«

»

Molar um málfar og miðla 1325

Molavin skrifaði (13.10.2013): ,,Jónas Kristjánsson hefur rétt fyrir sér þegar hann fjallar um hnignun hefðbundinna fjölmiðla. Þeir eru að verða gagnslausir þegar bezt lætur og oftar en ekki varhugaverðir vegna hroðvirkni og þekkingarleysis starfsfólks og metnaðarleysis stjórnenda.

 

Í Vísisfrétt 9. okt. sl. er sagt að íslenzka vegabréfið sé það áttunda bezta í heimi, samkvæmt „rannsókn“. Ekki er sagt hver mælikvarðinn er. Sé flett upp á heimasíðu umrædds raðgjafafyrirtækis, sem vitnað er til, kemur í ljós tvennt: Ekki er um „rannsókn“ að ræða heldur lista, og Ísland er ekki í áttunda sæti heldur 25. sæti. Listinn er einfaldlega yfir þann fjölda landa, sem handhafar viðkomandi vegabréfs komast til án áritunar.

 

Hér er fréttin:

http://www.visir.is/vegabref-fra-islandi-thad-attunda-besta/article/2013131009093

 

Og hér er heimildin:

http://www.ibtimes.com/best-passports-have-unrestricted-travel-around-world-1422038

 

Fréttabörn verða að læra að telja. Það er þó kennt i leikskólum.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Bergur benti á eftirfarandi á visir.is (11.10.2013):
,,Ungverskur ofurhugi hefur fundist látinn, daginn eftir að hann lét sig flakka í vængbúningi niður af fjalli í dal í Kína við æfingar fyrir heimsmeistaramót.“

http://www.visir.is/ofurhugi-lest-thegar-fallhlifin-opnadist-ekki/article/2013131019912 — Daginn eftir að hann lét sig flakka! Það var og!

 

Svokallað Smartland á mbl. is er ævinlega til sérstakrar fyrirmyndar um málfar , – eða hitt þó heldur. Þar var þessi fyrirsögn á föstudag (11.10.2013) Súpersmart ,,penthouse” á Aflagranda. http://www.mbl.is/smartland/heimili/2013/10/11/supersmart_penthouse_a_aflagranda/

 

Myndunum hefur verið skeytt saman, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (11.10.2013). Molaskrifari hefði sagt: Myndirnar hafa verið skeyttar saman.

 

Það breiðist út. Sýning á nýjum verkum Errós opnar í Hafnarhúsinu …. Sýningin verður opnuð. Hún opnar ekki neitt. Þetta er úr auglýsingu (12.10.2013) frá Listasafni Reykjavíkur á fésbók.

 

Þegar fótbolti er sýndur á venjulegum fréttatíma eins og gert var í Ríkissjónvarpinu á föstudag (11.10.2013) er ósköp kjánalegt að vera með aðalfréttir útvarps og sjónvarps á sama tíma, klukkan sex. Skömminni skárra væri að fá fréttirnar í sjónvarpinu strax að loknum fótboltanum og sleppa endalausu blaðri um boltaleik sem er lokið og þar sem úrslit liggja fyrir.

 

Bauhaus segist í auglýsingum vera byggingavöruverslun með drive in! Það er ömurlegt þegar fyrirtæki blygðunarlaust hræra saman íslensku og ensku í auglýsingum.

 

Eftir öll þessi ár ættu íþróttafréttamenn og leikjalýsendur að kunna að beygja nafn Eiðs Smára. Svo var ekki alltaf í lýsingu á knattspyrnuleik í Ríkissjónvarpi (11.10.2013). Þar var m.a. talað um sendingu frá Eið Smára. Sendingu frá Eiði Smára.

 

Það hvarflaði að manni að fyrsti þáttur framhaldsmyndaflokksins í Ríkissjónvarpinu, Fólkið í blokkinni, hefði villst úr Stundinni okkar inn í dagskrána á sunnudagskvöldi (13.10.2013). Þetta var annars alls ekki slæmt, en á vonandi eftir að batna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Sigurður.

  2. Sigurður H. Ólafsson skrifar:

    Sæll.

    Langar að senda þér tvennt. Annars vegar þetta:

    http://www.dv.is/frettir/2013/10/15/blokk-byggd-vitlausum-stad-789HBX/

    Hér heldur blaðamaður að rétt sé að nota orðið „yfirsést“ í merkingunni að „það hafi vart farið framhjá vegfarendum“, sem er auðvita alveg fráleitt. Sá sem ber ábyrgð á byggingunni, hefur yfirsést.

    Einnig þetta: http://www.dv.is/frettir/2013/10/15/blokk-byggd-vitlausum-stad-789HBX/

    Sem þarf ekki að útskýra nánar.

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Egill. Það er mörg snilldin!

  4. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég var að hlusta á þátt eftir hádegi í gær á Bylgjunni. Þar var umsjónarmaður þáttarins að rifja upp merkisatburði sem átt hafa sér þennan sama dag, 13. október, í gegnum tíðina. Meðal annars sagði hann “ þennan dag árið 1925 fæddist Margaret Tatcher en hún er nú lögst undir helgan stein “ Ég veit um einn „helgan“ stein og hann er í Mekka. Hvílir fyrrum forsætisráðherra Breta í Saudi-Arabíu ?
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>