síður er þetta óeðlileg orðaröð í íslensku. Þetta væri eins og hið fræga lag eftir Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar væri kallað Selstúlkunnar sunnudagur. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Hvenær hættir Ríkissjónvarpið að fleygja fréttunum burt af sínum stað til að rýma fyrir fótboltaleikjum? Sennilega aldrei. Ekki meðan íþróttadeildin ræður dagskránni. Til hvers er aukarásin, ef ekki fyrir íþróttir? Viðskiptavinir Ríkisútvarpsins eiga að geta gengið að fréttunum á vísum stað.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
11/10/2013 at 12:42 (UTC 0)
Hárrétt Sigurður. Þetta ,,síðasta sumar“ gengur ljósum logum í öllum fjölmiðlum. Mér finnst þetta óboðlegt orðalag.
Eiður skrifar:
11/10/2013 at 12:41 (UTC 0)
Hárrétt, Egill, – hugsaði ekki nógu langt eins og stundum kemur fyrir!
Egill skrifar:
11/10/2013 at 12:13 (UTC 0)
Halló! Er einhver heima? Hvorki hurðar né hurðir! Það eru dyrnar sem eru opnaðar. Tréhlerinn með handfanginu er hurðin og með honum eru dyrnar opnaðar! Fólk gengur svo um dyrnar, en ekki í gegnum hurðina!!!
Sigurður Karlsson skrifar:
11/10/2013 at 10:34 (UTC 0)
Hvað var átt við með „síðasta sumar“ í fréttinni?
Hafi verið átt við nýliðið sumar, sem vissulega er síðasta sumarið nú um stundir, hefði átt að segja „í sumar“ sem ekki verður misskilið þegar talað er um liðna tíð. Hafi hins vegar verið átt við sumarið þar á undan, þ.e.a.s. næstsíðasta sumar, hefði átt að segja „í fyrrasumar“ og ekki getað farið á milli mála hvað átt var við.