Molalesandi skrifaði (31.01.2014): ,,Sat við skriftir í nótt og hafði útvarpið opið dágóða stund, Rás 2. Rödd kom inn á heila tímanum og sagði skilmerkilega að ég væri að hlusta á Rás 2 og hvað klukkan var. (þetta gerði viðkomandi á heila tímanum kl. 4, 5 og 6) – Sama rödd kynnti veðurfréttir. Undarlegt að viðkomandi skuli ekki lesa fréttir á heila tímanum.” – Já, það er meira en undarlegt. Það er óskiljanlegt. Það var liður í niðurskurði Páls Magnússonar að hætt yrði að segja fréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Felldir voru niður fjórir stuttir fréttatímar, klukkan eitt, tvö, fimm og sex. Það er óskiljanlegt að fjölmennasta fréttastofa landsins, fréttastofa Ríkisútvarpsins, skuli ekki hafa döngun í sér til að vera með fréttir á klukkutíma fresti allan sólarhringinn. Ríkisútvarpið er kostað af almannafé. Það sinnir ekki þjónustuhlutverki sínu. Ekki vegna fjárskorts. Heldur vegna vondrar stjórnunar. Vonandi breytist þetta með nýjum útvarpsstjóra.
Molaskrifara var verulega brugðið er hann hlustaði á upphaf Víðsjár í Ríkisútvarpinu eftir miðnætti á sunnudagskvöld (02.02.2014). Þátturinn hófst með því að afskræma og misþyrma sálminum Heyr himnasmiður og undurfallegu lagi Þorkels Sigurbjörnssonar sem sálmurinn er sunginn við.(Nær fullviss þess að sá var sálmurinn) Annar stjórnenda sagðist hafa heyrt sálminn við jarðarför. Þetta var með ólíkindum. Síðan fjölluðu þáttar stjórnendur um það sem þeir kölluðu ,,Tussu vikunnar”. Þá slökkti Molaskrifari fljótlega á útvarpinu. Ég hlusta ekki á útvarpið fyrir svefninn til að heyra trúarljóðum og trúarlegri tónlist misþyrmt eða til að hlusta á klám. Á hvaða vegferð er Ríkisútvarpið og hverjir stýra þeirri för? Þetta var næstum verra en nasistaslátrara ummæli íþróttaaulans á dögunum.
Velkominn í sjónvarpssal og heima í stofu sagði stjórnandi Gettu betur í Ríkissjónvarpi á föstudagskvöld (31.01.2014). Hann sagði einnig: Fyrst ætlum við að fá örstutt skilaboð. Hversvegna sagði Björn Bragi ekki að gera ætti auglýsingahlé? Hvers vegna að bulla um skilaboð? Í þessum þætti var spurt: Við hvaða borg stendur Gardermoen flugvöllur. Sagt var að Gardermoen flugvöllur stæði við Osló. Það er rangt. Gardermoen flugvöllur er tæpa 50 kílómetra frá Osló. Þetta er álíka bull og að segja að Keflavíkurflugvöllur sé við Reykjavík. Spurningahöfundar verða að vita um hvað þeir eru að spyrja.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps á föstudag (31.01.2014) talaði fréttamaður um þrjátíu og þrjár og hálfa milljónir !
Á vef Ríkisútvarpsins (01.02.2014) segir sjávarútvegsráðherra að hótanir Evrópusambandsins séu einskis virði! Molaskrifari er ekki hrifinn af þessu orðalagi. Getur verið að hótanir einhverra annarra séu mikils virði? Líklega á maðurinn við að hótanir Evrópusambandsins séu marklausar eða lítilvægar. http://www.ruv.is/frett/hotanir-um-refsiadgerdir-einskis-virdi
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
05/02/2014 at 13:12 (UTC 0)
Það er ekki réttur neins að taka verk annars manns og afskræma það. Það er ekki list. Réttlæting skemmdarverka vekur mér ólyst.
orlygur@ml.is skrifar:
05/02/2014 at 13:06 (UTC 0)
Það er ekki verið að níðast á verkinu. Það er einmitt verið að bauna á afskræmingu á fortíðinni í orðræðu nútímans. Verk Þorkels stendur ennþá fyrir sínu. Alveg eins og þjóðsöngurinn í Englum Alheimsins og ótal önnur verk sem notuð er í listaverkum.
Eiður skrifar:
05/02/2014 at 12:49 (UTC 0)
Það hefur enginn listamaður leyfi til að misþyrma verki annars listamanns, Þorkels Sigurbjörnssonar í þessu tilviki. Það er ekki list að níðast á verkum annarra. Þetta var ekki bara þeim sem þetta gerðu til háborinnar skammar, heldur Ríkisútvarpinu líka,- að hella þessu yfir landslýð. Menn geta klæmst eins og þeir vilja, en það gerir þá ekki að listamönnum. Þar þarf annað og meira að koma til.
Axel skrifar:
05/02/2014 at 11:17 (UTC 0)
Sjálfur segist molaskrifar hafa slökkt á útvarpinu fljótlega eftir ,,tussu vikunnar“… þá var nóg eftir af leikritinu. Listamenn hafa fullan rétt á að ögra. Og Rás 1 á að sinna því hlutverki að flytja ögrandi leikrit.
Axel skrifar:
05/02/2014 at 11:11 (UTC 0)
Þetta er eins langt frá klámi og hugsast getur. Þetta er á ádeila á klám og tómhyggju sem gengur yfir okkur daglega, t.d. í fjölmiðlum. Ef menn skilja það verður bara svo að vera. Listamenn hafa fullan rétt að vinna á þann hátt og gert er í þessu leikriti. Frábært framtak hjá víðsjá.
Þorvaldur S skrifar:
05/02/2014 at 06:58 (UTC 0)
Heyr!
Eiður skrifar:
04/02/2014 at 20:59 (UTC 0)
Ég hlustaði á þetta. Klám er klám.Misþyrming á fallegum sálmi er óþurftarverk. Þeir sem smekk hafa til, geta borið í bætifláka fyrir Ríkisútvarpið sem þarna varð sér til skammar.
Axel skrifar:
04/02/2014 at 17:38 (UTC 0)
Góð regla er að kynna sér málin og hlusta betur áður en skeiðað er fram á ritvöllinn með yfiirlýsingar og ásákanir á borð við vanhæfni og klám.
í tilteknum Víðsjá þætti voru flutt níu stutt leikverk eftir nemendur í listaháskóla Ísland. Fyrsta verkið (sem Eiður vísar í) var satíra um útþynnta og yfirborðskennda útvarpsþáttagerð í anda nútímans. Þetta var leikriit – ekki raunveruleg þáttagerð. Flutningurinn átti fullkomlega rétt á sér og gott hjá Rás 1 að gefa ungu og frjóu fólki tækifæri.
Eiður skrifar:
03/02/2014 at 19:30 (UTC 0)
Það er rétt, Valgeir.
Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:
03/02/2014 at 14:21 (UTC 0)
Það á að reka þá menn, sem geta ekki komið í útvarpið án þess að afskræma listaverk og klæmast. Og það á ekki að ráða þá aftur, fyrr en þeir hafa lært mannasiði.