«

»

Molar um málfar og miðla 1402

Athugull lesandi benti Molaaskrifara á þessa frétt á visir.is (30.01.2014):
http://visir.is/brynjolfur-haettir-hja-framtakssjodnum/article/2014140139896

Í fréttinni segir:

,,Brynjólfur Bjarnason, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands mun láta frá störfum eftir aðalfund sjóðsins þann 27. mars næstkomandi. Brynjólfur óskaði eftir því við stjórnina að láta störfum og hefur hún fallist á beiðni hans.” Brynjólfur ætlar að láta af störfum, – hætta störfum. Fréttabarnið talar ýmist um að láta frá störfum eða láta að störfum. Ótrúlegt og þessum miðli ekki til sóma, – er þá vægt til orða tekið.

 

Gunnar skrifaði (31.01.2014): ,,Samúel Karl Ólason skrifar frétt á visir.is: „… hefur höfðað mál á hendur Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu …“ Þarna er vitlaust beygt, en hér má sjá rétta beygingu: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=landsbjörg

Á sama vef skrifar Kjartan Atli Kjartansson: „Fangar á Litla-Hrauni þurfa eftir mánaðarmótin að koma með eigin sængur og kodda.“ Það var og. Mót hvaða mánaðar? Þegar tveir mánuðir mætast, er talað um mánaðamót, ekki mánaðarmót. (Sama vitleysan kom svo í annarri frétt um þetta á vefnum)

Og enn af sama vef: Ekkert samræmi er á beygingum í frétt Hönnu Rúnar Sveinsdóttur um Edduverðlaunin. Fyrirsögnin er: „Fimm fengu tilnefningu fyrir leik sinn í Málmhaus“ en rétt væri fyrirsögnin: „Fimm fengu tilnefningu fyrir leik sinn í Málmhausi“. Ef höfundi greinarinnar finnst ómögulegt að beygja nafn myndarinnar, hvers vegna skrifar hún þá: „Ilmur Kristjánsdóttir fyrir Ástríði 2“ en ekki „… fyrir Ástríður 2“?” Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.

 

Í morgunþætti Rásar tvö á föstudagsmorgni (31.01.2014) talaði Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður snöfurmannlega og tæpitungulaust um klúður innanríkisráðherra í svokölluðu lekamáli.

 

Molaskrifara finnst stórfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins (31.01.2014) svolítið skrítin: Lækkun verðbólgu gefur fögur fyrirheit. Betra hefði verið að segja: Lækkun verðbólgu lofar góðu.

 

Hvenær fáum við dagskrárkynningar í Ríkissjónvarpinu sem eru lausar við tilgerð og annarlegar áherslur? Það er nóg til af fólki hjá Ríkisútvarpinu sem getur gert þetta vel.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt, Helgi, reyndar sýnist mér að svo sé ekki og hef þ+á tilæ hliðsjóinar vef Árnastofnunar.

  2. Helgi Ólafsson skrifar:

    Málmhausi? Er það örugglega rétt þágufall?

  3. Eiður skrifar:

    Það er auðvitað hverju orði sannara, Valgeir.

  4. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Undarlegt, að blaða-og fréttamennska skuli enn vera opinn vettvangur fyrir fólk, sem hefur ekki náð neinu valdi á móðurmáli sínu. Maður sem talar um að „láta frá störfum“ og að „láta að störfum“ er auðvitað ekkert starfi sínu vaxinn og ætti að fá sér eitthvað annað að gera. Það fer nú ört vaxandi að menn kunni ekki að nota orðin „að“ og „af“, en þeir verða þá að fá sér aukatíma í móðurmálskennslu, – eða þá bara að hætta að basla við þetta!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>