«

»

Molar um málfar og miðla 1401

Úr frétt á mbl.is (30.01.2014) um að mæðgin sitji bæjarstjórnarfund í Þórshöfn í Færeyjum. Í fréttinni segir … : Halla Samuelsen, bæjarfulltrúi, mun forfallast á fundinn í kvöld, … Þetta er klúðurslegt orðalag að ekki sé nú meira sagt. Gott hefði verið að segja til dæmis: Halla Samuelsen getur ekki sótt fundinn í kvöld. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/30/maedgin_i_baejarstjorn_thorshafnar/

 

Af vef mbl.is (30.01.2014): Bókmenntaverðlaun Íslands fyrir árið 2013, sem afhent voru á Bessastöðum í dag,… Verðlaunin heita Íslensku bókmenntaverðlaunin , að því Molaskrifari best veit. Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/30/hlutu_bokmenntaverdlaun_slands/

 

Á fimmtudagskvöldið sýndi færeyska sjónvarpið (Kringvarp (Føroya) þátt í þáttaröðinni Spískamarið. Þátturinn var frá Mykinesi. Ríkissjónvarpið okkar mætti gjarnan fá þessa ágætu þætti um færeyska matargerð , – meðal annars, – til að bregða á skjáinn hjá okkur, í stað þess að mata þjóðina á síbylju boltaleikja og amerísku  annars og þriðja flokks afþreyingarefni. Í Mykinesi er náttúrufegurð mikil. Þangað er ævintýri að koma á fallegum sumardegi.

 

Á vef Ríkisútvarpsins (30.01.2014) var sagt að dýraeftirlitsmaður hefði verið vikið frá störfum. Þetta var leiðrétt síðar. Dýraeftirlitsmanni var vikið frá störfum. Gott er þegar menn sjá villur í fréttum og leiðrétta. Það er reyndar of sjaldgæft.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (30.01.2014) var sagt að ekki hefði tekist að ná tökum á eldunum á norsku eyjunni Frøya. Rúmlega hálfri stundu áður horfði Molaskrifari á fréttir norska sjónvarpsins (NRK 1) þar sem fram komið að búið væri að hemja eldana. Rætt var við settan bæjarstjóra,sem var glaður í bragði, enda ástæða til.

 

Morgunspjall  Boga gott að  vanda á  Rás tvö á fimmtudagsmorgni (30.01.2014). Ekki gat hann séð fyrir frekar en aðrir að SF  (sem hann kallaði ,,gólandi komma”, –  svona í hálfkæringi eða gríni)  mundi hlaupa úr stjórninni hálftíma seinna!

 

Tvær amerískar þáttaraðir í beit í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi, á fimmtudagskvöld (30.01.2014), Frankie og Criminal Minds (enn einu sinni). Það eru slakir dagskrárstjórar sem ekki geta boðið þjóðinni upp á neitt betra en þetta.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>