«

»

Molar um málfar og miðla 1328

Hafdís benti á eftirfarandi (15.10.2013): ,, RUV 13. okt. 2013 , –
Fornar mannvistaleifar í Osló.
Fornleifafræðingar hafa fundið 9200 ára gamlan bústað manna í Ekeberg í Ósló. Þetta er elsti mannabústaður sem fundist hefur til þessa í Óslóborg. Hann fannst við rannsókn sem gerð var áður en höggmyndagarður verður opnaður í Ekeberg.
Í ljós kom að menn höfðu búið á staðnum á tímabilinu 7.200 fyrir Krist til 5.500 fyrir Krist og skilið eftir sig verkfæri hoggin úr tinnu og ýmsum öðrum steintegundum.
Rétt er að segja,,höggvin úr tinnu.“ Molaskrifari þakkar Hafdísi ábendinguna.

 

Áhugamaður um málfar í fjölmiðlum bað Molaskrifara að koma því á framfæri við íþróttafréttamenn vinsamlegast að þeir hættu að tala um að tiltekinn leikmaður sé góður varnarlega eða sóknarlega. Segja bara að íþróttamaðurinn sé góður í sókn, góður í vörn. Vonandi lesa íþróttafréttamenn þetta og íhuga málið. – Það er hægt að hafa frjótt mál í íþróttafréttum án þess að nota orðskrípin sóknarlega og varnarlega , sagði þessi ágæti maður.

 

Algjörlega ástæðulaust að leggja hálft Kastljósið undir fótbolta í gærkveldi, miðvikudagskvöld (16.10.2013).

 

Molaskrifari hlustaði á Sigurð Inga Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra, með meiru, lesa ræðu í ræðustóli alþingis á mánudag (14.10.2013). Ræðan var auðheyrilega samin af embættismanni/mönnum í ráðuneytinu. Ráðherrann las ræðuna eins og hann væri í kapplestri, í belg og biðu. Hann var alveg jafnóáheyrilegur og Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún var að lesa ræður frá embættismönnum í félagsmálaráðuneytinu. Gafst upp eftir fáeinar mínútur. Það er erfitt að hlusta þegar maður finnur að sá sem talar hefur engan áhuga á því sem hann er að segja. Hugsar bara um að koma textanum frá sér á sem skemmstum tíma.

 

Það á að gera þær kröfur til umsjónarmanna dægurmálaþátta í Ríkisútvarpinu að þeir fari rétt með nöfn. Í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudag (15.10.2013) var umhverfisráðherra rangfeðraður. Sagður Jóhannesson. Það er ekki mjög flókið að kunna skil á nöfnum ráðherranna í ríkisstjórn Íslands.

 

Í Speglinum (14.10.2013) talaði gestur um meginland Bretlands. Það þætti Bretum líklega dálítið skondið.

 

Óhætt er að segja að Ísland sé í verulegri eftirspurn, skrifar Páll Vilhjálmsson bloggari og ástmögur Moggans. Hann á líklega við að Ísland njóti mikilla vinsælda um þessar mundir.

 

Ágætur pistill frá Umferðarstofu  (væntanlega) um akstur í hringtorgum milli frétta og Kastljóss í Ríkissjónvarpi (14.10.2013). Þetta þyrfti að sýna að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Sárafáir ökumenn gefa stefnuljós þegar þeir aka út úr hringtorgi. Álíka margir og gefa ekki stefnuljós þegar þeir skipta um akrein. Það er engu líkara en sumir ökumenn setji metnað sinn í það að nota alls ekki stefnuljós.

 

Fyrirsögn á visir.is (15.10.2013): Útvarpssendingar Rúv niðri í fimm daga í Grundarfirði. Niðri hvar?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Nú er það svo að í gildandi umferðarlögum á Íslandi nr. 50 frá 1987 segir orðrétt í 18. grein: „Ökumaður, sem í þéttbýli nálgast biðstöð þar sem hópbifreið hefur numið staðar, skal, ef ökumaður hennar hefur gefið merki um að hann ætli að aka af stað, draga úr hraða og, ef nauðsyn ber til, nema staðar þannig að hópbifreiðin geti ekið frá biðstöðinni. Ökumaður hópbifreiðarinnar skal eftir sem áður hafa sérstaka aðgát til að draga úr hættu.
    Ökumaður, sem nálgast merkta skólabifreið sem numið hefur staðar til að hleypa farþegum inn eða út, skal hafa sérstaka aðgát. Sama á við þegar skólabifreið er ekið frá slíkum stað.“
    Sú klausa sem Gunnar vitnar til er í því lagafrumvarpi sem lagt var fram á Alþingi veturinn 2010-2011 en varð ekki útrætt og því ekki samþykkt sem lög.
    Af því leiðir að það er ekkert furðulegt að halda því fram að gildandi lög séu gildandi en lög sem kannski verða sett einhverntímann séu það ekki. Skora ég nú á Gunnar þennan að benda á paragraffa NÚGILDANDI laga um hringtorg og bann þeirra við akreinaskiptum. Slóðin er: http://www.althingi.is/altext/lagas/142/1987050.html og bendi ég sérstaklega á 28. greinina.
    Góðar stundir!

  2. Eiður skrifar:

    Veit ég það, Linda. En var þessi mynd samt ekki gerð á vegum Umferðarstofu?

  3. Gunnar skrifar:

    Í 3. kafla umferðarlaga, 18. grein, stendur skýrt og greinilega:

    Ökumaður sem ekur að hringtorgi skal veita þeim sem eru í torginu forgang. Í hringtorgi sem skipt er í tvær reinar skal ökumaður velja hægri rein, ytri hring, ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum og að jafnaði á vinstri rein, innri hring, ætli hann að aka fram hjá einum eða fleiri gatnamótum. Ökumaður á ytri hring skal veita þeim sem ekur á innri hring forgang út úr torginu. Óheimilt er að skipta um rein við hringtorg eða á milli ytri og innri hrings í hringtorgi.

    Furðulegt að halda öðru fram.

  4. Linda skrifar:

    Áður Umferðarstofa heitir Samgöngustofa í dag.

  5. Eiður skrifar:

    Sjálfsagt er þetta rétt hjá þér, Þorvaldur.

  6. Þorvaldur S skrifar:

    Þótt vitaskuld megi margt um akstur í hringtorgum segja hefi ég hnotið um það að víðast hvar er því haldið fram að ekki megi skipta um akrein á hringtorgi. Staðreyndin er hins vegar sú að það er hvergi bannað; akreinaskipti á hringtorgi eru jafnheimil og annars staðar í vegakerfinu. Þótt Umferðarstofa haldi banninu fram þætti mér gaman að sjá að hvaða paragraffi umferðarlaganna hún byggir það.
    Það eina sem umferðarlögin segja um hringtorg er að þar er bannað að stöðva eða leggja ökutæki. Að öðru leyti gilda almennar umferðarreglur í hringtorgum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>