Í veðurfregnum (10.10.2013) var talað um veður á norður Snæfellsnesi. Eðlilegra hefði verið, að mati Molaskrifara, að tala um veður á norðanverðu Snæfellsnesi.
Í frétt á mbl.is (10.10.2013) segir: Níu fangar létu lífið í gærnótt í misheppnaðri flóttatilraun … Málglöggur Molalesandi spyr: ,,Skyldi í gærnótt vera í fyrrinótt?” Molaskrifari telur það líklegt, en þetta furðulega orðalag er orðið nokkuð útbreitt í fjölmiðlum og étur þar hver eftir öðrum eins og fyrri daginn.
Nafn bandaríska Repúblikanaþingmannsins John Boehner kemur oft við sögu í fréttum þessa dagana. Það tók fréttamenn nokkurn tíma að ná tökum á framburði nafnsins. Langflestum hefur tekist það. Sveinn Helgason fréttaritari Ríkisútvarps vestanhafs hefur alltaf verið með þetta á hreinu. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (11.10.2013) var þingmaðurinn kallaður /bóner/ ! Legg til að fréttamaður fletti upp orðinu boner í orðabók. Nafn þingmannsins er borið fram /bei´ner/. Það má heyra hér: . http://www.youtube.com/watch?v=FcaSe9O-y04 Þetta er ekki flókið. Á netinu er ævinlega hægt að finna réttan framburð, ef fólk er í vafa.
Molalesandi hafði samband símleiðs og nefnd hve notkun allkyns hikorða hefði aukist. Þetta væri eins og tölvuvírus sem breiddist hratt út. Ótrúlega algengt væri að heyra fólk sem rætt væri við í ljósvakamiðlum bæta inn í hverja eða aðra hverja setningu, sko, sko, hérna , hérna, sko hérna, sjáðu, skilurðu, … Það er alveg rétt að þetta er býsna algengt. Það var eins og við manninn mælt að skömmu síðar hlustaði Molaskrifari á endurtekinn útvarpsþátt. Þar var rætt við unga konu sem bætti, /héddna,héddna / inn í hverja einustu setningu og stundum oftar en einu sinni. Fólk gerir þetta ósjálfrátt og af vana. Stundum þarf ekki annað en að benda viðkomandi á þennan ósið. Þetta er nefnilega auðvelt að laga.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (10.10.2013) sagði fréttamaður: Þeir sem verið hafa að spá í þessu … Nokkuð algengt orðið að heyra þetta orðalag. Eðlilegra væri að segja: Þeir sem verið hafa að spá í þetta, þeir sem hafa verið að velta þessu fyrir sér.
Af dv.is (10.10.2013): Hún er hins vegar hógværðin uppmáluð og vill síður tjá sig um hina örlátu gjafagerninga en tekur fram … Það sem dv.is kallar hina örlátu gjafagerninga er að gefa útigangsfólki eina og eina pylsu. Orðið gjafagerningar er uppskrúfun yfir orðið gjöf og gjafir eru ekki örlátar. Gefendur geta verið örlátir. Ágætt dæmi um fréttaskrifara sem ræður illa við móðurmálið í fréttaskrifum.
Leggur sig hart fram við endurhæfinguna, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (11.10.2013). Leggur hart að sér við endurhæfinguna. Leggur sig fram við endurhæfinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar