«

»

Molar um málfar og miðla 1393

Gunnar skrifaði (20.01.2014): ,,Á vefsíðunni visir.is stendur nú: „Þorteinn Hjaltested krafðist þess að Kópavogsbær greiddi honum tæpa 7 króna milljarða króna fyrir vanefndir í Vatnsendamálinu.“
Þarna hefur einhver flýtt sér of mikið.” Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.

 

Úr frétt Ríkisútvarpsins (20.01.2014) um nasistamálið: ,,Einar segir að þeir hjá HSÍ vilji heyra hvernig Austurríkismönnum líði með þetta og það verði síðan séð til eftir fundinn hvernig þetta mál verði matreitt.” Nýr matreiðsluþáttur í uppsiglingu í sjónvarpinu? Ja, hérna, – hvílík snilld.  . http://www.ruv.is/frett/atlar-ad-hitta-austurrikismenn-i-dag

 

Enskuslettur útvarpsmannsins Andra Freys Viðarssonar í Virkum morgnum á Rás tvö í Ríkisútvarpinu eru ef til vill til marks um það að hann er ekki nægilega vel að sér í íslensku. Eða vilji sanna fyrir hlustendum að hann kunni hrafl í ensku. Enskuslettur eiga ekki heima í töluðu máli í Ríkisútvarpinu.

 

Gunnar skrifaði (20.01.2014): „… að greina hvert og eitt skilaboð …“ var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 17. janúar sl. Skilaboð er fleirtöluorð og því ekki hægt að segja svona.

Á dv.is er frétt um tvo menn sem fóru í kappakstur, en þar segir: „Þeim er einnig gert að greiða allan málskostnað, hver um sig 627 þúsund krónur.“ En þar sem þeir voru tveir, ætti að standa „hvor um sig“. – Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.

 

Fréttamönnum ljósvakamiðlanna virðist fyrirmunað að bera rétt fram heiti norska smábæjarins Lærdal, þar sem eldsvoðinn mikli varð. Undarlegt að reyna ekki einu sinni að hafa þetta rétt.

 

Í tíufréttum Ríkissjónvarps (20.01.2014) var sagt frá verðlaunum sem sænsk kvikmynd hefur hlotið. Fréttaþulur sagði að myndin hefði verið tilnefnd til ellefu verðlauna en hlotið fjögur. Myndin hlaut fern verðlaun, ekki fjögur verðlaun. Svo því sé til haga haldið, þá var þetta leiðrétt í hádegisfréttum og talað um fern verðlaun. Gott.

 

Í frétt um megrunartískubólur á Stöð tvö (20.01.2014) talaði Þórhildur Þorkelsdóttir fréttamaður um megrunartrend. Það er ekki íslenska.

 

Það er mikið tilhlökkunarefni að fá trompetleikarann Wynton Marsalis í Hörpu í sumar. Hann hefur gert marga góða sjónvarpsþætti. Hvað skyldi Ríkissjónvarpið okkar hafa sýnt marga af þáttunum hans?

 

Nýr veðurfræðingur var á skjá Ríkissjónvarpsins í kvöld (21.01.2014), Guðrún Nína Petersen. Hún  var eins og hún hefði aldrei gert annað en segja okkur veðurfréttir.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>