«

»

Molar um málfar og miðla 1326

Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (12.10.2013): ,,Hlustaði í morgun á viðtal við unga konu, viðskiptafræðing, á Bylgjunni. Þar hrutu nokkur gullkorn af vörum, m.a. þessi:

,,Fólk þarf að fara að sparka í rassgatið á sér“

,,Við þurfum að fara að hætta að bregðast við eftir á og fara að bregðast við fyrirfram“

Og svo datt mér síðasta lúsin úr höfði: ,, Ég á mann, það er að segja átti fyrrverandi mann – frá Þýskalandi“

 

Þjóðfélagsvandinn á Íslandi er menningarvandi. Málnotkun Íslendinga, aðallega svokallaðra menntamanna, er vitnisburður um þennan vanda. Hefur þú lesið grein Orwell´s „Politics and the English Language“ (1946), sem þú getur fundið á Google („the present political chaos is connected with the decay of language“)? Þarna finnur þú kjarna málsins.”  Moalskrifari þakkar þetta ágæta bréf. Hann las þessa mögnuðu grein Orwells, sem var einn beittasti penni sinna tíma. Margt í greininni á við um íslenskuna í dag, eins og það sem stundum er kallað nafnorðahraungl. Hér er tengill fyrir áhugasama á þessa grein eða ritgerð, hugleiðingu Orwells: https://www.mtholyoke.edu/acad/intrel/orwell46.htm

 

Gaman var að sjá Spaugstofuna í opinni útsendingu á Stöð tvö Á laugardagskvöldið (12.10.2013) Spaugstofan er enn besta gamanefnið í íslensku sjónvarpi. Hraðfréttir Ríkissjónvarpsins verða eins og í besta falli barnalegur bjánagangur samanborið við Spaugstofuna. Þeim félögum förlast ekki. Þarna sáum við Vigdísi Hauksdóttur, alþingismann, tala um það í tvígang í ræðustóli Alþingis hvað ollið hefði hruninu ! Eftir Spaugstofan horfði Molaskrifari á ÍNN, Hrafnaþing, þar sem sjónvarpsstjórinn Ingvi Hrafn fjallaði um nafngreinda embættismenn og Samgöngustofu. Það var mjög eðlilegt og rökrétt framhald af Spaugstofunni.

Spaugstofan er næstum eina efnið, utan frétta, sem Molaskrifari hefur áhuga á Stöð tvö, en treystir sér ekki til að borga fyrir það átta þúsund krónur á mánuði.

 

Ný tækifæri í siglingaleiðum! Fyrirsögn af visir.is (12.10.2013). Í fréttinni segir: ,,Skipin sem komi þessa leið muni enda í vesturhluta Noregs eða austurhluta Íslands”. Það var og.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður hagræðingarhópsins, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (12.10.2014). Hvaða rugl er þetta? Guðlaugur Þór er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (12.10.2013) var talað um að versla innanstokksmuni. Hefði átt að tala um að kaupa innanstokksmuni. Sumum ungum fréttamönnum virðist algjör ofraun að skilja muninn á sögnunum að versla og að kaupa. Í sama fréttatíma var, ekki  einu sinni, heldur tvisvar, talað um sýninguna sem opnaði í Hafnarhúsinu. Mælst er til þess að Stöð tvö greini okkur frá því hvað það var sem sýning opnaði í Hafnarhúsinu.

 

Í ágætum Landaþætti á sunnudagskvöld (13.10.2013) í Ríkissjónvarpinu birtist á skjánum maðurinn sem fyrir hönd Banana ehf ber ábyrgð á því að í verslunum hér fást nær eingöngu óætar, þurrar og trénaðar appelsínur. Eiginlega uppgefinn á að kaupa appelsínur – og jarðarber sem þarf að byrja að henda úr daginn eftir að þau voru keypt. Bananar ehf bera víst líka ábyrgð á því.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Freyr Árnason skrifar:

    sæll aftur Eiður, samkvæmt korti á vef Landmælinga, og eldri kortum s.s. frá herforingaráði dana, kemur fram að þar sem vegurinn verður lagður heitir hraunið Garðahraun. Hvaðan hefur þú heimildir fyrir því að Gálgahraun og Garðahraun skarist nokkuð eins og þú heldur fram? Mörkin eru alveg ljós, og ef það er eitthvað á reiki hjá þessu fólki sem þú vitnar í, þá ætti það að kanna hvað opinberar heimildir segja, nema þá þú tortryggir Landmælingar, rétt eins og þú tortryggir Vegagerðina, þar sem þú varst sjálfur starfsmaður fyrir nokkrum árum síðan. Hvað varðar Álftaneshrepp hinn forna, þá var hann lagður niður löngu fyrir þína tíð.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Sigurður. Nafngiftirnar Gálgahraun og Garðahraun skarast nokkuð, – líka hjá þeim sem eiga rætur að rekja á þessar slóðir, mörkin ekki alveg ljós í hugum allra og eitthvað á reiki. Þetta er Álftaneshreppur hinn forni, sem seinna var skipt. Nú ætti að taka gamla nafnið upp. Garðabær í Álftaneshreppi. K kv Eiður

  3. Sigurður Freyr Árnason skrifar:

    Þetta er áhugaverðir punktar hjá þér. Ég er alveg sammála þér! Heppilegra er að fólk vandi mál og staðreyndir þegar það kemur fram opinberlega.

    Langaði að benda á Kastlósþátt þar sem viðtal var tekið við þig.
    http://www.ruv.is/umhverfismal/tekist-a-um-nyjan-alftanesveg

    Þar talar þú um að vegurinn fari í gegnum Gálgahraun þegar staðreyndin er sú að vegurinn fer í gegnum Garðahraun, einnig talar þú um Álftaneshrepp, en ekki Álftanes. Álftaneshreppur var annarsstaðar á landinu.
    kveðja
    Sigurður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>